22 apríl 2009

Ljóð á húsgafli

Frá Lindau-Insel við Bodensee

Þegar ég var í Lindau gekk ég fram á grænt hús með ljóði á veggnum sem vísaði út á götuna:

Dieses Haus ist mein und doch nicht mein
Dem's vor mir war, war's auch nicht sein
Er ging hinaus, ich ging hinein
Nach meinem Tod wird's auch so sein

Hús þetta er mitt og þó ei mitt
Þess er 'það áður var, var 'það heldur ei "sitt"
Hann gekk út, ég gekk inn
Svo verður 'það einnig eftir dauða minn


(Í frjálsri þýðingu minni. Hér gildir að 'það er lesið eins og -ða sé bætt aftan við orðið á undan: erða, varða, verðurða)

Hvað finnst ykkur um þessa afstöðu? Að eiga og þó ekki. Er þetta spurning um að gera sér grein fyrir hverfulleika tilverunnar? Mér finnst ég taka eftir svo miklum mun á menningu þjóða hvað eign varðar. Hversu mikilvægt er að eiga hluti eða bara leigja þá, hvort mikið sé um sameign og fólk geti þá komið sér saman um umgengni og slíkt.

Hér heima finnst mér t.d. mörgum vera eitthvað svo mikilvægt að eiga allt. Þá helst það nýjasta - stærra, betra og dýrara en næsti maður. Dæmi um það eru mörg hús í röð með garðflöt sem kalla mætti frímerki og allir eiga sína eigin sláttuvél - sumir meira að segja rafmagnsknúin tryllitæki. Getið þið nefnt fleiri dæmi eða er ég bara að rugla?

1 ummæli:

Arnþór L. Arnarson sagði...

Ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá þér. Nú þekki ég ekki þjóðverja og stemminguna þar, en ég held þó og skynja, að stemmingin hér sé eins og þú lýsir henni. E.t.v. örlar samt á breytingu núna, ég vona það.

Ég held að hamingja (eða réttara sagt sátt í víðum skilningi) lifi betur í samfélagi við aðra, og í samkennd með öðrum, þar sem sameign væri sjálfsagðari.

Varðandi ljóðið. Þá hef eg hef einmitt velt þessu sama fyrir mér, þegar ég ligg kannski og stari á upp í loft áður en maður er að festa svefn. Og þá rennur upp fyrir manni hverfulleiki fólksins sem býr (tímabundið) í öllum þessum húsum, og varanleiki húsana í samanburði við okkur. Við og allar okkar stundir, gleði okkar og sorgir, við rennum bara í gegn eins og blóð í æðum húsanna, og kannski eins og blóð í æðum borganna. Ég fann til dæmis, þegar ég var að finna í öskunni, nokkur fjölskyldu albúm, sem hafði greinilega verið hent úr dánarbúi, og þar sá maður þetta dána fólk skála við vini og kunningja, fjölskylduboð og afmæli, brúðkaupsmyndir, allt frá a til ö í lífi þessa fólks; þessu var bara hent. Og það er á svona stundum, eins og þegar ég fann þessi albúm, að hverfulleikinn verður svo hrópandi skýr. Þetta fólk var nánast gleymt um leið og það dó (að því er virðist) og minningum þess var bara hent í ruslið, og nýtt fólk flutti inn. - Við og líf okkar er kannski bara einhverskonar bergmál í varanleika "dauðra" hluta, gárur á vatni, mögnumst upp og fjörum út, rennum saman og sundur, í eilífu róti tímans; en vatnið er alltaf samt.

Varðandi eignar réttin þá má eflaust túlka hann mun víðar en gert er. Enda er hann bara skilgreining.