02 apríl 2007

Aprílbyrjun

Ekki tókst að gabba mig 1. apríl þótt gerð hafi verið tilraun til. Fékk mér nefnilega döner í kvöldmatinn og einhverjum ruglukollum/snillingum hafði dottið í hug að bjóða upp á nýjungina döner með lamadýrskjöti á sérstöku tilboði!


Annars var ég viðþolslaus vegna sólbrunninna kinna í gær. Passa mig alltaf voðavel á sumrin og þegar ég fer í frí til útlanda að bera á mig sólvörn en núna er ég auðvitað ekki í neinu fríi og hreinlega steingleymdi að sólin gæti verið svona sterk. Úti er brakandi blíða svo ég mæli ekki með göngutúr í hádegissól fyrir fólk sem er hvítara en lak... jah nema það sé með sólvörn að sjálfsögðu.


Í dag hefst ný önn hér í Freiberg. Stundaskráin mín er ennþá að púslast saman því að bæði rekast námskeið á hvert annað og svo er ég að velta því fyrir mér að skipta um aukafag. Mundi þá hætta við samskiptatækni og taka landupplýsingakerfi og fjarkönnunarbúnað í staðinn. Ástæðan er sú að samskiptatæknin er nánast hrein tölvunarfræði og af henni er yfrið nóg innan skyldurammans (fullmikið eiginlega finnst mér) en í þessu nýja aukafagi er útlit fyrir eitthvað sem mér líst svolítið vel á: jarð- og landfræði blandaða stærð- og tölvunarfræði.


Um páskana er háskólinn svo rausnarlegur að gefa okkur tvo frídaga; föstudaginn langa og annan í páskum. Af þessu tilefni ætla ég að skjótast til Prag í fjóra daga og verð þar með ráð frá Tékklandsförum í hópi vina og fjölskyldu í farteskinu. Held það verði ágætt svona eftir prófastressið. Raunar er prófunum ekki alveg lokið. Síðasta munnlega prófið átti að vera nýliðinn föstudag en þegar ég mætti snemma um morguninn reyndist prófessorinn vera veikur og því var öllu frestað um óákveðinn tíma.


Hér er mikið skreytt fyrir páskana, jafnt úti sem inni. Tré og runnar farin að blómstra og egg hafa verið hengd á nánast annan hvern runna í görðum við heimahús. Ég fékk nokkra héra að gjöf og dreifði þeim um herbergið mitt. Tek kannski mynd af þeim seinna og bæti hér við. Reyndi líka að blása úr eggjum - þrjú krömdust en eitt tókst! Annað hvort er ég orðin of mikil brussa fyrir svona eggjaföndur eða eggjaskurnin hér í Þýskalandi er viðkvæmari en heima.

Engin ummæli: