29 mars 2006

Hóst, snýt, hóst...

Æijæj... og þetta sem átti að verða vikan til að klára að lesa upp grannfræðina, vikan þar sem ég mundi æfa mig á blokkflautur einu sinni á dag út alla vikuna í fyrsta skipti frá áramótum!

Það verður víst einhver bið á því.

Eftir að hafa komist gegnum kuldaköst, Lapplandsreisu, aukaálagsvikur með tilheyrandi vökum fram á nótt yfir stærðfræðinni og hjóltúra í skólann í varla-hundi-út-sigandi-veðri er grautfúlt að lúta í lægra haldi fyrir lungnakvefi og pest akkúrat núna þegar álagið var loksins aðeins að þokast í áttina niður að því sem venjulegt gæti talist.


Get lítið kvartað samt. Líney Halla býr jú við mun stífara prógramm í eðlisfræðinni en gaf sér samt tíma til að kaupa handa mér hálsbrjóstsykur, sítrónur og engifer. Gott að eiga góða að. Heimatilbúni "sullseðillinn" undanfarna daga hefur samanstaðið af eftirfarandi:
  • kæstur hákarl
  • lýsi
  • ógeðisdrykkur (engifer, hvítlaukur, cayenne-pipar og sítrónusafi)
  • propolis-dropar
  • sólhattur
  • c-vítamín
  • kanil-pipar-te
  • norskir brjóstdropar
  • ætihvannarmixtúra
  • hvítlauksmjólkursull
  • lakkrísrótarte
  • sjómannsins besti vinur
  • strepsils-hálsbrjóstsykur
Veit ekki hvað ég geri ef þetta virkar ekki. Kannski fer ég að urra og glefsa í frakkalöf fólks af gremju. Njah... nei, það er frekar ólíklegt. En samt: Eins gott að þetta virki! Það er jú svo asskolli leiðinlegt að vera veikur.

Engin ummæli: