03 apríl 2006

Tilboð á bilum!

Það tók mig laaangan tíma að kveikja á perunni. Þetta var bílaauglýsing en ekki tilboð á bilum á borð við I = [a;b].

Prófin eru annars farin að nálgast uggvænlega hratt. Tími mikillar togstreitu fer í hönd.

Helst eiga dagarnir

  • að þjóta hjá svo sumarið komi með sitt dirrindí, áhyggjuleysi og skólafrí
  • að dragnast áfram til að tóm gefist til próflesturs, prófblásturs og meiri próflesturs

Krónískt vandamál: Of fáar stundir í sólarhringnum!

Langar annars að deila með ykkur mánaðargamalli uppgötvun sem reyndist vera sniðug. Gefur ýmsar ágætar hugmyndir um forvitnilega tónlist.


Afmælispakkinn minn frá því ég var 2 ára er fluttur upp á bókasafn VR-II. Hún dvelur þar meir en heima hjá sér og um daginn heyrði ég taut um að ferðir fram og til baka tækju of langan tíma - eins gott væri að banka upp á hjá einhverjum garðálfanna á Eggertsgötunni, hertaka eldhúsið þeirra og kokka þar eitthvað sér og álfunum til tímasparnaðar, ánægju og yndisauka. Næst ákveður hún örugglega að sofa bara frekar þarna vesturfrá en hér á Laugalæknum...


Raunar er alveg rétt að ferðir með strætó gleypa tíma. Tólfan er hætt að ganga rétt. Bílstjórarnir segja það fræðilega ómögulegt að fylgja nýjustu áætlunarbreytingunni. Farþegarnir eru fúlir og pirraðir, bílstjórarnir þungbúnir og stressaðir og hverjum gagnast það? Hann Þórhallur hjá Strætó bs. segir að þessu verði kippt í liðinn en svo gerist ekkert. Hvað ætli þurfi marga pósta til breytinga? Ég giska á grilljón því það er jú örugglega dýrt að prenta stöðugt ný og ný áætlanaplaköt og fleira kynningarefni.


Eins gott að ég get nú hjólað á ný. Hjólið mitt er alltaf á áætlun. Þarf bara örsjaldan að pumpa í dekk, kippa keðjunni aftur á sinn stað eða slá á ískur með smurningu. Við eignuðumst meira að segja barselónska hjólatösku í síðustu viku. Hún er í prufuhjólun sem stendur.

Engin ummæli: