18 ágúst 2007

Lesbók - Eldgos - Landið

Í gærkvöldi fletti ég mislauslega gegnum bunka af Lesbók Morgunblaðsins frá tímabilinu 2000-2007. Þessi blöð um menningu, listir og þjóðfélagsmál hef ég drukkið í mig allt síðan við gerðumst helgaráskrifendur að Morgunblaðinu og ekki bara það, ég hef hreinlega safnað þeim líka!

Flutningar standa fyrir dyrum og þar sem koma þarf dótinu mínu fyrir í geymslum hér og hvar varð niðurstaðan að lestur Lesbókar færi hér eftir fram á Þjóðarbókhlöðunni en ég gæti klippt út úr þessum blöðum nokkrar myndir og greinar til minningar áður en bunkinn (hann náði mér í hné) færi út í gám. Þannig hef ég einmitt notað Lesbókina til þessa - klippt út eitthvað sem hafði áhrif á mig eða ég sá fyrir að geta notað á einhvern hátt.

Við systurnar erum svakalegir safnarar, hvor á sinn hátt. Ætli kassarnir með steinum, kuðungum og skeljum sem koma ofan af háalofti séu ekki orðnir fimm eða sex svona svo ég nefni dæmi. Einnig var skondið að finna skókassa sem við höfðum pakkað í sjö og níu ára í Álfheimum og tekið með á Laugalækinn. Þar var að finna sælgætisbréf, ryðgaða nagla, snærisspotta og fleiri gersemar. Gildismatið hefur eitthvað breyst því mest fór í tunnuna.

Ekki fer þó allt í ruslið. Stærstan hluta gefum við frændsystkinum, Góða hirðinum eða börnum úti í heimi og góður slatti fer líka til vinkonu okkar sem ætlar að selja dót og drasl í Kolaportinu helgina kringum 1. september.

---

Mér var líkt við eldfjall um daginn. Get ekki lýst nákvæmlega ástæðunni fyrir því en það hafði eitthvað með óútreiknanleika og skyndileg gos að gera. Þá varð mér hugsað til flutninganna nú. Við höfum jú vitað í tæp þrjú ár að pabbi og mamma mundu vilja selja og flytja í smærra húsnæði um það leyti sem Líney lyki grunnnáminu í Háskólanum. Það er eins og svo mörg eldfjallanna, við vitum að þau munu gjósa á næstu 100-300 árum eða svo.

Laugalækurinn fór á söluskrá í vor og einn kom til að skoða en hafði ekki áhuga - smá fyrirskjálfti. Svo leið og beið. Þar til vikuna fyrir verslunarmannahelgi. Eins og hendi væri veifað kom lítil fjölskylda að skoða, heillaðist, við kíktum á tvær íbúðir - sú seinni mjög álitleg - og kabúmm viku síðar var búið að selja og kaupa - eldgos!

Við höfum búið hér í 16 ár (þessi byrjun minnir mig á leigubílstjórann sem Karl Ágúst lék stundum í Spaugstofunni) og auðvitað kem ég til með að sakna hússins. Það er mjög skrýtin tilfinning að fara gegnum dót allt frá barnaheimili til háskólagöngu, velja hvað megi fara og hverju skuli haldið til haga - já og að kveðja húsið.

Íbúðin sem pabbi og mamma fundu er alveg frábær og það sem meira er: hún er hér rétt handan við hornið. Það þykir mér stór plús því hverfið er svo stór hluti af okkur. Svo minnir skipulagið á íbúðinni mömmu og pabba á Álfheimana (við vorum líka mjög ánægð þar), hægt að fara í pot-í-bumbu-leikinn og fleira. Næsta biðstöð mín eftir Freiberg-ár númer tvö verður svo væntanlega leiguhúsnæði eða eigin íbúð en ég get gist á Laugarnesveginum meðan ég finn út úr því.

---

Á mánudaginn eru skil á forritunarverkefni í ArcGIS landupplýsingaforritinu. Þar er um að ræða Visual Basic þvælu sem ekki vill ganga upp og hrundi trekk í trekk á föstudaginn. Vona að það reddist bara. Tímaþröngin er algjörlega á mína ábyrgð því ég ákvað að fara eina viku til Akureyrar og svo ganga yfir Fimmvörðuháls áður en ég kláraði verkefnið. Sé ekki agnarögn eftir því!

Fyrir norðan hitti ég afa og ömmu, kvaddi Vesturfarana Hall, Andreu, Fönn og Dögun, ferðaðist með Halli Heiðari, afa og ömmu um Húsavík, Tjörnes, Ásbyrgi, Ástjörn og alla leið á Ærlæk þar sem við hittum afa og ömmu hans Sigga, já og heimsótti auðvitað Hlyn, Kristínu, Huga, Lóu og Unu og fór með dömunum í sund, flestum á Safnasafnið, nokkrum að fleyta kertum á Pollinum og drakk kvöldte með öllum í Ásabyggðinni.

Við amma skutumst líka í sumarhúsið hennar Sollu til að skoða okkur um og borða bláber, jarðarber, sólber, rifsber og krækiber úr móanum þar í kring, fengum okkur ís í Vaglaskógi og héldum svo áfram í Bárðardal þar sem rauð flugvél með beygluð hjól var á leið ofan úr dal eða af Sprengisandi.

Afi og amma reyndust hressari en ég hélt en auðvitað er heilsan ekki sú sama og áður og mikil ósköp af lyfjum sem þarf að innbyrða. Það hlýtur að vera skrýtið eftir langa ævi þar sem ekkert mál hefur verið að hoppa, skoppa, teygja sig upp í skápa, ganga lengri vegalengdir og þar fram eftir götunum, að allt í einu hættir maður að geta þetta allt og fer hreinlega að slasa sig því hugurinn gleymir því að líkamleg geta er ekki sú sama og áður.

Á leiðinni til Reykjavíkur tók ég tékkneska puttaferðastelpu upp í við afleggjarann að Dalvík. Það er svo gaman að hitta ferðafólk því þau hafa flest allt aðra sýn á landið en við og spyrja svo kostulegra spurninga!

Vaka olíumálajarðfræðingur dreif mig svo með á Fimmvörðuháls (takk Vaka!) ásamt fararstjóranum okkar henni Sveinborgu. Fengum gott veður og glæsiútsýn þar til fór að hvessa og hælsærin mín eru ennþá að gróa (ég þarf að fá mér aðra gönguskó, fæ alltaf hælsæri sama hvað ég geng þessa skó til...). Það var mjög gaman að kynnast Sveinborgu, mikil gæðastelpa, og hægt að læra ýmislegt af þeim Vöku. Kem örugglega til með að nýta það í kennslufræði, leik og starfi.

Jæja ég hef þetta ekki lengra að sinni - kassarnir bíða!

Engin ummæli: