14 febrúar 2010

Neyðarlínutal

Það sem af er þessu ári hef ég hringt þrisvar í neyðarlínuna. Fyrst til að láta vita af ofurölvi manni sem var sofnaður úti á götu niðri í bæ í fimbulkulda, næst til að segja frá gömlum manni sem var á glæfralegu vappi uppi á þaki margra hæða blokkar í sparifötunum og loks til að kalla eftir sjúkrabíl þegar ég kom að slysi þar sem ekið hafði verið yfir lítinn dreng.

Það var árvökull nemandi sem tók eftir gamla manninum og þið getið rétt ímyndað ykkur að það varð ekki mikið úr þeim stærðfræðitíma. Einn strákanna reyndist vera í björgunarsveit og stökk af stað yfir götuna til að freista þess að komast upp á þakið og ræða við manninn meðan við hin fylgdumst agndofa með hvítu hári og sparifrakka þyrlast upp í vindinum og tókum andköf í hvert skipti sem sá gamli hætti sér fram á þakbrún - og það gerði hann ekki ófáum sinnum. Mikið fannst okkur lögreglan vera lengi á leiðinni... en það fór allt vel og þetta reyndist vera rúmlega áttræður formaður húsfélagsins í blokkinni að tékka á þakrennunum! Svellkaldur og lítið að fást um vegfarendur í kring sem urðu auðsýnilega álíka skelkaðir og við.

Í vetrarfríi tengdu nemendamóti VÍ skrapp ég norður yfir heiðar til afa og ömmu. Það var mjög fallegt veður alla helgina, frost og heiðskírt svo ég fór í sund og göngutúra milli þess að heimsækja ættingja og vini. Á einni göngunni út Brekkugötuna datt mér sem snöggvast í hug að kíkja á styttuna af Helga magra og Þórunni hyrnu og horfa yfir bæinn í góða veðrinu, heyrði þá bremsuhljóð og vein og svo barnsörvinglunaröskurgrát og hljóp til baka. Lítill drengur hafði skotist yfir götuna án þess að líta til hliðar (einstefna og ekki mjög fjölfarin gata) og lent fyrir bíl! Sem betur fer fylgdi annar bíll í kjölfarið og í honum nokkrir vaskir piltar sem með samstilltu átaki lyftu bílnum ofan af drengnum þannig að foreldrarnir (sem komu hlaupandi út úr húsi í götunni) gátu dregið hann fram undan bílnum. Stráksi var með hjólför yfir sig miðjan en líklega fór betur en á horfðist, a.m.k. virtist hann nokkuð hress (grét hraustlega) og sjúkraflutningamennirnir sem komu strax á staðinn (engin bið þar) skoðuðu hann í rólegheitunum.

Þetta er líklega ekkert óvenjulegt - að stundum þurfi oftar að hringja í 112 en annars (þótt ég hafi ekki þurft þess svona oft hingað til) - en mér finnst samt eins og það hafi líka verið óvenjulega margar fréttir af slysum undanfarið, hvað finnst ykkur?

Engin ummæli: