22 júlí 2007

Ferðalag, forgangsröðun og fleira

Þessi pistill er skrifaður á ferðalagi milli fögurra borga í þremur löndum. Dagurinn í gær (18.7.) hófst á alþjóðadögum menntaskólanema í Freiberg. Þar hélt ég fyrirlestra um Ísland tvisvar yfir daginn og hjálpaði Samir frá Aserbaídsjan með sinn fyrirlestur. Yngri krakkarnir voru skemmtilegustu áheyrendurnir, áhugasamir og spurðu margra spurninga. Þegar komið var að strákunum frá Indlandi að segja frá sínum heimkynnum varð ég samt að þjóta heim til að pakka niður dótinu mínu.

Lestarstarfsmenn eru í hálfverkfalli þessa dagana og Líney Halla hafði sagt mér að helst létu þeir morgunferðirnar falla niður. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan mig ákvað ég því að fá far (Mitfahrgelegenheit) til Berlínar frá Dresden. Með engar væntingar kannaði ég hvort far væri í boði frá Freiberg líka og viti menn - var svo heppin að finna ferð hjá stelpu sem er að læra viðskiptafræði í Freiberg. Allt í allt vorum við þrjú sem fengum far hjá henni, þar af einn stórundarlegur maður með lítinn bakpoka og bílnúmer í farteskinu sem stöðugt kallaði okkur stelpurnar "litla mín" á saxnesku ("kliiine") svo við urðum að anda djúpt til að verða ekki pirraðar á honum!

Í Berlín hitti ég ótalmargt skemmtilegt, ringlað, skondið og hjálpfúst fólk á leiðinni til Hlyns og Kristínar. Meðal annarra Ítala sem hafði vægast sagt furðulega fordóma um Þýskaland, kunni enga þýsku en ætlaði samt að hefja nám í þýskum fræðum í haust, var einmana og sýndi mér ákafur bók um heimabæinn sinn á Ítalíu milli fullyrðinga á borð við "ég ætla aldrei til Austur-Þýskalands, þar búa bara fasistar!" og "hér eru allir á móti mér af því ég er Ítali, við unnum nefnilega úrslitin á HM í fótbolta...".

Eins og ævinlega var gott og gaman að koma í heimsókn til Hlyns, Kristínar, Lóu og Unu - Hugi var nýfarinn til Kaupmannahafnar og ég rétt missti af Liane sem hafði verið í vikuheimsókn. Verð bara að drífa mig í heimsókn til hennar og Susönnu til Tübingen næsta vetur. Íbúðin sem þau fengu í sumarskiptum við þýska fjölskyldu er afskaplega notaleg og ég svaf eins og steinn - en oft sef ég laust og lítið fyrstu nóttina á nýjum stað, sama hversu þreytt ég er.

Nú (19.7.) bíð ég eftir fluginu til Kaupmannahafnar og held svo þaðan í kvöld heim á leið. Hlakka mikið til að hitta alla þar! Fyrst það var ódýrara að millilenda í Köben og það með sjö klukkustundir milli fluga stökk ég auðvitað á þann pakka og get þá heimsótt Ölmu og Jónas í leiðinni. Orðið langt síðan ég hef séð Jónas Indlandsfara og algjörlega nauðsynlegt að heilsa upp á Ölmu reglulega, já að ekki sé minnst á hið mikilvæga hlutverk að færa þeim hvítt súkkulaði áður en þau halda í ferðalagið sitt austur á bóginn.

Síðustu vikur hafa verið óvenju þéttpakkaðar. Próf, verkefni, fyrirlestrar og ýmsar uppákomur. Ég hefði getað planað þær fullar af próflestri og verkefnavinnu en ákvað þess í stað að nýta tvö tækifæri sem buðust: heimsækja Ingu í París eina helgi og fara til Magdeburgar aðra helgi. Þegar maður vegur það að heimsækja nýja borg og hitta fólk frá öllum heimshornum á móti því að sitja enn eina helgina á stúdentagörðunum við próflestur - já tjah... er þá ekki augljóst hvað maður velur? Þessi forgangsröðun finnst mér alla vega hafa borgað sig margfalt þrátt fyrir stress og stíft prógramm fram á nætur vikurnar milli helga!

Til Magdeburgar hafði öllum styrkþegum DAAD í Norður- og Austur-Þýskalandi verið stefnt saman til fundar helgina 6.-8. júlí. Gafst þar tækifæri m.a. til að hitta fólk augliti til auglitis sem ég hef verið í tölvupóstsambandi við í rúmt ár og efndi ég þar með einnig loforð sem Guðmundur heimilislæknir var búinn taka af mér þegar ég fékk hjá honum læknisvottorðið síðasta haust (var látin hoppa og skoppa og tekinn púls til að staðfesta heilbrigði fyrir þýska tryggingakerfið) en hann vildi endilega að ég heimsækti Magdeburg.

Helgin var þéttpökkuð af fyrirlestrum, fræðsluferðum og umræðutímum svo eins og gefur að skilja varð ekki mikið um próflestur en þess í stað hitti ég 700 manns frá 95 löndum, kynntist minnst tylft af þeim mjög vel vel og tugi betur vel og upplifði aftur sama andann og var í PAD (Pädagogischer Austauschdienst) þegar við Líney Halla ferðuðumst um Þýskaland í mánuð ásamt menntaskólanemum frá 52 löndum sumarið 2001.
Sjálfsagt þekkja þeir einir þessa tilfinningu sem hafa farið í CISV sumarbúðir, starfað í skátunum eða öðrum alþjóðahreyfingum/fjölþjóðaverkefnum - svona umfaðmandi góð "allir eru vinir"-tilfinning (hljómar kannski væmið en svona er það nú bara samt...).

Frá sumum löndum voru stórir hópar styrkþega, allt upp í þrjátíu manns, og margir frá Asíu og Afríku höfðu tekið fjölskylduna með sér (þegar haldið er til doktorsnáms í fjarlægu landi til minnst þriggja ára er það jú alveg nauðsynlegt). Því voru auk styrkþeganna og maka þeirra líka rúmlega 70 börn á svæðinu og mikið líf og fjör á hótelinu fína þar sem við gistum.

Stóru hóparnir héldu mikið saman, enda gaman að hitta landa sína sem eru dreifðir víðs vegar í ýmsum borgum Þýskalands. Það hittist því þannig á að við sem vorum eitt, tvö eða þrjú frá sama landi hópuðumst saman. Alltaf kemst ég betur að því þegar svona hópur kemur saman hvað það er gott að koma frá Íslandi - við erum svo frjáls. Allt annað en t.d. fyrir þá sem koma frá Bosníu, Georgíu eða palestínsku herstjórnarsvæðunum, svo einhver séu nefnd, fyrir þau eru ferðalög munaður sem fáir geta leyft sér - ekki endilega penginga vegna heldur fyrst og fremst erfitt að fá leyfi til að fara úr landi og inn í önnur lönd.

Þau frá Palestínu hafa meira að segja engan passa - eru án ríkisfangs - og ein af fáum leiðum út er að fá DAAD-styrk. Ein stelpan sagði mér frá því hvernig dagleg rútína hefði breyst eftir byggingu aðskilnaðarmúranna. Þriggja mínútna labbitúr barna systkina hennar í skólann er orðinn að klukkutíma ferðalagi. Fyrst þarf að ganga í hálftíma út að landamærahliði, þar þarf að sýna hermönnunum pappíra og komast yfir, ganga svo í hálftíma í skólann og svona gengur það sömu leið á bakaleiðinni! Svipaðar sögur hafði pólsk vinkona mín að segja en hún fór í heimsókn til Ísraels og fyrrum Palestínu í vetur.

Jæja þá er dagur að kveldi kominn og stutt í flugið heim. Hér í Kaupmannahöfn tóku Alma og Jónas aldeilis höfðinglega á móti mér - buðu upp á danskt øl á torgkaffihúsi og nammigóðan japanskan mat á Tívolíveitingastaðnum wagamama. Get heilshugar mælt með þeim stað. Eftir gott spjall og labbitúr hélt ég svo sæl af stað út á flugvöll með maga fullan af ormanúðlum (jafnt utan sem innan...) og léttari bakpoka.

Aukinheldur reyndist Regína Unnur vinna á torginu fyrrnefnda! Hafði ekki séð hana í lengri tíma, svo það urðu fagnaðarfundir. Stúlkan bara flogin inn í meistaranám í söng, ein af þremur sem fengu skólavist - til hamingju með það!

Að lokum langar mig að gera smá lista yfir nokkra af þeim hlutum sem ég fer ósjálfrátt að gera í prófatíð - hafið þið einhverjar svipaðar venjur?
 • gúgla vini og vandamenn
 • lesa gleymd blogg auk rútínublogghringsins
 • borða súkkulaði og meira súkkulaði
 • krifja einhver gleymd mál til mergjar í huganum góða stund
 • synda um í tilvistarkreppunni
 • sveiflast milli þess að láta stjórnast af tilfinningum...
 • ...og þess að láta einvörðungu skynsemina ráða
 • taka upp á tiltekt, uppvaski, myndaupphengingum og fleira föndri
 • skrifa ótal tölvupósta sem alveg mættu bíða
 • fá nýjar hugmyndir
 • teikna og þróa nýju hugmyndirnar
 • vanta nýja tónlist, nýja hönnun...
 • ýmist æðibunast í stresskasti eða taka sér óendanlegan tíma í rólegheit
 • finna ný áhugamál
 • skrifa svona punkta og alls konar aðra lista
Að þessu viðbættu eignaðist ég traktor, stól sem lætur mig sitja beinni í baki og skaust eitt kvöld á menningarnótt í Meißen til að fara í lifandi leiðsöguferð um gamla bæinn þar sem um 30 menntaskólanemar léku atriði úr sögu bæjarins frá miðöldum í búningum með miklum tilþrifum!

Engin ummæli: