Við héldum af stað frá Freiberg á fimmtudagseftirmiðdegi. Skírdagur er ekki frídagur hér en við vorum ekki í neinum tímum eftir hádegi þennan daginn og því ekki þörf á að skrópa til að ná lestinni til Dresden og þaðan Evrópulestinni til Prag.
Lestarteinarnir liðast meðfram Saxelfi gegnum Erzgebirge í "saxnesku Sviss" og því var margt að skoða út um gluggann á leiðinni. Veðrið var líka frábært alla ferðina. Oftast skýjað, stundum sól og alltaf vindur til að kæla sig.
Íslenski passinn minn vakti mikla lukku hjá landamæravörðunum sem skönnuðu hann í bak og fyrir og Matti benti mér á að fjallarefurinn minn sem geymdi föt, tannbursta og því um líkt væri minni enn nestispokinn - það var mér líkt! Þó til afsökunar að þarna var nesti fyrir tvo maga og Mattamagi stærri en minn.
Eftir rúmlega hálftímaferð með sporvagni og strætó fundum við stúdentagarðana uppi á hárri hæð með risastórum kumbaldablokkum og enn stærri íþróttaleikvöngum í Sovétstíl (allt risastórt, steinsteypt, grátt og farið að láta á sjá). Við tóku tungumálaörðugleikar og miklar stimpla-aðgerðir uns við fengum lykil að herberginu okkar. Það reyndist vera niðurgrafið ofan í kjallara undir tröppunum sem lágu inn í blokk 2.
Rimlar fyrir gluggum, illa farin húsgögn, gulnuð og götótt sængurföt - ég bjóst svo sem ekki við neinu betra en myglaðir veggir voru kannski einum of mikið af hinu góða. Eftir tvær nætur gátum við skipt um herbergi yfir á fimmtu hæð í blokk 3. Það var alveg fimmfalt betra - meira að segja klósettpappír við salernisaðstöðuna frammi á ganginum og sturtuherbergið ekki hálfkarað steypuvinnusvæði eins og í blokk 2.
Myglan var það eina sem hægt var að kvarta yfir í ferðinni. Allt hitt var alveg sérdeilis prýðilegt! Þarna uppi á hæðinni úði og grúði af stúdentum og allt var einhvern veginn svo öruggt - meira að segja ganga gegnum almenningsgarð upp strjált upplýsta hæðina seint á kvöldin var eitthvað til að hlakka til. Við einfaldlega tókum þann pólinn í hæðina að vera sem minnst í herberginu.
Hvað var svo brallað? Jú aðallega stunduðum við túristasvig. Það er ansisniðug íþrótt sem felst í því að forðast túrista upp að markinu þrír túristar á ferkílómetra eða þar um bil. Með þessu móti má nefnilega sjá alla helstu merkisstaði og miklu meira til án þess að líða eins og kind á leið í fjárrétt að hausti.
Einhvern tíma skaust upp í kollinn minn að eiginlega hefðum við þurft að hafa reiðhjól því fæturnir voru alveg búnir á því á kvöldin en á móti kom að þá steinrotuðumst við af þreytu og pældum ekkert í því hvort herbergið væri myglað eður ei. Spanað var um Prag þvera og endilanga og megináherslan á að skoða byggingar, garða og mann- og dýralíf.
Í bænum grautast margir stílar saman á skemmtilegan hátt - kúbismi, júgendstíll, barrokk, endurreisn, rómantík, rókókó, klassík, gotík og fleira og fleira sem ég hreinlega kann ekki allt að nefna! Hér og hvar var svo að finna litla friðsæla garða með tjörnum, fasönum, páfuglum og blómstrandi ávaxta- og magnolíutrjám. Einnig var gaman að spássera meðfram Moldá og skoða brýrnar.
Ofan af hæðinni þar sem við bjuggum mátti svo sjá hvernig borgin teygir sig út um allt og kassablokkirnar í útjöðrunum. Við hliðina á fótboltaleikvöngunum gríðarstóru voru byggingar sem hefðu sómt sér mætavel sem geimstöðvar í stjörnustríðsmynd og á einum leikvelli í risastórum almenningsgarði fundum við líka leikvöll með geimflaugaleiktækjum.
Leikvöllurinn sá arna varð á vegi okkar daginn sem við heimsóttum dýragarðinn. Hann reyndist nokkuð langt í burtu en allt sem við sáu á leiðinni (að ekki sé minnst á í garðinum sjálfum) bætti margfalt upp þreytta fætur. Við fundum til að mynda hverfi fullt af sendiherrabústöðum þar sem við lékum okkur að því að reyna að þekkja fánana úr fjarlægð, tré sem hægt var að ganga í gegnum, litríka hjólaskauta undir bekk (þeir pössuðu svakafínt en ég kunni ekki við að taka þá ef eigandinn kæmi seinna...), hestabúgarð og sumarhöll.
Dýragarðurinn var eins og þeir gerast bestir með góðu plássi fyrir dýrin og öll skilti á tékknesku, ensku og þýsku. Reyndar misstum við af öllum dagskrárliðum en tókst að fara inn í flest húsin áður en þau lokuðu og skoða öll útidýrin eftir að lokaði. Kerfið er sumsé þannig að maður getur verið inni í garðinum fram á kvöld þótt hætt sé að hleypa inn nýjum gestum og mörg dýrin farin inn í hús eða á tún utan við garðinn til að hvíla sig.
Alla morgna komum við við hjá Portúgölum sem reka matvörubúð fyrir stúdentana og keyptum brauð, jógúrt, saft, vatn og fleira en aldrei fór verðið yfir um 300 krónur íslenskar (þarf þó vart að taka fram að verðið var mun hærra á öllu slíku niðri í bænum). Auðvitað fórum við heldur ekki heim án þess að smakka nammigott tékkneskt gúllas, kartöflubollur (Klöße) og kryddpylsu á notalegri krá. Pabbi og mamma buðu okkur líka út að borða í afmælisgjöf á frönskum stað í Dansandi húsinu sem var mikil upplifun.
Í Austur-Evrópu er löng hefð fyrir að skreyta egg á páskahátíðinni. Ef ég man rétt þá eignuðumst við Líney einmitt bók um eggjaskreytilist þeirra þegar við fórum á lokamarkað Ríkisútgáfu Námsbóka í Þjóðskjalasafnshúsinu í denn (þar fékk ég líka fyrstu blokkflautuna mína, hárauða plastflautu!).
Skrautleg egg voru til sölu um allan bæ og einn daginn rákumst við inn á páskahandverkssýningu þar sem tékkneskir afar og ömmur með barnabörnin sín voru í miklum meirihluta gesta. Krakkarnir fengu nefnilega að spreyta sig hjá eldra handverksfólkinu sem sagði krílunum til við að flétta tágar, skera út fugla og skreyta egg listilega.
Meira man ég nú ekki í bili. Á heimleiðinni voru allar lestir þéttsetnar og gott að hafa pantað sæti fyrirfram og núna er liðin enn ein skólavikan. Ég hélt minn fyrsta stærðfræðifyrirlestur í vikunni og von er á fleirum þegar líður á þetta misseri. Síðasta prófið er svo í næstu viku og í þarnæstu viku ætla ég að heimsækja börn í grunnskóla hér í bæ og segja þeim frá Íslandi. Nóg að gera eins og venjulega og ekki spillir veðrið fyrir - eins og um hásumar á Íslandi og hægt að vera úti á hlýrabol á kvöldin!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli