02 febrúar 2007

Stutt stopp

Hvort ef ég reynist ekki bara hafa hitt naglann á höfuðið í vangaveltum síðasta pistils - snjórinn hefur áhuga á handbolta! Hann er alla vega á förum og verður pottþétt á bak og burt á mánudaginn þegar HM í handbolta lýkur.


Í gær var síðasti fyrirlesturinn og fyrsta munnlega prófið mitt er á mánudaginn. Hressandi. Býst við frekar strangri törn og hlakka mikið til að komast í stutt stopp til Íslands í lok febrúar. Búin að komast að því að ég er háð Íslandi og "þarf minn skammt" af landi, vinum og fjölskyldu! Verð reyndar að læra fyrir fleiri próf því í mars byrja prófin að nýju en það er samt allt annað líf í próflestri að búa við hliðina á Laugardalslaug, borða matinn hans pabba, fá hjálp hjá litlu systur og vera send í lestrarpásu af mömmu!Þessa dagana eru prófessorarnir á fullu við að upphugsa samæfingaverkefni, möguleg undirbúningsverkefni fyrir diplómuritgerðir og stór Matlab/Maple/Mathematika-skilaverkefni sem öll eiga að troðast á næstu önn ásamt fyrirlestrunum. Telst mér til að ég eigi að halda eina þrjá fyrirlestra hið minnsta og forrita öll reiðinnar ósköp. Hananú!


Á myndunum sést David, félagi minn í Javakúrsi, púsla saman kveðjugjöfinni sinni og hluti af hópnum reyna að hjálpa honum að skilja maórska textann sem við mynduðum og Sandra ein vissi hvað þýddi (hún er með pakkann þarna efst). David er nefnilega að fara til Nýja-Sjálands sem skiptinemi fram að næstu jólum. Við skelltum okkur stundarkorn á skíði/bretti morguninn fyrir kveðjuhófið um síðustu helgi og komi ekki meiri snjór, þá var það eina skíðahelgin hér í næsta nágrenni. Eftir partýið var líka farið í snjóslag því ekki leit út fyrir að plön mín um snjókallagerð, snjóslag og snjóhús eftir próf myndu rætast.

Engin ummæli: