08 apríl 2006
Hvar er Freiberg?
Freiberg er um 48 þúsund manna háskólabær í Bundeslandinu Sachsen í fyrrum Austur-Þýskalandi.
Markgreifinn Otto von Meißen fór að gefa landsvæðinu Freiberger Mulde gaum árið 1156. Þar fannst mikil silfuræð árið 1168 og myndaðist bær kringum bækistöðvar námaverkamannanna.
Fljótlega festist nafnið Freiberg við bæinn, virki var byggt allt um kring og mikil uppbygging hófst. Reist voru m.a. sjúkrahús, kirkjur og klaustur og blómstraði bæði handverk og verslun. Bæjarmyndin hefur varðveist nokkuð vel en helstu byggingarstílar eru síðgotík, endurreisn og barokk.
Það sem helst er að sjá í Freiberg eru námurnar, miðbærinn og kirkjurnar en einnig er alveg bráðnauðsynlegt að heyra í 45-radda orgeli dómkirkjunnar í Freiberg sem þykir eitt hið hljómfegursta í heimi, smíðað af Gottfried Silbermann í upphafi 18. aldar.
Áður var talað um silfurbæinn Freiberg en nú á háskólabær betur við. Háskólinn heitir Technische Universität Bergakademie Freiberg og er þar höfuðáhersla á raun- og tæknigreinar, verk- og viðskiptafræði. Allt er það á einhvern hátt tengt jarðvísindum, efnafræði og auðlindum í takt við sögu bæjarins. Nú eru reyndar námurnar aðallega heimsóttar af nemum í vettvangsferðum og helsti atvinnuvegurinn ekki lengur námagröftur heldur þróun hálfleiðara og ljósspennurafhlaða.
Ég fer til Freiberg til að nema "Angewandte Mathematik" sem er hagnýtt stærðfræði. Helstu áherslugreinarnar eru tölvunarfræði, stærðfræðileg líkön og bestunarfræði en ég á eftir að ákveða mig hvaða línu ég vel.
Helstu kostir Freiberg svona fyrir utan námið eru að mínu mati náttúran allt um kring, lítill bæjarkjarni (stutt í allt), sundlaugar, góð aðstaða til íþróttaiðkunar við háskólann, Austur-Evrópa ekki langt undan og Dresden í seilingarfjarlægð með mikið tónlistar- og menningarlíf.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli