29 mars 2006

Hóst, snýt, hóst...

Æijæj... og þetta sem átti að verða vikan til að klára að lesa upp grannfræðina, vikan þar sem ég mundi æfa mig á blokkflautur einu sinni á dag út alla vikuna í fyrsta skipti frá áramótum!

Það verður víst einhver bið á því.

Eftir að hafa komist gegnum kuldaköst, Lapplandsreisu, aukaálagsvikur með tilheyrandi vökum fram á nótt yfir stærðfræðinni og hjóltúra í skólann í varla-hundi-út-sigandi-veðri er grautfúlt að lúta í lægra haldi fyrir lungnakvefi og pest akkúrat núna þegar álagið var loksins aðeins að þokast í áttina niður að því sem venjulegt gæti talist.


Get lítið kvartað samt. Líney Halla býr jú við mun stífara prógramm í eðlisfræðinni en gaf sér samt tíma til að kaupa handa mér hálsbrjóstsykur, sítrónur og engifer. Gott að eiga góða að. Heimatilbúni "sullseðillinn" undanfarna daga hefur samanstaðið af eftirfarandi:
  • kæstur hákarl
  • lýsi
  • ógeðisdrykkur (engifer, hvítlaukur, cayenne-pipar og sítrónusafi)
  • propolis-dropar
  • sólhattur
  • c-vítamín
  • kanil-pipar-te
  • norskir brjóstdropar
  • ætihvannarmixtúra
  • hvítlauksmjólkursull
  • lakkrísrótarte
  • sjómannsins besti vinur
  • strepsils-hálsbrjóstsykur
Veit ekki hvað ég geri ef þetta virkar ekki. Kannski fer ég að urra og glefsa í frakkalöf fólks af gremju. Njah... nei, það er frekar ólíklegt. En samt: Eins gott að þetta virki! Það er jú svo asskolli leiðinlegt að vera veikur.

25 mars 2006

Matarmenning

Af hverju ætli íþróttaæfingar, kóræfingar, tónfræðatímar, stutt námskeið, hljómsveitaræfingar (og svo mætti lengi áfram telja) séu svo oft á kvöldmatartíma sem raun ber vitni? Af hverju er mörg námsleiðin við Háskóla Íslands þannig skipulögð að helst þyrftu stúdentar að búa á bókasafninu og fá næringu í æð til að dýrmætur lestrartími fari ekki til spillis? Jafnvel er það svo að þegar fjölskyldan er saman komin til að borða, þá má ekki spjalla saman því einhver vill hlusta á fréttirnar í útvarpinu, horfa á sjónvarpið eða lesa blaðið í friði yfir matnum til að nýta tímann. Samt virðast allir vera sammála um að það sé fátt ánægjulegra og skemmtilegra en þegar sest er niður í rólegheitunum yfir góðum mat, skipst á skoðunum, sagt frá atburðum dagsins og spjallað um verkefnin fram undan.


Herlegheitin þurfa ekki að kosta mikið, hvorki í tíma, heilsu né sjóðum talið. Tilbúinn matur er yfirleitt bæði óhollari og dýrari en hráefni í heimatilbúinn mat og ef nokkrir koma saman gengur eldamennskan sjaldnast hægt fyrir sig. Það er helst að það þurfi að sigrast á "íslensku ofgnóttinni" eða hvað skal nú kalla þann sið að helst eigi að vera of mikill matur á borðum, afgangar af öllu og allir að borða yfir sig til að sýna nú fram á að maturinn hafi virkilega verið góður og nægur. Ég er viss um að leiðbeinendum, kennurum, stjórnendum, fyrirlesurum og öðrum forystusauðum þætti ekkert verra ef æfingar og námskeið væru skipulögð utan kvöldmatartíma. Hvað háskólanámið snertir verður hins vegar hver og einn að taka ákvörðun um hvað hann gefur sér tíma í. Þar er nefnilega víst að aldrei kemur dauð stund nema maður "búi hana til" sjálfur.

21 mars 2006

Gleði, gleði, gleði!

Jibbíjei! Styrkur frá DAAD er í höfn! Þá er einungis eftir að fá inni í einhverjum háskóla... og taddara!

15 mars 2006

Hernaðaráætlun fyrir baráttumál og fleira því ótengt

Mikið held ég að betur væri hlustað á þá sem berjast fyrir umbótum eða öðrum sínum hjartans málum ef þeir flyttu mál sitt á sama hátt og hann Árni Heimir líffræðikennari gerði í gær í Kastljósinu. Hann var rólegur, yfirvegaður, ákveðinn, rökfastur, jákvæður, bjartsýnn, prúður og stilltur. Veit ekki með ykkur, en eyrun mín lokast ósjálfrátt þegar fólk er með æsing, síbylju og endurtekur sömu frasana í stað þess að rökstyðja það sem það er að segja. Ég leyfi mér að spá því að Alþingi væri miklu fallegra og betra ef stjórnmálamenn tækju sér Árna til fyrirmyndar - alla vega nyti það meiri virðingar.


Nú er miðmisseristörninni að mestu lokið og eftir á að hyggja vógu kostirnir þyngra en gallarnir á nýju kennslufræðinni. Ég hugsaði vakin og sofin varla um annað en granngrúpur, einsleit rúm og samfelldar varpanir og var komin með ítrekaðar blóðnasir af löngum lestrarsetum og litlum svefni en vorpróflesturinn verður þá væntanlega aðeins viðráðanlegri fyrir vikið. Verð líka að segja, nú eftir mitt fyrsta munnlega próf í stærðfræði í háskólanum, að í hreinni stærðfræði er mun betra að taka munnlegt próf heldur en skriflegt.


Í næstu viku fer fram Blockseminar (samþjappað námskeið) um alþjóðasamskipti í þýskunni sem mér var boðið að taka þátt í. Dagskráin lítur spennandi út og þar sem þetta smellur innan í 20 eininga rammann þessa önnina ákvað ég að slá til. Skyldi ég vera með of miklar væntingar með því að vona að þetta bæti upp námskeið að nafni Hagnýt þýska II? Það námskeið á einmitt að fjalla um alþjóðasamskipti, boð og bönn á vinnumarkaði ofl. (og gerði það á skemmtilegan hátt fyrir jól í Hagnýtri þýsku I) en af einhverjum sökum hefur það frá því í janúar snúist um ómarkvissa kennslu í málfræði á framhaldsskólastigi svo maður missir athyglina eftir 10 mínútur og langar að hlaupa út stuttu síðar.


Regnskógunum er líka lítið hlíft og ljósritabunkinn farinn að nálgast óendanlegt. Pappírsflóðinu öllu mun ég síðan henda í vor því "hagnýta" efnið innan um málfræðiæfingarnar er svo úrelt! Argagarg. Við höfum reynt að tala við kennarann til að bæta námskeiðið en erum við það að gefast upp þar sem gagnrýninni er ekki tekið málefnalega heldur persónulega og hún sett úr samhengi. Ég er að hugsa um að gefa kennaranum þetta og kannski föndra úr pappírnum eitthvað skemmtilegt eftir að hafa notað þau sem krassblöð fyrir stærðfræðipælingar. Góð nýting?

03 mars 2006

Kennslufræði

Mér virðist sem nú sé nýjasta nýtt hjá stærðfræðiprófessorunum að fylgja kennslufræði Eggerts og hafa miðmisserispróf, hópverkefni og fleira miskræsilegt. Reynir hefur þó ekkert breytt sínum háttum og er það vel. Get ekki ímyndað mér að rökfræðiofurhugarnir hafi áhuga á miðmisserisprófi. Þeir mótmæla annars í skoðanaskiptaglugganum.


Þessi nýja (stutt síðan beiting hófst við stærðfræðiskor) gamla (langt liðið frá uppgötvun) kennslufræði hefur kosti og galla. Setur til að mynda venjulegu misserisrútínuna allnokkuð úr skorðum, gefur spark í rassinn við lesturinn og skapar almenna deilda-granngrúpu-ringulreið í kolli mínum. Við sjáum hvað setur.