26 ágúst 2010

Berlín og nokkrar myndir frá vori og sumri

Með vinnufélögum í fjallgöngu í vorferð á Snæfellsnesi

Í vetur sem leið starfaði ég sem stærðfræðikennari við Verzlunarskóla Íslands. Þetta var afleysingastaða og í vor var ljóst að ekki yrði neitt laust þar næsta vetur svo ég yrði að finna mér nýjan vinnustað. Meðfram vinnunni stundaði ég nám í kennslufræðum við Háskóla Íslands og fékk kennsluréttindi í sumar svo ég var nokkuð viss um að finna einhvers staðar starf við hæfi, sótti um bæði í framhaldsskólum þar sem var auglýst og spurðist fyrir á fleiri stöðum.

Um páskana skrapp ég til Þýskalands að heimsækja vini og vandamenn.
Fleiri myndir hér.


Einhvern tíma í vetur þegar mér þótti einu sinni sem oftar vanta fjölbreyttari verkefni fyrir nemendur mína og sat við leit á netinu, þá rakst ég á heimasíðu Matheon - rannsóknarseturs í hagnýtri stærðfræði og kennslufræði stærðfræði við Humboldtháskóla í Berlín. Þar var ýmislegt spennandi að finna og í vor rakst ég þar á starfs- og doktorsverkefnaauglýsingar. Hvers vegna ekki að prófa að sækja um? Þó ekki nema væri til að æfa sig í að gera starfsumsókn á þýsku.

Sumarið kom á Guðrúnargötu (get ekki hlaðið upp stærri mynd í bili)

Fátt heyrðist frá Þýskalandi annað en að umsókn mín hefði verið móttekin en ég var hins vegar fljót að finna spennandi kennarastöðu á Íslandi. Það kom mér því allrækilega á óvart þegar skyndilega barst póstur um starfsviðtal í Berlín - var ekki allt eins hægt að spjalla saman í síma? Nei, það var ekki í boði! Hins vegar var háskólinn tilbúinn að gefa mér ferðastyrk og því flaug ég út í viðtalið og fékk að vita að ef ég fengi stöðuna þá yrði ég látin vita mjög fljótlega til að ég gæti látið núverandi atvinnuveitanda vita.

Í heimsókn hjá Líneyju Höllu í Svíþjóð.
Fleiri myndir hér.


Dagarnir liðu og ég fór á fullt í íbúðar- og meðleigjendaleit í Reykjavík þar sem við Stefan og Salka höfðum ákveðið að leysa upp kommúnuna okkar og fyrir mér þýddi "mjög fljótlega" sama dag eða í síðasta lagi þremur dögum síðar. Tæpum tveimur vikum síðar fékk ég síðan öllum að óvörum boð um stöðuna: fjögurra ára launuð staða sem doktorsnemi í kennslufræðum stærðfræði og skipuleggjandi endurmenntunar stærðfræðikennara í menntaskólum Berlínarborgar og nágrannasveita! Taddaramm! Slík tækifæri gefast ekki oft. Verðandi vinnuveitendur mínir voru mér til mikillar gleði mjög skilningskríkir þegar ég hringdi og sagði þeim frá ævintýrinu sem biði mín.

Blokkflautukvintettinn áður en Steinunn hélt Japan, Vala til BNA og ég til Þýskalands

Síðan fór allt á fullt við að skipuleggja brottför, kveðja vini og fjölskyldu, pakka í kassa, koma húsgögnum fyrir hingað og þangað og auðvitað fylgdi þessu öllu gríðarlegur bunki af eyðublöðum og kröfum um staðfest afrit af hinu og þessu prófskírteininu. Þá er gott að eiga góða að! Stefan, Friðrik Haukur og Inga hafa hjálpað alveg ómetanlega við að ráða fram úr reglugerðum, húsnæðistilboðum og öllu þess háttar og vinir og vandamenn tóku við búslóð og bókum. Í fyrradag komst ég til Ingu með allt mitt hafurtask og gisti hér fyrst um sinn.


Alma, Jónas og Magnús Sigurður eftir lautarferð í Laugardalnum

Amma á Akureyri með blómin sín

Í gær gat ég stormað af stað til að fá tekna passamynd í hryðjuverkamannsstíl (eins og þeir vilja hafa þær hér um slóðir), skrifa undir starfssamning, útvega tryggingar og finna íbúð og viti menn, það tókst! Núna á fimmtudaginn fer ég til að skrifa undir leigusamninginn og verð eftir það meðleigjandi bærískrar stúlku sem stundar rannsóknir á fornum arabískum handritum og ætlar að taka mig með á kóræfingu strax í næstu viku. Magnað.

Eyrarrós einhvers staðar milli Hvanngils og Emstra

Sambýlingar mínir Stefan og Salka

Vinnan byrjar í næstu viku og ég er búin að lofa sjálfri mér því að endurvekja þetta blogg í vetur. Það ætti að verða af nógu að taka til að segja frá...

Pakkað saman...

Eyðublaðaflóðið

2 ummæli:

Gunni sagði...

Flott er, ég hlakka til að fylgjast með í vetur.

beamia sagði...

Ah! Þú átt nýtt blogg? Sem ég vissi ekki um! Það kemur strax hér í listann til hægri :)