16 nóvember 2010

Stórborg eða ekki

Stundum er þrúgandi að búa í stórborg. Áreiti, mengun og mannmergð. Fólk að rífast út af engu í lestinni. Pirringur yfir manni sem talar hátt í símann eða konu sem hlustar á ömurlega takttryllingstónlist svo að allir heyra þótt hún sé með heyrnartól.

En svo eru líka skemmtilegu atvikin. Eins og þegar Eva var á leið heim eftir langan dag, hópur kvenna sat og spjallaði, sagði brandara og hló svo hátt og smitandi að smátt og smátt fóru allir í lestarvagninum að hlæja og hlógu alla leiðina frá Alexanderplatz til Ostkreuz því enginn réð við sig þótt ekki væri nokkur leið að heyra né né skilja að hverju dömurnar væru að hlæja. Eða í gær þegar kona fann eitthvað sem leit út eins og ljósmyndaumslag á gólfinu í strætó. Hún spurði hver hefði misst myndirnar sínar og allir fóru að spjalla saman um hvort það ætti að kíkja á þær til að reyna að finna út hver væri eigandinn, allt þar til ein konan áttaði sig á að umslagið væri líklega flugmiðaumslag, enda æki strætóinn til Tegel-flugvallar. Miklar pælingar upphófust um aumingjans ferðalanginn sem stæði kannski á flugvellinum miðalaus þar til ég tók af skarið og fór með miðann til bílstjórans. Hann uppveðraðist allur og sagðist halda að hann vissi hver ætti miðann, stoppaði strætóinn fyrir utan hótel rétt við áfangastað minn og skaust þangað inn. Þegar ég ætlaði að fara heim aftur missti ég af strætó en náði þeim næsta og þar reyndist sami bílstjóri og fyrr um kvöldið sitja undir stýri. Hann sagði mér að ferðalangurinn hefði ekki verið á hótelinu þar sem ég steig út úr strætó heldur hóteli sem væri einni stoppistöð lengra frá og að hann ætti að fljúga heim annað kvöld. Miðinn var af ferðaskrifstofu og ekki til á netinu svo manninn var ákaflega þakklátur konunni sem fann miðann og strætóbílstjóranum sem hoppaði inn og út af hótelum til að koma honum til skila. Síðan spjallaði bílstjórinn við mig alla leiðina á endastöð, sagði mér frá pólskum vinum sínum (af því ég hafði verið að heimsækja pólska vinkonu mína) og spurði mig hvað 2 kg sinnum 5 pund væri (því það væri spurning sem hann legði fyrir alla sem hefðu eitthvað með stærðfræði að gera, svona til að kanna hvort þau væru með kollinn í lagi og færu ekki bara blint að margfalda saman eitthvað sem gæfi algjört rugl!).

Þið sjáið að plúskaflinn var lengri en mínuskaflinn. Jammogjá.

PS. ...og ég stóðst prófið hjá bílstjóranum...

Engin ummæli: