07 maí 2007

Húrra, húrra rigning!

Ahhh, það byrjaði að rigna í dag! Ekki veitti nú af. Núna blómstra öll litlu trén sem heita lyngrósir í garðinum við stærðfræðibyggingarnar. Mjög fallegt.


Í dag lék ég mér með loftmyndir af hinum ýmsu gerðum. Vissuð þið hvað gervihnettir eru sniðugir? Mér fannst ósköp fyndið þegar Bjarni Gunnars stærðfræðikennari sagði við okkur í 3.G að við yrðum "að gerast vinir tölugildisins". Eftir tímann í dag gerði kennarinn okkur ljóst að við þyrftum að gera gervihnetti að vinum okkar, þekkja rásirnar þeirra og upplausn myndanna sem þeir taka - hún orðaði þetta ekki alveg svona en ég heyrði það samt alveg þannig.


Komst líka að því við fyrstu skrefin í SQL/Oracle-hópverkefninu um helgina að mér finnst gaman að hanna og búa til venslaða gagnagrunna. Skyldi það tengjast áralangri hrifningu minni á bókasöfnum? Eða bara vera hrein skipulagsárátta? Svona þörf til að flokka allt á sem hagkvæmastan hátt og skilgreina tengsl á milli... Held alla vega að þetta sé ekki alveg eðlilegt því af þeim hundrað grilljón manns sem eru í kúrsinum með mér þá líta allir út eins og þeir vildu frekar skúra gólf í 12 hæða byggingu en hanna gagnagrunn.

Engin ummæli: