19 apríl 2008

Jóhannesarpassían og eitt leiðir af öðru

Helgina eftir bókamessuheimsóknina fórum við Moritz og Maria í dómkirkjuna til að lyfta okkur upp eftir mikla vinnutörn og hlýða á Jóhannesarpassíuna í flutningi barokkhljómsveitar Dresdenborgar, dómkórs Freiberg og einvalaliðs einsöngvara. Við fengum ódýra stúdentamiða uppi undir rjáfri, sáum vel yfir og gátum labbað um eða sest niður eins og okkur sýndist hverju sinni. Tónleikarnir voru í einu orði sagt stórkostlegir. Sópraninn hoppaði leikandi létt milli tóna og söngst á við þverflautuna, tenórinn og bassarnir tveir virtust ekkert hafa fyrir sínum hlutverkum - hvert smáatriði fínpússað - og þó sá maður svitaperlurnar svoleiðis dansa á ennunum.

Held að þetta sé í fyrsta skipti á svona tónleikum sem ég hef getað hallað mér aftur allan tímann og skemmt mér en ekki þurft að engjast um í kvíða yfir hvort sópraninn dragist aftur úr hljómsveitinni í hröðu köflunum eða tenórinn nái að kreista upp úr sér háu nóturnar. Það eina sem mig vantaði var að mega klappa og hrópa húrra fyrir tónlistarfólkinu í lokin en það má víst ekki eftir svona píslarsögu... Í staðinn var dómklukkunum hringt af ákafa í lokin og við héldum í sæluvímu heim á leið.

Heima á gangi stúdentagarðsins míns sátu tólf þreyttir Pólverjar sem höfðu verið í heimsókn á málmfræðidögum (metallurgy) en þurftu að bíða í tíu tíma eftir næturrútunni sem færi með þá heim á leið. Meðan ég spjallaði aðeins við þá (var forvitin hverju það sætti að svona margir lægju sofandi á ganginum) hringdi Bilge, tyrknesk vinkona mín, og bauð mér í skyndihugdettupartý heima hjá sér í gamla bænum. Þar hitti ég fleiri tyrkneska og mexíkóska vini sem ég hafði ekki séð langa lengi og tvo af nýju alþjóðanemunum - Martin landfræðinema frá Tékklandi og Pélagie vatnajarðfræðinema frá Frakklandi.

Það var fremur róleg stemmning með eldhúsumræðum og um eittleytið héldu allir heim á stúdentagarðana. Við kvöddumst fyrir utan stærstu blokkina og fóru sjálfsagt flestir heim að sofa en ég heyrði svo dansvæna og skemmtilega tónlist á leiðinni í mína blokk, leit upp og sá að hún kæmi frá glugganum hans Joëls vinar míns. Þegar heim var komið hringdi ég því í hann til að kanna hvort ég mætti koma við. Til að gera langa sögu stutta þá dönsuðum við í litla herberginu hans Joëls með fjórum vinum hans fram til fimm um morgun við nígeríska, franska, þýska og ég-veit-ekki-hvers-lenska tónlist þar til allir duttu niður dauðir af þreytu.

Jaminnsann, ég hef barasta aldrei lent í annarri eins dansgleði frá upphafi Freibergtíðar minnar. Heldur betur óvæntur og skemmtilegur endir á góðu kvöldi.

Engin ummæli: