31 maí 2007

Ekki bara vol og væl

Var byrjuð á færslu fyrir nokkrum dögum sem bar yfirskriftina vol og væl en það á ekki alveg lengur við. Hér hefur gengið á með þrumum, eldingum, hagléli, afmælum og steikjandi hita síðustu vikur en nú er aðeins búið að kólna aftur - mér til mikillar gleði.


Þrumuveðrin hérna eru alveg svakaleg. Mig langar yfirleitt mest til að leggjast í grasið í rigningunni og horfa á herlegheitin. Eitt kvöldið í skýfallsrigningu og þrumuveðri þegar ég var á leið upp á "fjallið" (það er smá hæð, svipað og að hjóla upp Ártúnsbrekkuna) til að mæta á badmintonæfingu festist keðjan svo ég stoppaði til að kippa því í liðinn. Meðan ég lagaði hjólið laust niður eldingu í brekkunni fyrir ofan mig! Allrosalegt það.



Skýring á þreytu, slappleika og almennum furðulegheitum sem ég minntist á í fyrri færslu fannst loks um síðustu helgi. Að öllum líkindum er ég með frjóofnæmi og náði það hámarki um helgina. Ekki skemmtilegt. Hérna er miklu meira magn af frjói í loftinu og þess vegna hef ég aldrei fundið fyrir þessu heima á Íslandi.


Þurfti að undirbúa nokkra fyrirlestra en heilinn minn virkar ekki nógu vel í miklum hita, augun og nefið mótmæltu frjókornum sem aldrei fyrr og herbergið var á góðri leið með að breytast í gufubað (það var heitara inni en úti þrátt fyrir ýmsar tilfæringar) og því ekki beint kjöraðstæður til skrifta. Þráaðist samt við og sat sveitt við handrits- og glærugerð alla helgina eftir að hafa safnað matar- og vatnsbirgðum.

Einhverjir villimenn...

Nei bíddu nú við - ekki var ég innilokuð alla helgina. Skrapp jú aðeins í sund og í eitt af fyrrnefndum afmælum. Svo hófst vikan samkvæmt stundaskrá með eftirtalið að auki: fundur vegna fyrirlestrar á þriðjudag, annar fyrirlestur haldinn á miðvikudag og í dag á að skila efnisyfirliti og heimildaskrá fyrir þriðja fyrirlesturinn - allt á þýsku að sjálfsögðu. Bammsalabúmm.

Svipmyndir úr afmælisveislu hjá David og Miguel

Stærðfræðifyrirlesturinn í gær gekk í það heila vel. Um miðbikið birtist ein mynd vitlaust (hafði gert smá mistök í TeXinu) og henni tókst að setja mig svo ærlega út af laginu að ég hætti að trúa sjálfri mér við sönnun setningarinnar sem fylgdi. Það er alveg hræðilegt að standa upp við töflu með eigin röksemdafærslu á blaði og trúa henni allt í einu ekki sjálfur.

Bíddu, ha? Nei sko þetta leiðir í þessa átt eða nei... sko hérna... uhm...

Kannski var það af því ég prófaði þrjár mismunandi leiðir við sönnunina áður en mér fannst hún skotheld og vann að þeim fram á nótt... Er ekki viss en ég fékk að halda áfram og skilaði held ég seinni hluta fyrirlestrarins nokkuð skammlaust. Skoðaði svo sönnunina eftir á og fann ekkert að - hef ekki hugmynd um hvað gerðist þarna við töfluna!


Áðan fór ég til læknis og ætlaði að fá ofnæmispróf. Kom í ljós að það virkar bara eftir að frjótímanum lýkur. Læknirinn var með þeim skondnari sem ég hef hitt. Frekar afalegur, forvitinn, alltaf á iði, talaði MJÖG HÁTT saxneska mállýsku og með ýmsum fyndnum orðatiltækjum (sem ég hef aldrei áður heyrt) og ég var varla stigin inn úr dyrunum þegar hann baunaði út úr sér greiningu á öllu ofnæmistengdu sem ég hef haft um ævina - alveg frá fæðingu! Nú þarf ég bara að fá staðfestingu hjá pabba og mömmu hvort það passi allt.

Töfralæknir

Það fyndnasta var eiginlega þegar hann lýsti því hvernig fjölskyldan mín sæti til borðs við að borða heita súpu. Hann bætti alltaf við "að öllum líkindum" en ég held svei mér þá að nánast allt hafi verið kórrétt. Svo leisti hann mig út með einhverju til að stilla ofnæmið og ef það virkar ekki get ég mætt í próf í haust.


Um helgina er planið að fara með hópi erlendra nema á náttúruverndarsvæðið í Spreewald til að sigla á kanó, borða súrar gúrkur, tjalda og láta flugur éta sig. Það verður hressandi eftir erfiða viku - góða helgi!

Engin ummæli: