Mikið held ég að betur væri hlustað á þá sem berjast fyrir umbótum eða öðrum sínum hjartans málum ef þeir flyttu mál sitt á sama hátt og hann Árni Heimir líffræðikennari gerði í gær í Kastljósinu. Hann var rólegur, yfirvegaður, ákveðinn, rökfastur, jákvæður, bjartsýnn, prúður og stilltur. Veit ekki með ykkur, en eyrun mín lokast ósjálfrátt þegar fólk er með æsing, síbylju og endurtekur sömu frasana í stað þess að rökstyðja það sem það er að segja. Ég leyfi mér að spá því að Alþingi væri miklu fallegra og betra ef stjórnmálamenn tækju sér Árna til fyrirmyndar - alla vega nyti það meiri virðingar.
Nú er miðmisseristörninni að mestu lokið og eftir á að hyggja vógu kostirnir þyngra en gallarnir á nýju kennslufræðinni. Ég hugsaði vakin og sofin varla um annað en granngrúpur, einsleit rúm og samfelldar varpanir og var komin með ítrekaðar blóðnasir af löngum lestrarsetum og litlum svefni en vorpróflesturinn verður þá væntanlega aðeins viðráðanlegri fyrir vikið. Verð líka að segja, nú eftir mitt fyrsta munnlega próf í stærðfræði í háskólanum, að í hreinni stærðfræði er mun betra að taka munnlegt próf heldur en skriflegt.
Í næstu viku fer fram Blockseminar (samþjappað námskeið) um alþjóðasamskipti í þýskunni sem mér var boðið að taka þátt í. Dagskráin lítur spennandi út og þar sem þetta smellur innan í 20 eininga rammann þessa önnina ákvað ég að slá til. Skyldi ég vera með of miklar væntingar með því að vona að þetta bæti upp námskeið að nafni Hagnýt þýska II? Það námskeið á einmitt að fjalla um alþjóðasamskipti, boð og bönn á vinnumarkaði ofl. (og gerði það á skemmtilegan hátt fyrir jól í Hagnýtri þýsku I) en af einhverjum sökum hefur það frá því í janúar snúist um ómarkvissa kennslu í málfræði á framhaldsskólastigi svo maður missir athyglina eftir 10 mínútur og langar að hlaupa út stuttu síðar.
Regnskógunum er líka lítið hlíft og ljósritabunkinn farinn að nálgast óendanlegt. Pappírsflóðinu öllu mun ég síðan henda í vor því "hagnýta" efnið innan um málfræðiæfingarnar er svo úrelt! Argagarg. Við höfum reynt að tala við kennarann til að bæta námskeiðið en erum við það að gefast upp þar sem gagnrýninni er ekki tekið málefnalega heldur persónulega og hún sett úr samhengi. Ég er að hugsa um að gefa kennaranum þetta og kannski föndra úr pappírnum eitthvað skemmtilegt eftir að hafa notað þau sem krassblöð fyrir stærðfræðipælingar. Góð nýting?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli