11 júní 2007

Í senn unglingur og ellismellur

Spreewaldferðin heppnaðist mjög vel og ég kom heim með styrkari upphandleggsvöðva og bit á bakinu þar sem ég hafði ekki náð til með flugnafælunni. Auðvitað gerðust ýmis ævintýri. Við fengum tveggja til þriggja manna kajaka í stað kanóa og þar sem kajakarnir voru ekki svo vel búnir að hafa stýri minnti upphaf ferðarinnar á klessubíla þegar við skakkskröggluðumst milli bakka búmmtsjaggabúmm.

Spirol er gamalt þýskt húsráð sem virkar vel á flugnabit

Félagi minn í róðri var skátaforingi frá Grikklandi svo þrátt fyrir tannstöngulsmjóa handleggi hugsaði ég með mér að hún hlyti að kunna á kajak. Það reyndist víðs fjarri og eftir tæpa klukkustund viðurkenndi Vaso að hendurnar hennar neituðu að veifa spöðunum feti lengra. Ætlunin var að ferðast í 5-6 tíma um skurðina í Spreewald svo ég fékk ágæta æfingu við að koma okkur áfram. Einhvern veginn tókst okkur líka að týna hópnum (við vorum ekki eini kajakinn sem lenti í því) en það endaði allt vel og olli fleiri ævintýrum hjá hópnum sem fór að leita að okkur og síðar hinum.

Við Vaso rétt áður en við týndumst

Við sáum fullt af skemmtilegum dýrum á borð við íkorna, vatnarottur (held þær heiti svo á íslensku, latneskt heiti er myocastor coypus) og storka og hittum bæði vingjarnlegt fólk sem leyfði okkur að skoða kortið sitt og góðglatt/fullt fólk sem ýmist gerði athugasemdir um hvernig ætti nú að sigla á kajak (þau sátu sjálf um borð í eins konar gondóla sem var stjakað áfram og þurftu ekki að gera annað en sötra bjór og sturta í sig snafsi) eða vildu plata okkur í gleðskap um kvöldið.

Krúttleg vatnarotta

Um kvöldið grilluðum við á tjaldstæði við farfuglaheimili, átum nammigóðar súrar Spreewald-gúrkur og stunduðum boltaleiki fram á kvöld. Flestir skriðu svo í tjöld um miðnættið því okkar beið Kahn-ferðalag með leiðsögumanni snemma næsta morgun. Kahn er nafnið á gondólunum sem notaðir eru í Spreewald. Upprunalega voru þeir hoggnir til úr einum trjádrumbi og sökkt í vatn til að þétta þá en við fengum bát úr áli. Þar sem svæðið er friðlýst er bannað að ferðast um með mótor nema brýna nauðsyn beri til. Þannig hefur slökkviliðsbáturinn rétt til að nota mótor og bændur sem búa þannig að bara er hægt að komast á jörðina um skurði fá líka undanþágu frá mótorbanninu.

Gamall Kahn

Í Spreewald er að finna slavnesk ættaðan minnihlutahóp sem mikið hefur þurft að berjast fyrir réttindum sínum, siðum og tungumáli. Þau nefnast Sorbar og við heimsóttum safn í anda Árbæjarsafns um sögu þeirra. Khaled frá Egyptalandi fannst verulega lítið til safnsins koma, enda engar fornminjar, gull og gersemar á borð við það sem gerist og gengur í hans heimalandi þar að finna. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að tilgangurinn væri að sýna líf fólksins í skóginum gegnum tíðina og held hann hafi verið sáttur í lokin. Mér finnst mikilvægara að safn sé lifandi en að það geymi eðalmálma. Þetta safn var samt frekar dautt - starfsfólkið ekki klætt í þjóðbúninga og enginn sýndi handbragð en það ku nú samt vera gert á tyllidögum, sagði mér önnur safngæslukvennanna þegar ég innti eftir því.

Sorbneskir þjóðbúningar minntu mig svolítið á rjómatertur

Ferðinni lauk svo með heimsókn í F-60 í Lichterfeld. Það er alveg gríðarstór stálbrú á færanlegum brautarteinum og með risafæriböndum til að nema burt jarðveg og komast niður á brúnkol sem þarna er að finna í ríkum mæli. Fimm F-60 brýr eru til í heiminum en þessi er ekki lengur í notkun vegna nýrrar umhverfisstefnu eftir sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands. Það tók tvö ár að byggja risann sem síðan var einungis tæp eitt og hálft ár í notkun. Athyglisverðast fannst mér að orkan sem fer í að drífa þetta tryllitæki áfram (að ekki sé minnst á orkuna við að byggja tækið) er margfalt meiri en orkan sem fæst út úr brúnkolunum sem náð er í! Svona er þetta víst líka með vindmyllurnar - þarf mun meiri orku við gerð þeirra en nokkru sinni mun fást frá þeim.

Hópurinn fyrir framan F-60 ferlíkið

Á föstudaginn var hlaupandi kvöldverður (Running Dinner) haldinn að nýju. Anika var á ferðalagi um helgina og ég bað því Violu um að elda með mér naglasúpuna hans pabba. Viola varð síðan veik svo kærastinn hennar hann Steffen hljóp í skarðið. Við suðum súpuna á fimmtudagskvöld og hófum svo hlaupin (við fórum reyndar á hjólum þar sem okkar stöðvar voru svo dreifðar um bæinn) á föstudeginum. Fengum salat hjá Bólivíu- og Brasilíubúum, buðum Tyrkjum upp á kjötsúpuna okkar og enduðum svo með rabbarbara-kínóaböku með ís í eftirrétt hjá Þjóðverjum þar sem ein stelpan talaði svo svakalega málmfjellsku (Erzgebirgisch) mállýsku að enginn skildi fyrr en í þriðju tilraun. Mjög skemmtilegt kvöld sem endaði í félagsherberginu rétt fyrir miðnætti.
Steffen hinn sérlegi aðstoðarkokkur naglasúpunnar

Dæmigert - ýmist er ég svona gráðug eða tala með fullan munninn...

Fyrsta stöð hjá Mucio frá Brasilíu og Karem frá Bólivíu

Þar hittum við Sebastian og Kerstin

Hrært í súpunni - þegar gestirnir komu gleymdist að taka fleiri myndir

Ulrike frá Málmfjöllum, Susann sænskunemandi minn og Steffen úti í garði hjá Franzisku og Söndru (þær náðust ekki á mynd)

Daginn eftir vaknaði ég eldsnemma til að fara með nokkrum strákum á mót saxneskra háskólaliða í badminton í Leipzig. Það lagði engin önnur stelpa í að fara á mótið þótt við værum bara að keppa í áhugamannaflokki. Ein kom meira að segja með þá skemmtilegu afsökun að hún hefði farið í endajaxlatöku og þyrfti að ná sér! Ég mætti þrátt fyrir mikið frjókvef og þetta var alveg þrususkemmtilegt en líka svakaerfitt. Eftir 4-5 tíma nánast án pásu hættu fæturnir mínir að hlýða þegar ég vildi hlaupa í boltann!

Þarna erum við til hægri þrjú af sex úr Freiberg-liðinu. Ég sit milli Yuriy og Florian.

Kláraði þó alla leikina mína og hvatti svo strákana áfram eftir það. Við vorum öll í svitabaði í hitanum en þetta gekk samt bara ágætlega og tveir strákanna komust meira að segja í undanúrslit í einliðaleik. Í gærkvöldi fékk ég svo mestu harðsperrur sem ég hef haft um ævina held ég bara - er eins og stirt gamalmenni eða spýtukallinn Gosi. Það er skondið í samanburði við að flestir hér giska á að ég sé ennþá í menntaskóla - var sumsé eins og 18 ára gamalmenni.

Gosi og engisprettan

Um næstu helgi ætla ég til Potsdam í heimsókn til Líneyjar Höllu. Félag erlendra nema fer í rútuferð þangað með leiðsögn (hversu heppilegt og sniðugt er það?) og Líney ætti að geta hoppað um borð í leiðsögnina. Síðan er planið að vera á 17. júní í Berlín. Hver veit nema við getum grillað með Íslendingafélaginu þar í borg í tilefni þjóðhátíðardagsins!

Hæhó og jibbíjeiogjibbíííjeij

Annars er auðvitað brjálað að gera í skólanum og ég hef í raun engan tíma til allra þessara ferðalaga, skil ekki alveg hvernig en hingað til hefur tekist að "búa hann til" ef svo má segja. Prófessorarnir geta ekki ákveðið prófdaga en þegar ég sá að flugverð er komið upp í 30 þúsund aðra leið hjá Iceland Express og 106 þúsund hjá Icelandair þá ákvað ég nú bara að taka málin í mínar hendur og pantaði flug heim 19. júlí - vona svo bara að prófin verði öll búin fyrir þann tíma!

Hver borgar 106.000 krónur fyrir far aðra leiðina frá Berlín til Keflavíkur??? Pant ekki ég!!!

Hér er jarðarberjatíminn kominn á fullt svo ég læt fylgja með uppskrift að bestu jarðarberjaköku sem ég hef smakkað. Uppskriftin er frá ömmu hans Matta og frekar einföld, allt eftir því hversu mikið maður vill gera sjálfur:


Bakið svampbotn í klemmuformi eða kaupið hann í búð og setjið í form með klemmu. Gerið kalda vanillusósu og hleypið hana með matarlími eða búið til vanillubúðing og hellið ca. 2 cm lagi af þessu á svampbotninn. Sökkvið ferskum jarðarberjum ofan í hlaupið/búðinginn og látið kólna (jarðarberin eiga sumsé að gægjast upp úr). Nú er útbúið hlaup úr matarlími eða tertuhlaupi (Tortenguss) með smá rauðum matarlit/rauðrófusafa og sykri og hellt yfir þannig að fljóti yfir jarðarberin. Látið kólna, skerið eða smellið úr forminu og verði ykkur að góðu.

Engin ummæli: