19 maí 2007

Á siglingu

Get ekki lýst því hvað það var hressandi að komast loksins í sund utandyra og í 50 metra laug. Búin að bíða eftir því í allan vetur og varð svo veik akkúrat um síðustu helgi þegar opnaði. Núna er kvefið hins vegar á undanhaldi og því skellti ég mér í sund áðan. Konan í afgreiðslunni sagði held ég þrisvar við mig að útilaugin væri köld áður en hún seldi mér aðgangslykilinn. Hún hafði alveg rétt fyrir sér - laugin var ííísköld - en mér var bara alveg sama!

Finn bara kvöldmynd með broti af útilauginni og upplýstri innilauginni

Ég hefði raunar ekki getað valið betri viku til að vera slöpp. Fyrirlestrum eftir hádegi var aflýst tvo daga í vikunni vegna "stúdentadaga" svo þar gafst gullið tækifæri til að sofa úr sér kvefið án þess að vera í einhverju stressi með að ná upp æfingum og glósum. Það skemmtilegasta sem var á dagskrá stúdentadaga var síðan á miðvikudaginn og þá var ég orðin sæmilega hress.

Kannski finn ég líka svona sundvötn einhvers staðar í nágrenninu?

Við í félagi erlendra nema settum upp bás til að kynna félagið og vorum með alls konar sprell - þar á meðal kokteilbar, arabískukennslu, aserbaídsjönsk borðspil og íslenska leiki. Þeir sem gátu reist horgemling fengu bestu kokteilana. Engum tókst að stökkva yfir sauðalegg en með hjálp tveggja pilta tókst mér að sýna "fæðinguna" (eða hét það ekki svo, Helga?) og að sækja smjörið í strokkinn. Næst ætti ég kannski að koma öllum í hanaslag?

Smjörið sótt í strokkinn með Johsa og Klaus í Osló síðasta haust

Uppstigningardagur nefnist öðru nafni "kalladagur" hér í landi og þá ku fjölskyldur fara í gönguferðir og kallar drekka sig fulla. Ég sá engar spásserandi fjölskyldur (enda fara þær sjálfsagt eitthvert út fyrir bæinn) en hins vegar var fylleríið allsráðandi hér á stúdentagörðunum. Strákarnir mættir út með bjórkassa (í fleirtölu) klukkan 10 um morgun og græjurnar í botni. Svo var bara partý allan daginn og fram á nótt. Þurfti sjálf að lemja saman fyrirlestur fyrir samæfingar og var orðin nokkuð þreytt á lagavali nágrannanna og búmmbúmmbassanum um kvöldið... en það var samt mjög fyndið að borða hádegismat með Rammsteingaul og -gól utan úr garði.

Engin ummæli: