20 apríl 2006

Sumarkoma

Gleðilegt sumar!
~~~*~~~

Páskunum varði ég að þessu sinni í München. Þar sem ég tók með mér rok og rigningu að heiman varði ég drjúgum hluta "frísins" í grannfræðilestur. Það var svo sem fyrir fram planað en samt er aldrei hægt að vita fyrir fram hversu vel páskafríið nýtist fyrir prófin. Þetta var auðvitað ekki eintóm inniseta allan tímann - sund, hjóltúrar, flóamarkaður, klifur upp í kirkjuturn og fleira braut upp lesturinn.

Á sunnudaginn urðu tré og runnar skyndilega græn, vorið var komið til München. Ég held að það sé frekar seint enda veturinn búinn að vera harður og Isar, áin sem rennur gegnum borgina, var ekki tær eins og venjulega heldur gruggug af leir og gróðri sem barst með snjóbráðinni.

Á heimleiðinni var flugið frá München til Kaupmannahafnar illilega yfirbókað. Við vorum 5-6 í vandræðum. Í stað þess að sitja í makindum á Kaupmannarhafnarflugvelli með grannfræðina allan daginn þvældist ég því milli afgreiðsluborða, flugvéla, flugvalla og farangursþjónustufyrirtækja frá hádegi fram að miðnætti. Færibönd eru algjör snilld. Fæturnir mínir hefðu dottið af ef þeirra hefði ekki notið við á hlaupunum. Þeir náðu ekki einu sinni að hvílast í flugsetunum og þó var ég send frá München til Bremen og þaðan til Kaupmannahafnar.

Ég hef aldrei áður flogið í jafnlítilli flugvél milli landa eins og milli Bremen og Kaupmannahafnar. Hún var á stærð við Dornier (rörið) með 19 sætum, eitt og eitt hvoru megin við ganginn. Við vorum fjögur í vélinni auk tveggja flugmanna. Bissnissmaður, búttuð amma og sportkona voru hinir farþegarnir. Ömmunni leist ekki alveg á þessa flugvél. Ég rétti henni poka með hressingu á leiðinni því hún lagði ekki í að standa upp. Bissnissmaðurinn var hins vegar greinilega sjóaður í ferðum með þessu flugfélagi og teygði sig eftir nestinu um leið og hann var sestur inn í vél.

Farangurinn minn ákvað að fara í ferðalag. Hann fór til Frankfurt. Mér finnst að taskan hefði alveg mátt fara í heimsreisu og senda mér polaroid-myndir af sér víða um heiminn eins og garðdvergurinn hans pabba hennar Amélie gerði, jah fyrst hún var að þessu á annað borð... Ég spilaði því á skólaflautur í Tónskólanum og taskan kom svo seint í gærkvöldi, heil á húfi. Þar urðu fagnaðarfundir og eftir allt saman ágætt að hún fór ekki í heimsreisu.

Engin ummæli: