13 maí 2010

Santa Barbara og þjóðgarðamaraþonið mikla

Hér á eftir fylgir frásögn sem búin er að vera í smíðum frá því í fyrra og segir af ferðalagi frá því í fyrravor.

Eftir góða dvöl hjá Ragnheiði í New York (sbr. eldri færslu hér) flaug ég yfir Bandaríkin þver og endilöng til Ásdísar í Santa Barbara. Bandarískir flugmenn ráða held ég ekki alveg eins vel við loftókyrrð og íslenskir flugmenn. Að minnsta kosti hefur mér aldrei liðið jafnilla í flugi og yfir Klettafjöllunum - úffpúff! Ferðin tók 9 tíma í loftinu og eitthvað til viðbótar á landi svo ég verð að dást að Ásdísi fyrir að nenna að koma heim til Íslands í fríum! Tala nú ekki um áhættuna af að missa af flugi vegna "óveðurs" (smá snjóföl eða pínu vindur).

Santa Barbara flugvöllur

Það voru (hefðbundnar) stál og gler flugstöðvabyggingar á leiðinni (Washington DC og San Francisco) en Santa Barbara flugvöllur leit hins vegar út eins og lítið mexíkóskt vegahótel með pálmatrjám. Það var hlýtt rok frá fjöllunum sem gnæfa yfir og ég rölti út í strætóskýli til að finna vagn sem færi inn á stúdentagarða. Þurfti þó ekki að bíða lengi því þá mætti móttökusveit skipuð Daniel og Ásdísi á bílnum hans Daniels. Það var ein af síðustu ferðum bílsins undir hans stjórn því að heimför Daniels eftir hálfs árs dvöl sem skiptinemi nálgaðist óðum.

Hjólahringtorgið

Við ákváðum að halda mér bara vakandi til að venjast tímamismuninum, rölta um háskólasvæðið og kaupa í matinn. Háskólasvæðið í Santa Barbara er mjög flott og allt öðru vísi en það sem ég hef áður séð. Fullt af íþróttavöllum, hjólastígar og hjólahringtorg og ströndin jú bara spölkorn frá háskólanum. Það var reyndar vorhlé svo hringtorgið var ekki í mikilli notkun. Við hittum félaga Ásdísar og elduðum rauðgraut í matinn (rauðrófu-eitthvað spunnið upp á staðnum). Daginn eftir gengum við um allt og sóttum Daniel sem var á fullu að ganga frá lausum endum á skrifstofunni, pakka og þess háttar. Skelltum okkur í sjóbað og plönuðum ferðalag til að skoða þjóðgarða. Daniel gat mælt með hinu og þessu og Ásdís hafði líka séð ýmislegt svo á endanum vorum við með (alltof) langan lista af þjóðgörðum og stöðum sem okkur langaði að sjá. En það er jú allt í lagi!

Buslað í köldum sjónum

Við lukum bollaleggingum um ferðina með nokkrum vinum Ásdísar sem sögðu að við værum klikkaðar. Er það nokkuð nýtt? Snemma næsta morgun pökkuðum við okkar hafurtaski, sóttum bílaleigubílinn, redduðum geislaspilara og lögðum af stað út í óvissuna. Leið okkar lá um gular, rauðar, hvítar, grænar og bláar eyðimerkur og allt í allt heimsóttum við eina sex eða sjö þjóðgarða.

Lagt af stað

Fyrsta stopp var í Las Vegas þar sem við rúntuðum gapandi yfir gervilandslagi, byggingaframhliðum og mannfjöldanum. Eftir kóreiskan grillmat brunuðum við áfram til Hurricane og gistum þar á móteli í tvær nætur nálægt Zion þjóðgarðinum.

Angel's Landing

Í Zion

Lítill jarðíkorni í leit að nestismylsnu

Í Zion skoðuðum við grátsteininn, gengum inn gljúfur og upp á klettinn Angel's Landing til að njóta útsýnisins. Við höfðum leigt okkur DVD-myndir áður en við lögðum af stað og verðum að mæla sérstaklega með Just add water ... eða hitt þó heldur! Satt best að segja enduðum við á að horfa á Milk í beinu framhaldi til að bæta upp hræðilegheitin í vatnsmyndinni og urðum ekki fyrir vonbrigðum með hana.

Ásdís við fílahúðarfjallið

Ókum daginn eftir gegnum Zion upp í fjöllin til Bryce Canyon gegnum alls konar holur í klettum og fram hjá mjög sérkennilegum fjöllum með áferð svipuð fílsskinni. Á leiðinni lentum við í snjóstormi en náðum að skoða Sunset, Sunrise og Inspiring Point áður en allt varð grátt og Bryce Point vegi var lokað. Við hittum m.a. kaliforníska fjölskyldu á sportbíl í stuttbuxum og sandölum á gljúfurbarminum og leið hálfundarlega við hlið þeirra, vafðar inn í peysur, trefla og loðhúfur.

Göng á leið í Bryce gljúfrin

Þessa mynd tók stuttbuxnafjölskyldan fyrir okkur

Bíllinn með grýlukertum

Þegar létti til sást yfir gljúfurdalinn fullan af sandsteinstoppum

Þau voru ekki mjög hrædd þessi

Áfram lá leiðin í átt til Arches þjóðgarðarins með bogamyndunum í rauðum sandsteinsfjöllum. Þar var ennþá snjóföl yfir öllu en sólin skein svo það var ekki eins kalt og daginn áður. Við gengum að Delicate Arch og Landscape Arch og í átt að Double O Arch. Í Arches var talsverð umferð en þó ekki enn farið að skipa gestum að leggja bílnum í útjaðri þjóðgarðsins og ferðast með rútum innan hans. Frá Arches héldum við upp bratta brekku yfir í Canyonlands þjóðgarðinn til að skoða gljúfur og einn steinboga til viðbótar. Þjóðgarðsstarfsmaður gaf okkur góð ráð um hvað væri áhugaverðast að sjá og benti okkur á frábæran stað til að fylgjast með sólarlaginu af klettabrún um kvöldið.

Ásdís fær sér bita af Delicate Arch

Litið út eftir dalnum sem við gengum til að skoða Landscape Arch

Sólarlag í Canyonlands

Nú uppgötvuðum við að bensíntankurinn var orðinn eitthvað tómlegur og drifum okkur til Moab að fylla á hann. Þar fengum við okkur frábæra eldbakaða pizzu eftir að hafa gerst meðlimir í einhverju barfélagi (jafnvel þótt við fengjum okkur bara gos með matnum!) og forðuðum okkur undan slagsmálum við barinn. Sumir mormónanna "gefa" aðkomumönnum peninga til að þeir geti "boðið" sér upp á áfengi og komast þannig fram hjá einhverjum reglum um áfengisneyslu, frekar sérstakt!

Á leið inn í Monument Valley

Við fundum seint og síðar meir gistingu um nóttina og héldum samt snemma af stað gegnum Monument Valley í átt að Grand Canyon. Ásdís þekkti stað þar sem indíánarnir leiðsegja gestum um risaeðluspor og við heimsóttum líka mörg tjöld handverksindíána. Þeir höfðu fremur sorglegar sögur að segja af meðferð stjórnvalda á lendum þeirra og ættbálki en voru ekkert að væla samt, sögðu bara æðrulausir frá. Um kvöldið litum við yfir Grand Canyon, hittum hreindýr og horfðum á sólarlagið með hópi skáta.

Turn á bökkum Miklagljúfurs

Fleir gæf dýr

Horft yfir gljúfrið

Sólarlag í Miklagljúfri

Næsta stopp var Dauðadalurinn. Leiðin þangað lá gegnum eyðimerkur og draugabæi sem þó voru smám saman að vakna til lífsins fyrir ferðamannastraum sem færi brátt að glæðast. Salteyðimerkur og alls konar litir í fjöllunum í Dauðadalnum minntu okkur á snjóbreiður og háhitasvæði á Íslandi. Næstum eins og að koma heim! Alveg þar til skall á sandstormur. Úff! Það var á tímabili eins og vörubíll æki við hlið okkar og hellti yfir okkur sandhlassi jafnt og þétt. Það sást ekki einu sinni næsta vegstika heldur bara rétt í vegarmálninguna undir bílnum. Við ókum fram á hverja biluðu bensíndæluna af annarri og fylgdumst með nálinni lækka flugið. Starfsfólk þjóðgarðsins sagði að það væri aldrei að vita hvað sandstormurinn entist lengi svo við ákváðum að bruna af stað undan storminum í átt að næstu bensínstöð. Þangað náðum við rétt í tæka tíð og sprungum úr hlátri í spennufalli yfir að enda í bænum Trona, sögusviði myndarinnar "frábæru" Just add water, eftir ævintýralega ökuferð.

Okkur fannst landslagið minna töluvert á Ísland

Salteyðimörkin

Saltkristallar

Litir líkt og á háhitasvæðunum heima

Ekið gegnum sandstorminn

Áfram héldum við og komumst heim til Santa Barbara í sykursjokki um nóttina, tókum því rólega daginn eftir á Campus og við ströndina og ég skrapp í heimsókn til Baldvins til að fræðast um frisbígolf meðan Ásdís forritaði svolítið í Matlab. Dvölinni í Santa Barbara var að ljúka og ég flaug um LA til Seattle daginn eftir. Meira um það í næstu sögu. Fleiri myndir úr þjóðgarðamaraþoninu er að finna hér.

Engin ummæli: