Af hverju ætli íþróttaæfingar, kóræfingar, tónfræðatímar, stutt námskeið, hljómsveitaræfingar (og svo mætti lengi áfram telja) séu svo oft á kvöldmatartíma sem raun ber vitni? Af hverju er mörg námsleiðin við Háskóla Íslands þannig skipulögð að helst þyrftu stúdentar að búa á bókasafninu og fá næringu í æð til að dýrmætur lestrartími fari ekki til spillis? Jafnvel er það svo að þegar fjölskyldan er saman komin til að borða, þá má ekki spjalla saman því einhver vill hlusta á fréttirnar í útvarpinu, horfa á sjónvarpið eða lesa blaðið í friði yfir matnum til að nýta tímann. Samt virðast allir vera sammála um að það sé fátt ánægjulegra og skemmtilegra en þegar sest er niður í rólegheitunum yfir góðum mat, skipst á skoðunum, sagt frá atburðum dagsins og spjallað um verkefnin fram undan.
Herlegheitin þurfa ekki að kosta mikið, hvorki í tíma, heilsu né sjóðum talið. Tilbúinn matur er yfirleitt bæði óhollari og dýrari en hráefni í heimatilbúinn mat og ef nokkrir koma saman gengur eldamennskan sjaldnast hægt fyrir sig. Það er helst að það þurfi að sigrast á "íslensku ofgnóttinni" eða hvað skal nú kalla þann sið að helst eigi að vera of mikill matur á borðum, afgangar af öllu og allir að borða yfir sig til að sýna nú fram á að maturinn hafi virkilega verið góður og nægur. Ég er viss um að leiðbeinendum, kennurum, stjórnendum, fyrirlesurum og öðrum forystusauðum þætti ekkert verra ef æfingar og námskeið væru skipulögð utan kvöldmatartíma. Hvað háskólanámið snertir verður hins vegar hver og einn að taka ákvörðun um hvað hann gefur sér tíma í. Þar er nefnilega víst að aldrei kemur dauð stund nema maður "búi hana til" sjálfur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli