13 maí 2007

Ofkeyrsla

Obbosí. Í þessari viku fór ég tvisvar í grunnskóla að kynna Ísland. Eiginlega átti ég ekkert að fara aftur en það fundust svo fáir aðrir og sumir hættu við á síðustu stundu þannig að ég hljóp í skarðið. Strax á miðvikudaginn var eitthvað farið að ganga á orkuvarabirgðirnar og eftir föstudaginn var ég hreinlega búin á því.

Hef oft verið undir álagi og skil ekki alveg af hverju þessi vika olli þessu en maður veit það víst ekkert fyrir fram. Eins og ég "brynni yfir", fékk hita og alles. Núna er ég öll að koma til. Búin að sofa og taka því rólega.

Eins og ég sagði frá um daginn þá var fyrsti skólinn sem ég fór í alveg frábær, krakkarnir lifandi og skemmtilegir og spurðu margs. Á miðvikudaginn hef ég hins vegar aldrei kynnst leiðinlegri nemendum. Jafnvel þau yngstu sátu eins og dauðyfli og störðu áhugalaus á mig, yggldu sig yfir harðfisknum og voru almennt hundleiðinleg! Þrír strákar voru undantekning þar á; gátu ekki setið kyrrir, hökkuðu í sig harðfisk og spurðu margs en það var eins og kennaranum væri líka mest í nöp við þá.

Á föstudaginn var síðan aftur skemmtilegt og eini gallinn sá að dagskráin hafði verið plönuð svo þétt að varla gafst tími fyrir spurningar. Þetta var lítill þorpsskóli og krakkarnir meira að segja búnir að æfa söngva og þjóðdansa ýmissa Evrópulanda til að flytja okkur á sal, föndra myndir og fleira í þemaviku um Evrópu. Sammerkt með skemmtilegu skólunum var ástríkt umhverfi, góður andi, mátuleg óreiða, lítil húsakynni og indælt starfsfólk. Í þessum leiðinlega leit allt rosalega vel út á yfirborðinu en það var líka eins og yfirborðið væri þeim allt - lítið hugað að sálinni - eða hvernig maður orðar það.

Allt í allt var þetta alla vega mjög lærdómsríkt. Held samt að ég haldi mig bara við skólann minn næstu vikur því það eru svo margir fyrirlestrar og stór hópverkefni fram undan.

Engin ummæli: