16 mars 2007

Sirkúsdagar

Sirkúshljómsveitin er að æfa sig handan við götuna og ég held engri einbeitingu við próflesturinn. Af þessu tilefni ætla ég að skrifa svolítið um síðustu daga en þó verður myndunum sleppt að þessu sinni enda verður allt myndavafstur oftast nær mun tímafrekara en ætlunin var í upphafi.

Eftir tvær afslöppunarvikur á Íslandi er ég nú komin aftur til Freiberg og þarf að vera dugleg við lesturinn til að vinna upp leti síðustu daga. Tjah, kannski ætti það nú ekki með réttu að heita leti - þegar ég kom heim þá einhvern veginn datt öll framkvæmdagleði niður og mér fannst best að setjast niður með góða bók, gera konfekt eftir skyndihugdettum eða spjalla við fjölskylduna. Mér finnst líklegast að ég hafi bara þurft á svolitlu fríi að halda. Próf í stærð- og tölvunarfræði taka hreinlega mun meira á þegar læra þarf nýjan orðaforða í fléttu við fræðin sjálf.

Ekki má nú samt skilja það svo að ég hafi setið í stofunni allan tímann og lesið bækur. Því er af og frá. Fór meðal annars á flóa-, bóka- og diskamarkaði, í bíó, útskriftarteiti, köku- og matarboð, á tónleika, söfn og kóræfingu, rölti um miðbæinn og Laugardalinn, synti þessi reiðinnar ósköp og skellti mér loks á árshátíð sagnfræðinema í stað fyrirhugaðs innflutningspartýs! Sérstaklega voru síðustu dagarnir pakkaðir en er það ekki alltaf þannig?

Það var sannast sagna nokkuð áfall að koma til Íslands eftir svona langan tíma. Ég hafði búið mér til ægifagra mynd af landinu í huganum en við mér tók drulluskítug borg sveipuð svifryksskýi svo erfitt var að anda við hjólreiðarnar! Eftir rigningu og snjó með köflum varð lífið aðeins skárra og ég sá það fljótt að lítið yrði úr fyrirætlunum mínum um próflestur á landi Ísa.

Skemmtilegast var að hitta aftur fjölskylduna mína, félaga úr skólanum og vini. Ætli ég hafi ekki farið svona fimm sinnum í Sigtúnið til að mynda (hér eiga tvær merkingar við um "til að mynda"). Í söfnunum sá ég franska meistara, blaðaljósmyndir (var nú ekki alveg sammála dómurunum þar) og verk Sigurjóns Ólafssonar í augum barna. Þetta síðastnefnda var ansi athyglisvert.

Börnin fengu það verkefni að senda inn ljóð eða stuttan texta sem rökstuðning á vali sínu á einu verki sem þau vildu sjá á sýningu. Auðvitað tókst ekki að verða við öllum tillögunum en þó voru þarna margir klassíkerar og nokkur verk sem ég get mér til að sjaldan hafi verið dregin fram úr geymslunum. Mér fannst skemmtilegast að lesa um Martein sem sá fyrir sér letidýr í tréhnúti en annars vakti athygli mína hve margir textar í bæklingnum með textum barnanna. voru nógu væmnir til að ég fékk kjánahroll. Hvort segir það meira um mig, myndlistarkennarana eða börnin?

Myndirnar sem ég sá í bíó voru eins og svart og hvítt. Paris je t'aime er að mestu í lit og mér fannst eiginlega bara einn kafli kjánalegur en hinir skemmtilegir, hjartavermandi og/eða góðir. Síðan fór ég á síðstu sýningu á Foreldrum. Sú er svart-hvít og sýnir skuggahliðar rétt eins og Börn (sá hana einmitt rétt fyrir brottför í haust), gefur þeirri fyrri ekkert eftir í gæðakvikmyndagerð. En úffpúff, ekki leið mér vel eftir á.

Tónleikarnir voru í Salnum í Kópavogi. Elfa fór á kostum í fiðlukúnstum fjölbreytilegra verka. Líklega þekkti ég samt verkin ekki nógu vel því bara aukalagið gaf svona vá-hvað-þetta-er-fallegt-hroll niður bakið. Eða hvað segið þið? Þarf maður að þekkja verkin til að fá svoleiðis?

Á leið minni til Berlínar kom ég við í Kaupmannahöfn hjá henni Ölmu. Það voru dýrðardagar. Við byrjuðum að geyspa strax og við hittumst og met í fjölda lúra frá því í Helsinki var nánast slegið! Mikið var Nørrebro falleg í vorsólinni. Jafnvel þótt hún hafi nú aðeins látið á sjá í óeirðunum. Fyrsta daginn (laugardaginn) fékk ég smá skammt af þyrlu, óeirðalögreglu, mótmælatónleikum og því um líku en síðan fóru mótmælendurnir í frí fram á þriðjudag.

Einhvern veginn tókst mér að flytja poka af frosnum humri til Ölmu og var hann etinn ásamt sérlegum möndlukjúklingsrétti Ölmu í matarboði á laugardagskvöldið. Einnig var þar reynt að ala tvo Dani upp í nýstárlegri íslenskri tónlist og hákarsláti (með litlum árangri) og skrúfuð saman Ikea-hirsla án skrúfjárna með frjálsri aðferð við tóna klaufabárðanna. Partýinu lauk þegar við Alma sofnuðum nánast áður en gestirnir fóru(!)

Sunnudagurinn heilsaði með sól, fuglasöng og flóamarkaði í Ravnsborggade. Eftir vænar torgpylsur (mættu svosem kallast bjúgu svo stórar voru þær) héldum við til móts við 87 ára vinkonu okkar sem við kynntumst í Helsinki í haust. Hún leiddi okkur gegnum miðbæinn á sýningu sem Alma hafði séð auglýsta á verkum Ólafs Elíassonar og Kjarvals - mjög flott sýning það - og loks í hverfið sitt til að sjá kirkjuna sína, gamla vinnustaðinn, heimilið, safn með nútímaíkonum tsjetnesks alþýðulistamanns og bjóða í saft og rúsínumúffur. Hún vildi helst halda ferðinni áfram til Dragør og kokka nokkrar kótelettur í matinn en þá var allur vindur úr okkur Ölmu og við héldum heim á leið til að taka smá blund! Svona er það víst þegar maður sér margt nýtt á einum degi.

Á mánudag lá leið mín til Berlínar með flugfélaginu ekkert mál og er ástæða til að mæla með þeim - lágt verð og svakafín þjónusta með breskum húmor. Í Berlín var ætlunin að taka lest til Dresden en Matti var þá óvænt mættur á flugvöllinn svo ferðin til Garsebach styttist um tvo, þrjá tíma. Ekki slæmt það! Daginn eftir héldum við svo í skoðunarferð um Dresden og á tónleika með Benna Hemm Hemm.

Eiginlega hafði ég vonast til að finna einhverja Íslendinga sem væru við nám í Dresden eða nágrenni en líklega var bara enginn (fyrir utan hljómsveitarmeðlimi) íslenskur á tónleikunum. Það var samt hin besta stemmning og í lokin öskraði ég "meira, meira!" af miklu kappi og uppskar loks þrjú aukalög eftir að hafa klykkt út með "úr að ofan!". Einhvern veginn fannst mér þá upphrópun nefnilega vanta (hún var á hinum tvennum tónleikunum með BHH sem ég hef farið á, mætti segja mér að það sé einhver einkahúmor í vinum hljómsveitarinnar).

Á miðvikudaginn hélt ferðamennskan áfram með heimsókn í Albrechtsburg í Meißen. Alveg magnaður kastali það! Stundum held ég að ég ætti fremur að leggja stund á nám í hönnun, myndlist, bókmenntum og tónlist en stærðfræði. Heillaðist t.d. alveg af fjölbreytilegum hurðum og gólfflísamynstri í kastalanum og kláraði minniskortið með myndum (þær koma seinna á vefinn... tjah, nema ég gefi út myndabókina "Hurðir Albrechtskastala"). Heima á Íslandi hesthúsaði ég Tryggðapanti Auðar Jónsdóttur, Sendiherra Braga Ólafssonar og ljóðabók Ingunnar Snædal með mikilli ánægju auk tveggja þýðinga - Herra Ibrahim og blóm kóransins eftir Eric-Emmanuel Schmitt og Fimm manneskjur sem maður hittir á himnum eftir Mitch Albom. Mæli með þeim öllum. Já og svo fjárfesti ég í bunka af geisladiskum, m.a. diski með Ólöfu Arnalds sem ég hafði vonað að kæmi út síðan síðasta sumar, Ampop, Lovísudiski, Skúla Sverrissyni, Kajak með Benna og fleiri góðum.

Jammogjá en svo mundi ég eftir því hvað það fór alltaf í taugarnar á mér þegar kennararnir þröngvuðu upp á okkur sínum skoðunum á bókum sem fjallað var um í grunn- og menntaskóla, hvað ég átti oft erfitt með að tjá mig um myndlistarverk og hvernig ég fæ yfirleitt aldrei hönnunarhugmynd eftir pöntun. Stærðfræði er hreint ekki svo vitlaus, já og ég get lært allt hitt þegar diplómuprófinu lýkur!

Hljómsveitin er enn að spila. Það er því vísast sýning sirkússins Aeros frá Berlín í fullum gangi hér á túninu. En bækurnar bíða og færslan er orðin löng, hlýt að ná að lesa smá við þessa leikandi tóna...

Engin ummæli: