14 febrúar 2010

Safnanótt

[Eiginlega er færslan um ferðalagið til Vesturstrandar Bandaríkjanna frá því í fyrra alveg tilbúin, bara eftir að setja inn myndir, já, og ég ætlaði fyrir löngu að vera búin með ársyfirlitið fyrir 2009 en það bíður eitthvað enn vegna anna í skóla og vinnu...]

Á föstudaginn buðu mamma og pabbi mér í leikhús að sjá "Fyrir framan annað fólk" í Iðnó. Alveg óhætt að mæla með því stykki en það er í senn mjög fyndið og vekur til umhugsunar um ýmiss konar áráttur og viðbrögð við þeim. Mamma hafði rekið augun í að sama kvöld væri safnanótt og við sáum lokin á fínustu ljósadýrð með tónlist við ráðhúsið áður en leiksýningin hófst. Eftir hana skutumst við síðan í Norræna húsið til að kíkja á 52 húfur og skiltin hans Helga Hóseassonar. Hvort tveggja kom mjög á óvart. Ekki grunaði mig að hægt væri að prjóna svona fjölbreytilegar húfur og skiltin sómdu sér vel á veggjum litla salarins í kjallaranum. Það er alltaf svo gott að koma inn í Norræna húsið, góður andi og húsið svo fallegt.

Pabbi og mamma voru orðin þreytt svo ég fékk bílinn lánaðan og hélt áfram í Þjóðmenningarhúsið til að hlusta á Ólöfu Arnalds. Fallega, fallega tónlist! Í apríl kemur víst nýr diskur frá Ólöfu og því komin enn ein ástæðan til að hlakka til vorsins. Á efstu hæð Þjóðmenningarhússins er þessi líka fína sýning um kvikmyndir á Íslandi og niðri í stóra salnum eru ísskápar með nægu plássi til að semja seglaljóð á. Ég hef séð svona segulljóðorðasöfn á ensku og oft pælt í hvort ekki væri hægt að framleiða svoleiðis á íslensku. Þarna sýndist mér hafa verið notuð merkiborðavél (e. labeller) til að gera orðaborðana og þeir síðan límdir á segulþynnur. Sniðugt!

Engin ummæli: