04 september 2010

Ein vika sem þrjár

Hvernig svo margt getur komist fyrir á nokkrum dögum er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Síðustu daga hef ég ferðast um Berlín þvera og endilanga, fengið tölvupóstfang, skráð mig sem íbúa í hverfishlutanum Friedrichshain, útvegað skattkort, smátt og smátt kynnst fólkinu í vinnunni (þau eru enn að tínast til baka úr sumarfríi), fundið reiðhjól, pantað rúm, hitt allra handa almennilegt fólk í hverfinu mínu sem er til í að gefa mér húsgögn eða selja þau á spottprís og skipulagt dýnulán fram að afhendingu rúmsins.

Rúmið og reiðhjólið eru líklega tveir mikilvægustu hlutirnir. Notuð reiðhjól reyndust ýmist alltof dýr eða of augljóslega stolin og þar að auki flest með stórum ramma álíka og risahjólið mitt gamla frá Freiberg. Lokaniðurstaðan varð því að kaupa nýtt hjól en ég fékk líka svakagóðan lás og get geymt hjólið í kjallaranum hérna heima svo það reddast nú vonandi. Í hverfinu mínu er lítið trésmíða- og dýnuverkstæði með umhverfisgæðavottun og það reyndist í það heila ódýrara og skemmtilegra að fá rúm þaðan heldur en frá sænska risanum. Allt annað fann ég notað á flóamarkaði og í smáauglýsingum hverfisins. Þvílík snilld!

Hlynur og Númi eru þessa dagana staddir í Berlín og brátt koma Kristín, Una og Árni líka. Pit og Anita gerðu sér sérstaka ferð frá Dresden til að koma á sýningaropnun Hlyns og Jónu Hlínar í Torstraße 111 í gærkvöldi og gerðust um leið fyrstu gestirnir í herberginu mínu í Seumestraße. Eva-Maria meðleigjandi minn kom líka með og þetta varð hin ævintýralegasta reisa þar sem við gleymdum okkur ævinlega í spjalli um arabíska menningarheima og allt mögulegt annað og gleymdum fyrir vikið að stíga út úr lestinni á réttum stöðum...

Í dag komst ég að því að hlutir geta virkilega reddast á ótrúlegan hátt hér í stórborginni. Þannig var að ég átti að sækja húsgögn í kommúnu (sem liggur bara 800 m frá minni kommúnu) á sunnudaginn og var búin að tala við Bene vin minn um að hjálpa mér við flutningana. Í dag hringdi síðan stelpan sem átti húsgögnin í mig og spurði hvort við gætum tekið með verkfæri og hvort við værum ekki á leiðinni. Ég hafði þá misskilið eitthvað og átti í raun að mæta í dag en ekki á morgun til að sækja húsgögnin. Sem betur fer var ég þá stödd hjá Ingu og gat fengið verkfæri lánuð hjá henni, Bene var heima að læra fyrir siglingaprófið sitt og fannst lítið mál að hjálpa mér frekar í dag en á morgun (hvort eð er búinn að plana lærdóm alla helgina) og önnur stelpa sem ætlaði að sækja rúm á sama stað hafði hætt við rúmið en þar sem hún var búin að panta og leigja flutningabíl þá beið hún eftir mér og hjálpaði okkur að flytja gegn því að við borguðum flutningabílinn (sem við hvort eð er þurftum á að halda og hefðum annars þurft að skipuleggja sjálf).

Dýnan sem ég er með í láni núna fer aftur til síns heima hjá Hlyni og Núma þegar Kristín, Una og Árni bætast í hópinn núna á mánudaginn. Pit skildi uppblásanlegu tjalddýnuna sína eftir handa mér og ofan á hana kemur síðan sæng sem besta vinkona mömmu Bilge ætlar að lána mér, en Bilge er tyrknesk vinkona mín frá Freiberg. Já, svolítið langt og flókið. En þetta reddast sumsé allt. Í kvöld skrapp ég til Bilge í skrifstofuna hennar í tækniháskólanum TU Berlin til að spá og spekúlera í útreikninga (hún er í doktorsnámi í málmtæknifræði) og á morgun förum við í heimsókn til að fá lánaða sængina.

Í vinnunni eru allir óskaplega almennilegir og eiginlega leið mér eins og ég væri að koma til Freiberg þegar þau sögðust hittast "dreiviertel zwölf" til að fara í hádegismat. Í austrinu segir maður þetta um 11:45 en í vestrinu segir maður "viertel vor zwölf" um sama tíma. Ég er aðeins byrjuð að komast inn í starfið og í næstu viku kemur prófessorinn sem réði mig til starfa og upp úr því get ég vonandi fengið undirritaða pappíra um doktorsnám. Það er mikilvægt til að fá allra handa stúdentaafslátt, aðgang að háskólaíþróttahúsinu og lestarkort. Fram að þeim tíma ætla ég að hjóla í vinnuna og einn stúdentanna sem deilir með mér vinnurými er búin að útskýra bestu leiðina svo ég villist nú ekki á mánudaginn.

Eftir allt saman komst ég ekki á kóræfinguna í síðustu viku og þessa viku verð ég að sækja húsgögn en ég held það sé líka allt í lagi því kórinn virkar þannig að í hvert skipti sem þau byrja á nýju verkefni geta nýliðar komið í prufu. Við erum ekki enn komnar með netsamband heima hjá okkur þar sem Deutsche Telekom stjórnar tengingum í heimahús og nennir ekkert að drífa sig þegar um samninga við önnur fyrirtæki en sjálfa sig er að ræða. Þeir eru auðvitað með dýrustu samningana svo fáir vilja skipta við þá en það er nú samt svolítið svakalegt að nú sé Eva-Maria búin að bíða í mánuð eftir nettengingu og símsambandi og ekki nóg með það heldur hefur hún þurft að gæta þess að vera heima á þeim dögum sem tæknimennirnir munu mögulega koma því ef hún ansar ekki dyrabjöllunni þá daga, þá fær hún sekt upp á tæpar 60 Evrur. Sem betur fer getur hún unnið að rannsóknunum sínum heima en það er alveg sama. Mér finnst nú eiginlega að þeir ættu þá að borga henni eitthvað álíka fyrir að vera heima og þeir mæti ekki, hvað finnst ykkur? Írónían í þessu öllu saman er síðan sú að Deutsche Telekom kostar stöðuna mína við Humboldt háskólann...

Nú í fyrramálið á Inga að keppa í blaki svo ég ætla að drífa mig heim svo hún geti farið að sofa! Set síðan inn myndir strax og tækifæri gefst.

Engin ummæli: