15 október 2010

Endað með ósköpum

Hlynur átti afmæli síðustu helgina í september og hélt upp á það með mjög svo notalegu matarboði. Simona vinkona mín frá Tékklandi kom í stutta heimsókn sama dag svo hún kom barasta með í boðið og Árni, Númi og Una heilluðu hana alveg upp úr skónum. Það var orðið kalt og hráslagalegt - haustið farið að láta á sér kræla - en við Simona létum það ekki á okkur fá og gengum úr boðinu fleiri, fleiri kílómetra til að kanna þekktar sem og lítt þekktar slóðir í nágrenni hverfisins míns.

Hlynsafmæli

Þar var af nógu að taka. Berlínarmúrinn með alþjóðlegri veggjalist, leikvellir, almenningsgarðar, sögulegar byggingar, markaðir og kaffihús. Nokkrar myndir er að finna hér. Helgin endaði síðan eiginlega með ósköpum. Á leið minni til fundar við Ingu og Eriku á sunnudagskvöldinu hjólaði ég nefnilega ofan í skurð (!) sem var lítt-/ó-merktur vegna gatnaframkvæmda í miðborginni.

Þarna til hægri voru gatnaframkvæmdirnar (Mynd: Wikipedia)

Þvílíkt og annað eins sjokk! Það voru stálbitar ofan í skurðinum og líklega hafa þeir bjargað því að mér tókst að stökkva upp á skurðbarminn eftir fyrsta höggið og kippa hjólinu með mér (kannski adrenalínsjokk hafi þar líka átt sinn þátt í máli). Við þetta tognaði ég smá á fæti og hönd, fékk allsvakalega marbletti en var að öðru leyti heil á húfi.

Það borgar sig að fara varlega í hjólaumferðinni...

Hjólið mitt leit ansihreint sorglega út með hvellsprungin dekk bæði að framan og aftan og hugsanlega bognar gjarðir. En ekki dugði að standa lengi nötrandi og skjálfandi í hellidembu svo strax og ég áttaði mig hringdi ég í Ingu og Eriku, sem mættu á staðinn örskömmu síðar. Mikið var ég fegin! Saman fórum við og fengum okkur nammigóðan arabískan mat og ég náði að jafna mig að mestu á sjokkinu áður en haldið var heim á leið með hjólgreyið.

Girnilegur arabískur matur frá Casalot

Í lestinni var fólk afar forvitið um ástæðu þess að hjólið mitt var svona illa á sig komið og við Inga vorum orðnar sæmilega þjálfaðar í að segja söguna þegar við loksins komum heim til mín. Þess má geta að þegar við sóttum hjólið ók bíll á fleygiferð yfir skurðinn og flugu hjólkopparnir hægri, vinstri. Skamman spöl frá var varnarþríhyrningur og annar bíll með sprungin dekk og hugsanlega brotinn öxul eftir skurðheimsókn... þetta voru sumsé verulega illa merktar gatnaframkvæmdir...

Maður á litlu hjóli með svipaðan hjólastíl og við Chaplin...

Ótrúlegt en satt reyndust dekkin bara sprungin og gjarðirnar í lagi. Ég gat ekki hjólað nema með herkjum með hnén út í loftið eins og Charlie Chaplin fyrstu vikuna eftir slysið vegna marbletta og tók því S-lestina í staðinn. Einn daginn reyndust þó verktakarnir við Ostkreuz hafa fundið 500 kg sprengju úr heimsstyrjöldinni síðari og því var allt girt af og erfitt að komast heim nema með krókaleiðum. Þá var ágætt að vera ekki á hjóli í myrkrinu að leita leiða heldur geta bara ferðast "blint" með neðanjarðarlestum kringum hættusvæðið. Lán í óláni!

Engin ummæli: