07 mars 2007

Jólabréfið - ársyfirlit 2006

Elsku vinir nær og fjær!

Með þessu áframhaldi kemur jólabréfið frá mér einhvern tíma í vor, kominn 13. janúar (og nú 7. mars þegar þetta loks er klárað!) og jólin liðin hjá svo ég get víst bara óskað ykkur gleðilegs nýs árs og þakkað fyrir það gamla! Ég hélt að það væri ekki hægt að koma fleiru fyrir en á árinu 2005 en allt virðist vera hægt og ég get alveg hafið þennan póst á sama hátt og í fyrra: Þá er enn eitt viðburðaríkt árið liðið...

Ferðaárið 2006 hófst með óvæntri heimsókn til Bretagne í Frakklandi þar sem m.a. var gægst í ævintýraskóga, til hafnarborgarinnar St. Malo og í þoku hulda fjallborgina Mt. St. Michel. Beint eftir heimkomu hófst síðasta stærðfræði- og þýskuönnin við Háskóla Íslands en ég var ekki lengi á íslenskri grund því að í febrúar lá leið mín, Ölmu og Jónasar úr Nordklúbbnum til þess hluta Lapplands sem er nyrst í Finnlandi. Það var sannkölluð vetraríþróttaparadís og reyndum við okkur í hinum ýmsu þrautum: tandem-skíðagöngu, appelsínu-snjógolfi, og sleðagerð svo eitthvað sé nefnt. Á heimleiðinni gisti ég hjá Láru Rún en hún var þá nýbakaður Erasmusnemi í Uppsölum.


Nordklúbburinn var virkur að venju - við fórum á skauta, héldum kvikmyndakvöld, kynntum Norðurlöndin á þjóðahátíð og fleira. Í háskólanum varði ég heilmiklum tíma í gerð fyrirlesturs um heiltöluskiptingar með Gumma Hreiðars en námskeið um deildajöfnur og grannfræði tóku líka á. Sífellt fækkaði til dæmis í deildajöfnukúrsinum og var svo komið einn morguninn að ég mætti ein í fyrirlestur! Með Andreas sem helsta baráttufélaga í deildajöfnum tókst þetta nú samt allt á endanum.

Í mars var blásið til blokkflautuhátíðar í Hafnarfirði með samleik, vinnusmiðjum og fyrirlestrum. Í lokin léku allir saman "Á persneskum markaði" og hef ég aldrei heyrt í fleiri blokkflautum á einum tónleikum! Annars sat blokkflautunámið kannski svolítið á hakanum þetta síðasta misseri í Tónskólanum, ég tók í það minnsta ekki þátt í mörgum samleiksverkefnum en var samt dugleg í hljómfræðinni.

Við Ómar tókum að okkur kennslu í stuðningstímum fyrir nema í tölulegri greiningu. Að þessu sinni snerist vinnan um að aðstoða við forritun í Matlab og fara yfir himinháa bunka af skilaverkefnum. Ég verð að segja að mér þykir alveg rosalega gaman að kenna og er að velta því fyrir mér að taka kennslufræði í stærðfræði þegar diplómuprófinu líkur. Gæti jafnvel kennt þýsku líka!

Rétt fyrir páska barst mér bréf þess leiðis að ég hlyti styrk til náms við tækniháskólann TUBAF í Freiberg í austurhluta Þýskalands. Því fylgdi mikil pappírsvinna að þýskum sið, leit að húsnæði og fleira þess háttar.


Um páskana flaug ég til München og gægðist m.a. upp í kirkjuturna, fór á flóamarkað við Ólympíuleikvanginn og synti í rómverskri sundhöll milli þess að lesa fyrir próf. Prófatörnin var ansiþétt og snörp en allt gekk þetta upp á endanum og ríkti mikil gleði og gaman þegar prófin voru að baki eins og nærri getur! Stuttu eftir próflok flugum við þriðja árs stærð- og eðlisfræðinemar til Barcelona og settumst þar að á stúdentagörðum. Af þeim óteljandi mörgu söfnum og merku stöðum sem heimsóttir voru ber helst að nefna sædýrasafnið, hafnarkláfinn upp á Montjuïk, dýragarðinn, vísindasafnið, Míró-safnið, hjóltúr milli helstu bygginga Gaudís, gosbrunnana í hlíðum Montjuïk, Gaudí-garðinn Park Güell og Dalí-sýningu sem staðsett var tímabundið í Barcelona. Mikið "menningarfyllerí" eins og lesa má.


Þegar heim var komið tók við vinna á Vatnamælingum við skýrslu- og líkangerð. Þetta sumarið fór ég í þrjár stuttar ferðir - eina til að fljóta niður Ölfusá í flotgalla, bjarga mér og öðrum með kastlínu; aðra til að sækja Berg úr Jökulheimum svo hann kæmist í eigið brúðkaup og þá þriðju austur á land með Agli. Þar reyndi ég m.a. að veiða Lagarfljótsorminn án árangurs en við fengum gott hitasnið í staðinn svo veiðiferðin borgaði sig vel. Um mitt sumarið var ég beðin um að hjálpa svolítið með útreikninga á vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Skömmu síðar voru svo þeir sem sáu um verkefnið farnir ýmist á ráðstefnur, í endurmenntun, frí eða leyfi hér og hvar um heiminn, skilafrestur verkefnisins nálgaðist óðfluga og ég hellti mér út í hið mesta sumarvinnubrjálæði sem um getur. Síðasta mánuðinn bjó ég nánast í vinnunni enda var ég svo uppgefin þegar búið var að skila skýrslunni að ég lagðist með flensu í bólið. Hélt þó geðheilsunni og það ekki síst fyrir tilstilli góðra vina sem drógu mig í grillveislur, gáfu mér nesti og héldu vídeó- og spilakvöld hvenær sem tækifæri gafst!

Snæbjörn og Elín Lóa héldu í ævintýraferð til Suður-Ameríku fyrripart árs og því varð blokkflautukvintettinn (eins og haustið 2005) kvartett en sameinuð hittumst við um sumarið til að heyra ferðasöguna og bera á flautur. Ég fann tónlistarskóla í Freiberg en fékk aldrei svar við umsókn um blokkflautunám - kannski sem betur fer, því það er meir en nóg annað að gera! Þó lítur út fyrir að við munum spila nokkur saman einhver samleiksverk á næstu önn, krakkar úr stærðfræðinni.

Í lok júní var haldin útskrift við Háskóla Íslands og ég skundaði í Laugardalshöllina með mömmu, íklædd upphlutnum sem hún saumaði handa okkur Líneyju Höllu skömmu áður en ég útskrifaðist frá MR. Skrítin tilfinning að svo langt væri liðið síðan Menntaskólinn var kvaddur! Líney Halla var í Potsdam við mælingar og pabbi á ráðstefnu svo að athöfninni lokinni héldum við mamma í gönguferð til afa og ömmu í Sigtúni í blíðviðrinu. Síðan mætti ég alltof snemma í partý til Billa og Hlínar og fór þaðan alltof seint (miðað við auglýstan komu og brottfarartíma) því það var svo gaman.


Þótt mikið væri að gera í vinnunni reyndi ég að hjálpa svolítið til við frístundastarf fyrir krakka frá Norðurlöndum sem koma í sumarvinnu á Íslandi gegnum Nordjobb. Fór með þeim til Hveragerðis í helgarútilegu og spreytti mig við íslenskukennslu með leik og söng. Lára Rún kom til Íslands í ágúst, svolítið ringluð í íslenskunni eftir Svíþjóðardvölina. Ég dró hana með á sænskt Nordjobb-kvöld og hún fór svo í river-rafting ferð með Nordjobbkrökkunum. Íslenskan var svo auðvitað fljót að koma aftur. Líney Halla kom loks frá Potsdam og þá fórum við með henni, Sigga, pabba, mömmu og afa og ömmu í Sigtúni inn í Borgarfjörð til að ganga inn dali og upp með ám í brakandi blíðu. Lára hélt svo norður til fundar við afa og ömmu en við Líney og Siggi suður til sumarvinnunnar.

Ágúst og september liðu ógnarhratt. Yoann kom í heimsókn og við fórum í stutta ferð vestur á Snæfellsnes og um Vesturland áður en leið mín lá til Helsinki á höfuðborgarmót Norrænu félaganna. Þar lækkuðum við Alma meðalaldurinn um ein 20 ár eða svo með setu okkar á fyrirlestrum um lýðræði á Norðurlöndum. Í frítímanum gátum við skoðað okkur um í Helsinki, skroppið með Silju Nordjobbara í dagsferð til Tallin í Eistlandi og einnig fórum við með mótsgestunum til Suomenlinna (Sveaborg), í hringferð um Helsinki og til Porvoo (Borgå) til að heilsa upp á heimaslóðir Runebergs, þjóðskálds Finna.

Ekki var dvölin á Íslandi löng eftir heimkomuna frá Helsinki því degi síðar héldum við til Oslóar í Noregi með Nordklúbburum. Þangað stefndum til móts við okkur ungliðum í norrænu samstarfi frá Danmörku, Svíðþjóð og Finnlandi með það að markmiði að stofna systurklúbb Nordklúbbsins í Noregi. Við kynntum norrænar stuttmyndir og héldum vinnusmiðjur með norrænni tónlist, dansi, matargerð, hefðum og siðum. Varð úr hin skemmtilegasta helgi og ekki síður árangursrík því okkur tókst að finna lítinn og góðan kjarna af áhugasömum Norðmönnum til að mynda grunn að Nordklúbbi.


Eftir allt þetta flakk var kominn tími til að slaka svolítið á svo ég flaug norður yfir heiðar í faðm Hlyns, Kristínar, Huga, Lóu og Unu í Ásabyggð. Haustveðrið var upp á sitt besta svo við Hlynur, Kristín og Una skruppum með Skógræktarfélaginu inn í Garðárdalsreit til að skoða haustlitina og fræðast um skóginn þar og ekki voru litirnir síðri inni í Leyningshólum þegar við afi og amma fórum þangað og litum eftir berjum. Auðvitað var líka farið í gönguferð í Kjarnaskóg og svo bættust Óli og Karin í hópinn og haldið var stórt fjölskyldumatarboð heima hjá Halli, Andreu, Fönn og Dögun á Ásveginum áður en leiðin lá aftur suður.


Fyrir sunnan tók nú við lokaundirbúningur fyrir ferðina til Þýskalands. Það er ekki svo auðvelt að halda sig við 20 kg farangur við svona flutninga! Kvöldið sem öll ljós voru slökkt í Reykjavík (góð hugmynd en mislukkaðist samt vegna lítillar þátttöku fyrirtækja) hélt ég kveðjupartý og flaug svo út til Berlínar daginn eftir. Gafst þar svolítill tími til að synda í skógarvatni, trítla um miðbæinn og heilsa upp á Monsieur Vuong með Yoanni áður en lestin fór til Freiberg.

Upp hófst nú mánuður mikils skrifræðis en þó líka fullur af nýju fólki, stöðum, siðum og venjum til að kynnast. Fjarsambandi við Yoann lauk, ég hellti mér í starf félags erlendra nema, smíðaði námsáætlun og reyndi eftir fremsta megni að skilja mállýskur kennaranna fyrstu vikurnar. Nú er það ekki lengur vandamál (skil alla vega ekki mikið minna en þýsku krakkarnir) en ég vona samt að íslenskan verði ekki þýskuskotin þrátt fyrir langdvalir að heiman!

Þessa síðustu önn sótti ég líklega aðeins of mörg námskeið, svona eftir á að hyggja. Ekki gafst því mikill tími til annars en náms og að kynnast fólkinu í Freiberg en ég komst þó með í dagsferð erlendra nema til Nürnberg á aðventunni og heimsótti Dresden tvisvar sinnum. Um jólin lá leiðin til Hauks, Angeliku, Láru og Ingu í Bielefeld. Þar komum við stelpurnar hver úr sinni áttinni - Inga frá París, Lára frá Uppsölum og ég austan frá Freiberg. Gaman að hittast aftur og allar höfðum við auðvitað frá mörgu að segja!

Þessi annáll er að venju orðinn nokkru lengri en lagt var upp með og þó finnst mér svo ósköpin öll margt vanta. Held ég slái samt botninn í bréfið hér og vonandi tekst nú að senda þetta nær áramótunum á næsta ári! Ég sendi ykkur mínar bestu óskir um gæfu og gleði á þessu nýja ári 2007.

Ykkar,
Bjarnheiður

Engin ummæli: