Upp skutust maístangir hér og þar en ekkert varð samt úr brennum þetta árið vegna hættu á skógareldum eftir þurrk undanfarinn mánuð. Meira að segja þurfti að borga offjár til Tékka fyrir opnun vatnslokanna í Usti nad Labem svo að gufuskipalestin sem skipulögð hafði verið á Saxelfi í Dresden gæti orðið að veruleika. Hækka þurfti vatnsborðið um 1,3 metra eða svo og auðvitað reikna nákvæmlega hvenær flóðbylgjan ætti að fara af stað svo hún væri á réttum tíma í Dresden.
Við héldum af stað með lestinni til Dresden snemma um morgun og þaðan með S-bahn til Schmilka. Það var allt troðið af göngugörpum, stórfjölskyldum og hjólaferðalöngum en sem betur fer höfðu ekki allir áætlað sama stað sem upphaf útiverunnar og því rýmkaði um okkur eftir því sem við fjarlægðumst Dresden. Við árbakkann þar sem við stigum út beið okkar ferjumaður drukkinn/timbraður og fýldur mjög sem ferjaði hópinn í þremur hollum yfir til Schmilka. Þaðan héldum við síðan upp bratta skógivaxna brekku eftir til þess gerðum stígum.
(lausleg þýðing:
Síðasti séns til að fylla á bjórforðakútana áður en óbyggðirnar taka við!
Þér hafið sigrast á óbyggðunum og megið til með að launa yður með góðum bjórsopa!)
Veðrið var eins og alltaf alveg frábært og útsýnið með eindæmum gott. Við sáum vítt og breytt yfir Böhmen í Tékklandi og auðvitað yfir þýska hluta fjallgarðarins líka. Þetta er þjóðgarður svo stígarnir eru allir ekki einungis merktir í bak og fyrir heldur einnig útbúnir með stigum, tröppum, stöngum og trjádrumbum til aðstoðar í mesta brattanum og auka varúðarhindrunum við upphaf leiða sem ætlaðar eru klettaklifrurum svo enginn álpist nú þangað án þess að beinlínis ætla sér upp snarbrattann með öryggislínu og tilheyrandi græjur.
Miðað við íslenskar fjallgöngur var þetta því ekki mjög erfið ferð og raunar vorum við mun skemur á leiðinni en upphaflega var áætlað (komum heim fyrir myrkur). Eitthvað grunar mig að ég hafi átt sök á því - verð að viðurkenna að ég var eins og kálfur að vori að komast loksins í fjallgöngu og skundaði upp brekkuna eins og herforingi! En samferðamenn mínir urðu samt ekkert uppgefnir því það var svo oft tilefni til að stoppa og skoða útsýnið áðurnefnda.
Hingað til hef ég líka verið umvafin stærðfræðingum og öðrum sem láta sér duga einföldustu jafngildisflokka í náttúrunni á borð við blóm, fugl, tré og steinn. Þessir ferðafélagar voru hins vegar með allar nákvæmar skilgreiningar á hreinu, meira að segja latnesk heiti á plöntunum, afstæðan aldur jarðlaga, tegundir steingervinga og þess háttar svo minnti heldur betur á ferðalag með fjölskyldunni minni!
Við höfðum líka öll tekið með dýrindis nesti og hugað að því að allir í hópnum gætu fengið hluta af því sameiginlega (gourmetstigið var alveg á við hann pabba minn fyrir ykkur sem þekkið hann og ekkert pælt í að hafa bakpokana létta). Á stígunum myndaðist sums staðar umferðaröngþveiti í þrengingum uppi á toppnum en sem betur fer virtust allir í frídags-skapi og því ekkert að flýta sér.
Skógurinn er mjög fallegur þarna. Hann er blandaður lauf- og barrtrjám af ýmsum gerðum svo myndast eins og bútateppi með alls konar grænum litum. Ég verð að fara þangað aftur þegar haustar og sjá þá haustlitina á lauftrjánum með dökkgræn barrtré í kring. Mengun á þessum slóðum hefur líka minnkað töluvert síðustu áratugi og gróðurinn náð sér undrafljótt á strik.
Endastöð okkar að þessu sinni var hressingar- og heilsubaðastaðurinn Bad Schandau. Það er svona dúkkuþorp eins og úr teiknimynd og miðað við húsin og garðana get ég ekki ímyndað mér annað en að allir taki af lífs og sálar krafti þátt í keppninni um fallegasta garðinn, já og keppist jafnvel stundum um of! Á mörg húsanna var málað vatnsborðið í flóðunum 2002 allt upp á aðra hæð (!) og greinilegt að endurbygging hefur gengið vel - allt nema einn herragarður komið í toppstand.
Meðan við biðum eftir ferjunni yfir til Krippen, þar sem við hugðumst taka S-Bahn til Dresden að nýju, leið gríðarlöng lest með bílum á fram hjá okkur. Ég taldi 204 bíla á fylgivögnunum!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli