26 júlí 2007

Vissir þú?

Hún systir mín rifjaði upp ýmsar sögur í bloggleik og klukkaði mig að því loknu. Kemur m.a. fram hjá henni hvernig ég taldi grey skinninu trú um að hún væri algjör frekjudós meðan ég sjálf frekjaðist gegnum lífið meir en nokkru sinni hún! Æjá ég er víst ekki algjör engill og í tengslum við þennan leik duttu mér í hug þau atvik þar sem ég hef verið vond eða gert ljót prakkarastrik (það gerist ekki oft, held ég) eða verið frek (það gerist nú alveg ennþá... kannski bara ekki eins áberandi og áður!).

1. Í 6 ára bekk í Laugarnesskóla var okkur úthlutað fatahengi undir sviðinu, kringum innganginn niður í kjallara. Einhverju sinni fundum við vinkonurnar í fjólubláum negulnöglum (leynifélag sem aðallega fékkst við að hlaupa á 7. bekkinga í frímínútum og segja "fyrirgefðu!" og seinna meir semja leikrit af miklum móð) ekki allt dótið okkar. Eftir mikla leit fannst eyrnabandið mitt, húfan hennar Álfrúnar og skórnir hennar Stefaníu ofan í klósettunum niðri í kjallara. Vinkonur mínar grunuðu strax aðra stelpu úr hverfinu um verknaðinn (ekki man ég samt hver upphaflega ástæðan fyrir þessu öllu var) og við fórum í hefndarför sem lyktaði með því að við hentum húfunni hennar upp í tré og kölluðum hana öllum illum nöfnum. Ég skammaðist mín svo fyrir þetta að ég ældi kvöldmatnum mínum um kvöldið... svona sálræn gubbupest!

2. Við buðum fleiri stelpum að koma í leiklistarklúbbinn og höfðum m.a. púkk sem allir borguðu í tíkall eða svo í hvert skipti til að safna fyrir búningum og öðru slíku. Leikritin voru svo sýnd í frjálsri stund allt upp í 9 ára bekk í Laugarnesskóla, ef ekki lengur. Oftast hittumst við heima hjá Álfrúnu eða hjá afa og ömmu í Sigtúninu. Það er þaðan sem Drífa frænka man sérstaklega eftir frekjunni í mér því ég var víst ansiharður húsbóndi í þessum leikritum og vildi stjórna öllu og öllum. Einu sinni lyktaði því meira að segja svo að Linda, Halldóra og kannski fleiri fóru grátandi heim því ég var svo óréttlát!

3. Drífa frænka fékk ekki alltaf að vera í friði þegar vinkonur hennar komu í heimsókn. Ég vildi nefnilega fá alla athyglina frá uppáhaldsfrænku minni! Því brá ég á það ráð einu sinni í góðviðrinu úti í garði að stela frá þeim vinkonunum skónum og fela þá. Fyrst var þetta fyndið en svo var þetta örugglega orðið bara mjög pirrandi því þær ákváðu að lokum að taka mig höndum og ná af mér skónum mínum. Við þetta gjörsamlega sturlaðist ég og BEIT fast í framhandlegginn á Drífu svo það sást greinilegt tannafar! Algjör vargur sumsé... Þetta er held ég eina skiptið sem amma varð reið við mig þann tíma sem ég var í Sigtúninu hjá þeim afa og ömmu eftir skóla.

4. Afi á Akureyri varð líka bara einu sinni reiður við mig þegar ég dvaldi þar á sumrin. Þá hafði ég tekið upp á því að fá með mér alla krakkana í neðri hluta Ásabyggðarinnar til að fara í DRULLUBOLLUKAST. Við hnoðuðum drullubollur úr mold og vatni og kepptum svo í því hver gæti kastað hæst á húsvegginn bak við hús. Ásabyggð 2 var lengi rústrauð að lit með brúnum gluggakörmum en þetta var einmitt árið þar sem hún hafði verið máluð skjannahvít með blágráum körmum. Nýmálað hvítt húsið sumsé allt doppótt og útatað í drullubollum að aftanverðu! Ég skolaði þetta svo af eins og hægt var með garðslöngunni og gerði aldrei neitt af mér frekar, alla vega ekkert alvarlegt (stalst stundum til að fá mér súkkulaði niðri í búri þegar ég var send þangað eftir einhverju, enda alþekktur súkkulaðigrís...).

5. Einhverju sinni hjá Sólveigu kennara í Laugarnesskóla vorum við Álfrún kallaðar fram og ásakaðar um að leggja Lindu hálffrænku mína í einelti. Ekki man ég hvað orsakaði þetta (Linda má gjarnan fylla í sögueyðuna) en við grenjuðum allar eins og grísir yfir þessu man ég og vorum alveg miður okkar...

6. Í Laugalækjarskóla voru haldin "dateböll" á hverju ári og mikil spenna kringum hver byði þessum eða hinum og hver yrði svo dreginn með hverjum. Eitthvert árið var ég dregin með Eiríki og var bara nokkuð sátt við það en lét samt í ljós einhverja óánægju upphátt, líklega af því hinar stelpurnar voru allar eitthvað óánægðar (jiminn, furðuleg svona hópáhrif!). Tók síðan eftir því að Eiríkur sat á borði við hliðina og heyrði væntanlega það sem ég hafði sagt. Mig langaði mest að sökkva ofan í jörðina, sérstaklega af því hann var alveg einstaklega almennilegur dateballherra - mætti með rós og alles til að sækja mig kvöldið sem ballið var haldið!

Jæja nú man ég hreinlega ekki eftir fleiri svona sögum og sé að t.d. saga númer fimm var heldur "þunnur þrettándi" - þeir sem þekkja einhverjar slíkar geta komið til mín ábendingu og þá get ég bætt úr því. Held því áfram á öðrum nótum:

7. Úti í Freiberg bý ég í litlu herbergi með ponsuskonsu eldhúskrók í u.þ.b. tveggja skrefa fjarlægð frá rúminu mínu. Á morgnana elda ég mér hafragraut og þar sem herbergið er oftar en ekki álíka heitt og gufubaðið í Laugardalslaug (það er sjaldnast neitt óskaplega heitt en samt þannig að maður færi ekki í fötum þangað inn) þá elda ég oftast grautinn nakin. Get ég því með sanni kallast "nakti kokkurinn" eins og sjónvarpskokkurinn frá Englandi.

8. Þrátt fyrir að vera mikill klifurköttur hef ég aldrei lent á slysó með gat á höfðinu eða annað þvíumlíkt. Einu slysin sem ég hef lent í - og þetta er tæmandi listi, eftir því sem ég best veit - eru þegar bílhurð var skellt á höndina á mér þegar ég var tveggja eða þriggja ára og litli putti brotnaði, þegar ég braut í mér framtennurnar með hamri við kofasmíð úti á svölum ca. 11 ára gömul, þegar einhver skall á mér í hálkunni fyrir framan Laugarnesskólann svo ég datt á hökuna og það kom lítið gat (ennþá með ör) og þegar ég missteig mig illa í Stigulsfótboltanum (ökklinn ekki samur síðan).

Þar hafið þið það. Klukka alla X-ara og set hér með af stað veðmál um hver verði fyrstur til að átta sig á klukkinu og skrifa svona færslu!

Engin ummæli: