08 nóvember 2010

Smásögur

Líkt og úr gamalli geimkvikmynd

Borgarhlutinn Adlershof er vagga geim- og flugrannsókna í Þýskalandi og gætir þess víða á háskólasvæðinu. Í lok september gafst mér tækifæri til að fara inn í byggingu að nafni Großer Windkanal sem notuð var við prófanir á flugvélahlutum. Byggingin er bara opin örfáum sinnum á ári og takmarkaður fjöldi sem fær að gægjast þangað inn. Tilefnið að þessu sinni var opnun proMINT-Kolleg, en það er framtak til styrktar stærðfræði (M), tölvunarfræði (I), náttúrufræði (N) og tæknigreinum (T) í skólum á öllum stigum. Þrír tónlistarmenn léku listir sínar hver í sínu horni og það var sama hvar maður stóð í risarörinu - alltaf heyrðist í öllum. Vægast sagt eftirminnilegir tónleikar! Fleiri myndir er að finna hér.

Plakat með mynd af tónleikastaðnum


Vatn, klifur og flugvélar

Við Martina hleypum gæsunum yfir stíginn (Mynd frá Ramonu)

Í byrjun október fór stærðfræðistofa í hjóltúr kringum Tegeler See og Heiligensee, vötn í grennd við Tegel flugvöll. Hluti leiðarinnar lá um svokallaðan Mauerweg með fullt af fróðleiksskiltum. Landamærin lágu áður gegnum hluta vatnsins og því sögurnar á skiltunum flestar sorglegar (fólk sem reyndi að flýja en dó á leiðinni). Fólkið í Vestur-Berlín reyndi að láta flugvélagnýinn ekki trufla sig og byggði upp smágarða við vatnið enda fátt um græn svæði innan múrsins. Jahérnahér. Einnig var hluti af leiðinni merktur sem hjólaleiðin milli Berlínar og Kaupmannahafnar. Litlir 630 km, takk fyrir. Við stoppuðum við lestaverksmiðju (spennó!) og fórum í trjáklifurgarð á leiðinni. Ég tók nokkrar myndir sem finna má hér.


Lilli klifurmús til vinstri og björgunarsveitin til hægri
(ein lenti í vandræðum eftir kaflann þar á undan og varð því að bjarga henni niður)


Áfram stelpur

Síðustu helgina í október sendi Christina vinkona mín mér hlekk á myndband sem auglýsa á stærðfræðinám í Freiberg. Það fjallar um strák sem velti fyrir sér að læra stærðfræði en vinum hans fannst það alveg síðasta sort því þá geti hann sko pottþétt ekki krækt í neinar stelpur. Jahá. Nú hóf einhver kynnir að hughreista piltinn og segja honum frá undrum bestunar og hagnýtingar stærðfræði ýmiss konar. Hann áréttaði að hlutfall kvennemenda í stærðfræði í Freiberg væri "ca. 40%" og að starfsmenn háskólans væru ávallt til staðar ef maður lenti í vandræðum með námið. Eins og til að undirstrika þetta síðarnefnda birtist skvísa, myndavélin mældi hana út og hún hristi hárið í hægtöku (slow-motion) áður en hún hallaði sér fram á borðið til aðstoðar. Afsakið meðan ég æli, kjánahrollur!!! Fyrir utan hana sést varla stelpa í myndbandinu. Hvar eru "ca. 40" prósentin?

Stærðfræði í Humana Second Hand á Frankfurter Tor

Þegar ég var í Freiberg voru 50% stelpur í mínum árgangi. Þær eru allar mun svalari heldur en gellan í myndbandinu og eru núna að vinna að doktorsverkefnum sem eru hvert öðru áhugaverðara. Hefði nú t.d. ekki mátt tala við þær? Nú og kannski beina myndbandinu til stelpna líka - svona til að viðhalda kynjahlutfallinu?! Ég var svo hneyksluð að ég sendi póst á alla prófessorana mína, kynningar- og alþjóðaskrifstofu háskólans. Í ljós kom að flestir höfðu tekið þessu sem gríni og fæstir pælt í að kynningarmyndbandið beindist bara að strákum. Eftir miklar bréfaskriftir (einhverjir vildu meina að ég hefði "komið af stað hvirfilvindi í Freiberg") lofuðu þau mér að breyta þessu, sjáum hvað setur...

Gleði og gaman

Við Katharina drifum okkur í badminton. Frábær útrás. Þjálfarinn gerir æfingar (framför frá háskólabadmintoninu í Freiberg) og bendir manni á eitthvað sem má bæta í hverjum tíma auk þess að kanna hvort maður hafi náð því sem var reynt að laga í síðasta tíma. Húsið er líka alveg saga út af fyrir sig. Yfirgefin gömul skólabygging með veggjalist sem ekkert hefur verið hreyft við frá DDR-tímum. Húsið er vel falið bak við gamlar verksmiðjur og þarf að feta krókótta dimma stíga milli verksmiðjuskemma til að rata réttan veg. Frekar draugalegt!

Badminton með DDR-veggjalist í bakgrunni

Í hvert skipti sem ég fer í Bürgeramt hugsa ég með mér að nú hljóti eyðublaðaflóðinu að vera að ljúka. Einhvern veginn koma samt alltaf nýir pappírar til skjalanna. Mesta púlinu lauk þó um daginn þegar ég sigraðist á Zulassungsbüro og fékk loksins hinn langþráða lestarmiða (Semesterticket) og get ferðast með lestum vítt og breitt, jafnvel með hjólið með mér! Stúdentaafslátturinn gildir samt ekki í sund af því ég er orðin of gömul (búhú...) en konan í afgreiðslunni huggaði mig með því að öll kvöld virka daga væri ódýrara ef maður mætti eftir átta og að flest söfn gæfu stúdentaafslátt óháð aldri. Hún var ægilega almennileg. Svona eins og flest fólk hér.

Rólegheitastemmning á flóamarkaðnum á Boxhagener Platz

Við Eva héldum innflutningspartý um daginn. Það var mjög gaman, vinir úr öllum áttum komu með krásir á hlaðborð og tveir nágrannanna (við hengdum upp boðskort frammi á gangi við póstkassana) mættu með vínflösku til að bjóða okkur velkomnar í húsið. Nánast engir þekktust innbyrðis fyrir partýið og því skapaðist mikil stemmning við að kynnast þvers og kruss. Sumir komu langt að og gistu fram á laugardag. Við bara brostum hringinn það sem eftir lifði helgarinnar, þetta var svo skemmtilegt. Já, og við steingleymdum að taka myndir eftir að undirbúningi lauk.

Eldamennska í Seumestraße

2 ummæli:

Gunni sagði...

Mér finnst reynar góður húmor (eða kannski frekar athyglisvert meðvitundarleysi) að gera auglýsingamyndband sem höfðar til stráka og lesbía fyrir grein sem hefur, ekki allskostar óverðskuldað, orðspor fyrir að vera pulsupartí.

beamia sagði...

Já, mér fannst þetta lýsa meðvitundarleysi - kannski svolítið lýsandi fyrir það að Freiberg er bara lítill bær og réttindi kvenna stutt á veg komin. Maður minnist nú varla á samkynhneigða, fordómarnir frekar miklir... Svo held ég líka að þetta myndband höfði ekkert til lesbía ef út í það er farið ;)

Mér finnst mjög athyglisvert að hlutfall kvenna sé og hafi verið tiltölulega hátt í stærðfræði í Freiberg. Myndbönd hafa örugglega ekki átt neinn þátt í máli þar (því þau voru engin) og stelpurnar sem voru í námi með mér komu alls staðar að frá Þýskalandi. Sú sem kom lengst að var frá Kaiserslautern og þar er þó mjög góð stærðfræðideild (en pabbi hennar er yfirmaður þar svo ég skildi vel að hún vildi aðeins slíta naflastrenginn).