26 október 2007

27 klukkustundir á sólarhring

Margt hefur á dagana drifið! Pólsku vinir mínir standa fastir á þeirri skoðun sinni að ég sé ofvirk og eiginlega get ég lítið maldað í móinn svona þegar ég hugsa til kófdrukkinnar dagskrár síðustu vikna.

Viola og Katja á þjóðhátíðardegi Þýskalands

Október hófst hjá félagi eldri borgara með fyrirlestrum um Eþíópíu, Sýrland og Ísland. Af einhverri undarlegri tilviljun reyndumst við sem mættum til að kynna löndin okkar öll stunda nám í hagnýtri stærðfræði. Ekki ber að skilja það svo að maður hafi ekkert betra að gera í stærðfræðinámi en þeysast um borg og bý og spjalla um lands síns gagn og nauðsynjar - ég held það sé frekar þannig að við lærum að skipuleggja tíma okkar vel, jafnvel um of...

Þær koma frá Eþíópíu

Hvers vegna um of? Jú því ég var allt í einu komin með tuttugu áminningarbíbb í símann minn, lista með minnst sextán tímasetningum á dag og enn fleiri atriðum yfir hvað þyrfti að gera og sem ég þeysti um á hjólinu gleymdist hreinlega stundum hausinn einhvers staðar á leiðinni!

Obermarkt

Þýskt skrifræði var tekið með trompi fyrstu vikuna í október. Þar sem ég er komin með ágætan reynslubunka í eyðublaðabrasi og að stafa nafnið mitt ákvað ég nefnilega að taka að mér skiptinema og gerast mentor eða aðstoðarmaður. Strákurinn sem mér var úthlutað nefnist Błażej og reyndist óskaplega duglegur svo allt í allt tók helsta skrifstofu-kapphlaupið í raun bara þrjá daga - sem er nýtt met.

Þúsund nýnemar á leið í Kneipenralley

Nýja vinnan mín hjá Alþjóðaskrifstofu stúdenta vindur upp á sig. Þennan mánuðinn var ég búin með mína uppáskrifuðu þrjátíu tíma þann 16. október og þar sem ég get ekki bara hætt að svara fyrirspurnum, senda bæklinga í prentun og útdeila upplýsingaefni til samstarfsháskóla voru mér boðnir aukatímar í nóvember og desember. Allamalla, þetta leit fyrst út fyrir að verða alltof mikil vinna á kostnað skólans en eftir samningaviðræður tókst að finna milliveg.

E.f.v. Viktoria, Michal, Julia, Tina, Martyna, Farruh, Bea, Serkan, n.f.v. Alberto, Kheo, Blazej, Juan, Nadja, Judyta og Matze

Helgina eftir komu skiptinemanna fórum við fimmtán saman (frá sjö löndum) til Leipzig. Eins og sést í fyrri færslum var ég búin að heimsækja borgina ein míns liðs en svona í hóp er auðvitað allt öðru vísi og þarna var hægt að nýta fróðleiksmola úr leiðsögutúr helgarinnar á undan. Í lok dagsins stóð til boða að fara á Bach-tónleika í Tómasarkirkjunni. Flestir vildu frekar fara að Völkerschlachtdenkmal en fyrst ég var búin að sjá það þá ákvað ég að slíta mig frá hópnum fram að brottför, setjast í hóp áheyrenda og fylgjast með hljómsveit, einsöngvurum og kór.

Við Viktoria hjá körfustandi. Mamma Judytu býr til svona körfur en þær eru seldar þrefalt ódýrar í Póllandi...

Held að þetta hafi bara verið ágætisákvörðun. Kirkjan er falleg, tónleikarnir voru í heild skítsæmilegir, hljóðfæraleikararnir og sérstaklega altsöngkonan tóku nokkra góða spretti og ég kynntist ægilega krúttlegum gömlum hjónum frá San Fransisco sem voru nýkomin frá Amsterdam og á leið til Frankfurt en á öllum þessum stöðum sóttu þau tónleika sem tengdust uppáhalds tónskáldunum þeirra. Greyin höfðu lent í lestarverkfallinu milli Amsterdam og Leipzig en í móti kom að þau höfðu sér til mikillar ánægju kynnst ógrynni ungs fólks sem aðstoðaði þau óumbeðið við að koma þungum töskum milli lesta, finna brautarpalla og þess háttar (í stað þess að skipta tvisvar um lest þurftu þau nefnilega að skipta grilljón sinnum).

Farruh frá Túrkmenistan og Judyta frá Póllandi

Þetta haustið kom loks að því að B.Sc. og M.Sc. yrðu innleidd að mestum hluta hér við háskólann. Fólk er ægilega tregt til að segja skilið við diplómukerfið og finnst hið nýja Bologna-kerfi valda gengisfellingu á þýsku framhaldsnámi. Þessi umskipti voru notuð sem afsökun fyrir því að við upphaf annarinnar voru engar stundaskrár tilbúnar. Fyrstu vikuna ríkti sannkölluð ringulreið þar sem hvorki nemendur né kennarar vissu nákvæmlega hvar, hvenær eða yfirhöfuð hvort námskeið yrðu kennd.

Á uppskerumarkaði í Leipzig

Bráðabirgðastundaskrárnar breyttust dag frá degi - hjá mér voru t.d. gerðar fjórar breytingar í þremur fögum bara fyrstu vikuna - og allt í einu er hádegishléið ekki lengur heilagt og þeir tímar sem setjast þangað hafa ekkert svigrúm kringum sig svo margir mæta of seint í tíma um hádegisbilið, svangir og pirraðir.

Íslenskt kvöld

Drífa frænka fór til Berlínar í vinnuferð og tók með sér sérútbúinn Íslands-matarkassa frá Líneyju og Sigga sem hún sendi áfram með póstinum (takk aftur!). Því ákvað ég að halda íslenskt kvöld strax í fyrstu skólavikunni. Það reyndist mun meiri vinna en í fyrra þar sem fáir gátu aðstoðað mig við að undirbúa matinn og öll tímaplön urðu frekar knöpp. Að íslenskum sið reddaðist þetta þó allt og ég hélt klukkustundar langan fyrirlestur um Ísland, spilaði tónlist, varpaði myndum á vegg, bauð upp á hákarl, brennivín, djúpur, harðfisk, söl, fiskisúpu, ópalskot og nýbakaðar Árbæjarsafnslummur með rabbarbarasultu!

Efni í fiskisúpuna hans pabba míns

Sama dag, stuttu fyrir íslenska kvöldið, áttu allir erlendir nemar að mæta í ráðhúsið til að heilsa upp á borgarstjórann. Þar sem ég missti af þessum atburði í fyrra og vinnan mín krafðist þess, þá mætti ég í ár og það reyndist hin besta skemmtun: Við fengum að klifra upp á ljónin á gosbrunninum, vorum sektuð um tíeyring af lögreglunni fyrir tiltækið (gamall siður), gægðumst ofan í saggafullar dýflissur, heyrðum sögur af pyntingum og héraðsþekktum föngum, rákumst á beinagrindur og rannsökuðum gamla sem nýja peningaskápa frá gamalli tíð þegar myntslátta Freibergsumdæmis fór fram í ráðhúskjallaranum.

Það þurfti að skera svo ægilega mikið af lauk...

Daginn eftir fékk ég svo skemmtilega heimsókn. Benedikt bréfavinur minn og heimshornaflakkari skaust nefnilega til síns gamla háskólabæjar frá Berlín. Það voru u.þ.b. þrjú og hálft ár síðan við sáumst síðast svo það urðu heldur betur fagnaðarfundir. Fyrir þá sem ekki vita, þá var það einmitt hann Bene sem sagði mér frá Freiberg á sínum tíma en hann var ásamt fleiri Freiberg-nemum í Erasmus-skiptinámi á Íslandi. Þegar ég kom hingað í fyrra var hann farinn til Berlínar í framhaldsnám eftir skiptiverkefni á Nýja-Sjálandi og núna í sumar var hann staddur í Kanada gegnum FU Berlín. Verður spennandi að vita hvert hann stefnir næst.

Borð og kollar

Næstu vikur fylltust svo af "föstum liðum eins og venjulega" á borð við að kynnast nýjum nágrönnum, þátttöku í kapphlaupi um að skrá sig í íþróttatíma, skipulag alþjóðlegrar helgar (hún verður eftir viku) með félagi erlendra nema og þess háttar. Eins og í fyrra tók ég líka þátt í IKEA-ferð nemendafélagsins og dró að þessu sinni borð og tvo kolla heim í búið þannig að núna má matast sómasamlega við borð í réttri hæð í stað þess að bogra yfir náttborði eða frussa matnum yfir fartölvuna.

Matarboð

Um tíma hélt ég að við myndum ekki sleppa lifandi úr IKEA-ferðinni þar sem ökuþórarnir voru á þroskastigi lítilla barna, óku á 150 km/klst upp í rassgatið á næsta bíl fyrir framan, sveigðu í L-beygjum til og frá með aðra hönd á stýri og töluðu stanslaust sín á milli í labb-rabbtæki. Á leiðinni til baka fékk svo annar þeirra skyndilega þörf fyrir að kasta af sér vatni, vippaði bílnum út í kant, ofan í drulludý og tók hálftíma að draga hann aftur upp úr. Lifandi komumst við þó heim á leið og daginn eftir skrúfaði ég 38 skrúfur við undirleik klaufabárðalagsins (Pat&Mat).

Pat & Mat

Borðið var að sjálfsögðu nýtt samstundis til að bjóða mínum indælu nýju nágrönnum í mat. Þær heita Viktoria frá Ungverjalandi og Judyta frá Póllandi og eru alveg gull af stúlkum. Í fyrra var gangurinn oftast "dauður" - ég hreinlega sá varla sálu - en nú eru nýir nágrannar í fimm herbergjanna tíu við botnlanga-ganginn minn og þeir eru þónokkuð meira lifandi en þeir frá í fyrra - Judyta og Viktoria sér í lagi. Það er jafnvel orðið hálfskrýtið ef við sjáumst ekki daglega og það finnst mér mjög skemmtileg tilbreyting.

Julia átti afmæli svo við héldum sörpræspartý - allir elduðu eitthvað frá sínu landi!
Michal, Marek, Peter, Julia, Utku, Tina, Viktoria, Martyna, Bea, Sinem, Judyta, Serkan, Mauricio, Marta, Matze og Alberto

Í fyrradag læstu þær sig úti svo að við Viktoria gerðum tilraunir og ótrúlegt en satt: þrátt fyrir borðið er ennþá pláss fyrir tvo gesti í næturgistingu! Ég fer bráðum að kalla herbergið mitt Mary-Poppins-töskuna því það er svo lítið en samt má breyta því í hótel fyrir tvo til þrjá! Á endanum tókst samt að brjótast inn í herbergið þeirra á ævintýralegan hátt með Icelandair-Saga-Bonus-kortinu sem ég fékk sent óumbeðið eftir för mína til Noregs með Nordklúbbnum í fyrrahaust. Það varð því ekki af gistingu í þetta skiptið og þeir sem vilja fá söguna af hótelgestum þarsíðustu viku verða að biðja um það sérstaklega í tölvupósti...

Viktoria ræðst á frystihólfið

Annars er það helst að frétta að ég er búin að finna diplómuverkefni. Mjög líklega. Það er samblanda af fjarkönnunarfræðum, myndgreiningu, tölfræði, tölulegri greiningu og strjálli stærðfræði. Hljómar ágætlega, ekki satt? Annar leiðbeinandinn minn er doktorsnemi frá Indlandi sem hefur m.a. lært í Kaupmannahöfn og Jülich (þar sem nýi Nóbelsverðlaunahafinn í eðlisfræði starfar) og hinn er ungprófessor sem ég hef tekið þrjá kúrsa hjá.

Diplómuverkefnið mitt mun (vonandi) verða liður í því að gera greiningu hluta óháð snúningi, stækkun og tilfærslu auðveldari

Ungprófessor er starfsheiti sem var innleitt til að gera þýska háskóla opnari fyrir nýju starfsfólki. Til að gera langa sögu stutta þá er gamla kerfið mjög þungt í vöfum, þetta nýja starfsheiti var tilraun til betrumbóta en það er umdeilt hvort vel hafi tekist til. Ekki mundi ég t.d. fyrir mitt litla líf vilja gerast ungprófessor ef það þýddi jafnmikla vinnu og hún frú Niemeyer þarf að skila af sér. Stundum virðist mér sem ætlast sé til að hún vinni á við þrjá og býst þá við að hún fái taugaáfall á hverri stundu eða að áhuginn og eljan brenni upp en sem betur fer hefur nú ekki komið til þess ennþá...

Við Katja í matarboði í Schönlebestraße

Það er orðið svolítið langt frá síðustu færslu en ég veit samt ekki hvort það batnar nokkuð næstu vikur. Stefni á að sofa svolítið um þessa helgi og safna kröftum fyrir áframhaldandi annatíma - góða helgi!

Engin ummæli: