19 apríl 2008

Bókahátíð í Leipzig

Ferð í leikhúsið hér í Freiberg verður að bíða betri tíma. Bæjarbúar vilja víst frekar sjá farsa og óperettur heldur en brúðuleikhús svo að dræm miðasala olli því að hætta varð við sýninguna á Faust. Nico dó nú samt ekki ráðalaus heldur hringdi í vini sína - þau Jens í Chemnitz og Carinu í Dresden - og saman héldum við á Leipziger Buchmesse, risastóra bókahátíð í Leipzig.

Fánar utan við sýningarsalina

Þetta var alveg mögnuð upplifun. Held að ég hafi ekki farið á svona stóra sýningu síðan á heimssýningunni í Hannover árið 2000. Allt var troðfullt af bókum, tímaritum, dagatölum og fleira prentefni úr öllum áttum. Inn á milli standanna voru svo eins konar eyjur með hengirólum, baunapokum eða einhverju álíka til að hvíla sig. Verst að ég náði engri mynd af öllu goth-fólkinu og manga-fólkinu en múnderingarnar þeirra voru alveg magnaðar!!!

Carina og Jens í brúargöngum milli tveggja sala

Ýmsum brögðum var beitt til að draga að athygli fólks og fannst mér bóka-sushi-bar nokkur vera einna flottasta hugmyndin. Í stað sushi-bita hringsóluðu þar bækur á diskum sem bargestirnir gátu "gætt sér á". Þar sem þetta voru "einstakar" bækur (bara til þetta eina eintak bundið inn á nákvæmlega þennan hátt) urðu gestirnir líka að hafa hvíta látbragðsleikshanska og það gerði heimsóknina held ég ennþá skondnari.

Það var eitthvað á boðstólum fyrir alla aldurshópa

Hugmyndin um einstakar bækur virtist annars vera einhver rauður þráður í sýningunni. Til að mynda sá ég barnaverkstæði þar sem börn fá í hendurnar sögu eða semja sögu sjálf og taka síðan til við að myndskreyta og hanna bók utan um söguna. Niðurstaðan af þessu var alveg ótrúlega flott. Handskrifaðar bækur í löngum röðum, hver með sinn karakter og flottast þegar nokkrir höfðu gert bók utan um sömu sögu og enginn hafði sömu túlkun.

Fann þessa fínu myndabók um Ísland

Við náðum ekki að skoða allt en pikkuðum út hitt og þetta sem okkur fannst áhugaverðast og eftir fimm tíma bókafylleríi héldum við heim á leið.

Carina og Nico sæl og glöð með spánnýjar bækur í pokum

1 ummæli:

Valla sagði...

Heyrðu Bjarnheiður, ég á alveg eins jakka og þú ert í á myndinni og Ragnheiður Helga á svona svartan. Er þetta einhver x-stelpujakki? Verðum að gefa Ásdísi svona ef hún á ekki ;-)