03 febrúar 2007

Helvítis þröngsýni og neikvæðni alltaf hreint!

Ussususs, hvað er að gerast? Farin að blóta? Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn að þegar ég var lítil skotta á Akureyri skammaði ég afa einhvern tíma fyrir að blóta (því mér hafði verið kennt í KFUK eða skólanum að það mætti ekki) og hann útskýrði fyrir mér á sinn rólega hátt að það væri allt í lagi að nota gífuryrði ef maður gerði það sparlega og þá einungis til áhersluauka þegar manni þætti virkileg ástæða vera til. Hef haft þetta eins og ýmislegt annað sem afi segir bak við eyrað síðan.

Reyndar er kannski fullsterkt til orða tekið hérna í fyrirsögninni að segja "alltaf hreint" en ástæðan er sumsé sú að hér í Þýskalandi hef ég rekist óvenjuoft á neikvætt viðhorf og þröngsýni og virðist það lítil tengsl hafa við menntun viðkomandi - öfugt við það sem oft er sagt að menntun auki víðsýni - eitthvað hlýtur þá að vanta í háskólanámið eða hvað?

Síðasta mánudag var mælirinn sérlega fullur. Satt best að segja sauð svo á mér af bræði að ég beygði næstum af. Enn eitt dæmið um að ég eigi ekki að gerast pólitíkus, tek málin inn á mig og þótt ég hafi fullt af góðum röksemdum í kollinum fyllast augun af tárum, sérstaklega þegar mér finnst ég (eða aðrir mér viðkomandi) órétti beitt.

Nú, hvað olli svo þessari hugaræsingu? Það voru umræður í kjölfar árásar á tvo doktorsnema hér í bæ skömmu fyrir jól. Forsagan er sú að hér í austrinu er mikið atvinnuleysi. Fólk var oft lítið eða mjög sérhæft menntað, fékk eftir sameiningu Þýskalands hugsanlega einhver láglaunastörf og lét sig hafa það þótt kjörin væru ósanngjörn því að í hverjum mánuði fengu einhverjir að fjúka og eilíflega hékk í loftinu hótun um að missa vinnuna.

Staðan er meira að segja svona enn í dag. Það hef ég heyrt frá félögum mínum sem eiga foreldra í láglaunastöðum og miðað við svör sem ég fékk virðast verkalýðsfélög hér heldur lítið hafa að segja gegn ofurvaldi fyrirtækjanna.

Þegar evrópski vinnumarkaðurinn opnaðist sáu fyrirtækin sér leik á borði að ráða erlent starfsfólk sem sætti sig við ennþá verri kjör. Margir sem misstu vinnuna urðu pirraðir út í þessa útlendinga og öfgahægrisinnum fjölgaði. Flokkar öfgahægrisinna fá að minnsta kosti mun meira fylgi hér en í gamla Vestur-Þýskalandi. Kann að vera að ég einfaldi þetta svolítið - sagan er flókin og áhugasamir geta fundið ógrynni af efni um þetta á netinu.

Hér í Freiberg er hverfi sem nefnist Friedeburg og skyldi maður halda af nafninu að dæma að þar lifðu allir í sátt og samlyndi. En nú er því svo komið að þar er samansafn illa viðhaldinna sovétkumbaldablokka, þ.e. ódýrt leiguhúsnæði, og því atvinnulausir - þeirra á meðal nýnasistar og aðrir öfgahægrisinnar - í frekar háu hlutfalli. Þegar rífa varð þann stúdentagarðanna sem býður hvað ódýrast leiguhúsnæði fóru síðan háskólanemar frá fátækari ríkjum einnig að leita þangað eftir þaki yfir höfuðið.

Vandræðin eru síðan þau að erlendu nemunum finnst þeim æ meira ógnað, og það raunar ekki bara í Friedeburg. Fyrir jól var ráðist á doktorsnema frá Pakistan og mig minnir að hinn hafi verið frá Kambódíu. Þetta var á horni við stóra matvöruverslun og margt fólk gekk fram hjá en enginn gerði neitt. Ég skil svo sem að enginn þori að skakka leikinn - en af hverju hringdi enginn í lögregluna? Fórnarlömbunum tókst við illan leik að komast á sjúkrahús og var annar svo illa farinn að hann var lagður inn.

Í heimalöndum mannanna er lögreglan ekki beint "besti vinur barnanna" og þar sem þeir höfðu ekki verið upplýstir um annað þorðu þeir ekki fyrir sitt litla líf að leita þangað heldur hringdu nokkru seinna í DAAD (Deutscher Akademischer Austauschdienst, þýska "utanríkismenntamálastofnunin" sem styrkir þá, mig og marga aðra til náms). Auðvitað varð svo uppi fótur og fit á Alþjóðaskrifstofu háskólans hér þegar DAAD hringdi til að grennslast fyrir um málið og enginn vissi neitt.

Strax var hafist handa - veitt áfallahjálp, haft samband við rannsóknarlögregluna, komið á fundum með túlki og farið yfir stöðuna með umsjónarmanni utanríkismála og fleiri stórlöxum í stjórn háskólans. Það er nefnilega svo að tilkynna þarf árás til rannsóknarlögreglu viðkomandi svæðis, gefa upp heimilisfang og símanúmer og mæta svo á fund sem rannsóknarlögreglan boðar með fórnarlambinu og túlki sem hefur tungumál viðkomandi að móðurmáli. Sé þetta ekki gert er auðvelt fyrir verjendur ákærðra að láta alla síðari framvindu málsins (komist það svo langt á annað borð) niður falla.

Nújæja. Komið var á fundum í hinum ýmsu ráðum og í því sambandi m.a. haft samband við AKAS (Arbeitskreis Ausländischer Studierende), félags sem ég hef starfað með síðan ég kom hingað út, og stúdentaráð til samráðsfundar. Þessi fundur var svo á mánudaginn. Fyrst þegar ég heyrði af fyrirhuguðum fundi fannst mér málið lykta af "við ætlum að segjast vera að gera eitthvað og þá róast allir"-pólitík en tölvupóstur sem utanríkismála-umsjónarmaðurinn sendi öllum nemum, kennurum og öðru starfsfólki róaði mig, hljómaði alla vega eins og maður með viti hefði skrifað hann.

Ég var því bjartsýn á að þetta yrði góður fundur. Við höfðum haldið undirbúningsfund, "breinstormað" svolítið og vorum frekar mörg mætt - bæði erlendir nemar og Þjóðverjar (þau eru flest mentorar, aðstoðarmenn erlendra nema) frá AKAS, en auk okkar mættu stjórnarmeðlimir stúdentaráðsins, fréttafulltrúi háskólans, yfirstjórnarmaður menntamála, starfsmenn alþjóðaskrifstofunnar og umsjónarmaðurinn fyrrnefndi sem til fundarins boðaði.

Í upphafi kynntu umsjónarmaðurinn og menntamálastjórinn hver markmið fundarins væru - hugmyndir til úrbóta varðandi öryggi erlendra nema - og gáfu svo orðið laust. Eftir það lá leiðin bara niður á við og smátt og smátt rann upp fyrir okkur að fögur markmið voru hjómið eitt. Hver einasta tillaga okkar fékk neikvæð viðbrögð, var svarað með skætingi og jafnvel aulabröndurum og það versta var að þeir virtust ekki gera sér neina grein fyrir eigin dónaskap gagnvart fundarmönnum - en hann beindist sérstaklega okkur sem ekki erum frá Þýskalandi.

Hugmyndir okkar skiptust í meginatriðum í þrjá flokka. Einn beindist að því að upplýsa erlenda nema, annar að því að upplýsa háskólafólk og aðra bæjarbúa og sá þriðji almennt að því hvernig koma mætti í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Forstýra AKAS stjórnaði umræðunum og þeir sem voru virkir í þeim voru annars vegar formaður stúdentaráðs, forstýra alþjóðaskrifstofunnar, fréttafulltrúinn, tveir þýskir strákar og ein stelpa, strákar frá Írak, Kasakstan, Georgíu og Póllandi (einn frá hverju landi), ég og stelpa frá Póllandi og hins vegar háttsettu prófessorarnir tveir. Þetta "annars vegar og hins vegar" kemur til af því hvernig pólar mynduðust þegar á leið.

Hér fylgja þrjú dæmi um hugmyndir og viðbrögð við þeim:

1. Upplýsa erlenda nema um að lögreglan starfi ekki gegn þeim heldur með þeim og sé réttur aðili til að leita til hvort sem um árás á formi orða eða athafna er að ræða. Gefa "nafnspjald" með mikilvægum símanúmerum (lögreglan, alþjóðaskrifstofan) og hvetja til að þau verði vistuð í farsímum. Vara við þeim svæðum sem reynslan sýnir að séu varhugaverð (Friedeburg og Bahnhof Vorstadt) - benda fólki á að ferðast frekar í hópum, forðast óupplýst svæði og sýna almenna aðgát.

Viðbrögð
Yfirstjórnarmaðurinn: "Ég hef nú búið í Friedeburg í 20 ár og aldrei óttast um líf mitt eða annarra. Hef satt best að segja aldrei orðið var við nokkuð af þessu tagi."

Strákarnir frá Írak og Kasakstan koma með fjórar reynslusögur félaga sinna og annarra sem hafi leitað til AKAS eftir að fréttist af árásunum, m.a. saga af Bangladesh-búa sem tókst með naumindum að flýja undan árás í nóvember.

Umsjónarmaðurinn: "Það er nú ekki bara ráðist á útlendinga heldur er annað þekkt vandamál áreiti á kvenfólk. Ég hef það sem reglu að sama hversu lengi dóttir mín er úti að skemmta sér þá fer hún aldrei ein heim heldur hringir í mig og ég sæki hana, jafnvel þótt klukkan sé þrjú um nótt. Það mætti alveg hugsa sér að fólk hópaði sig saman á sama hátt, sérstaklega að kvöld- og næturlagi."

Bent á að erlendir nemar, sérstaklega doktorsnemar, vinni oft langan vinnudag (jafnvel fram á nætur) og eigi við rannsóknir sínar oft erfitt með að segja fyrir um hvenær hver áfangi klárist auk þess að þeir sem ekki búi á stúdentagörðunum búi það strjált að erfitt sé að koma á hópum í öllum tilfellum.

Konunni á Alþjóðaskrifstofunni finnst hugmyndin um nafnspjöldin góð.

Umsjónarmaðurinn: "Maður tekur nú ekki á móti gestum með því að segja >Velkomin til Freiberg, þið þurfið að vara ykkur á...< en það má samt athuga hvort ekki megi bæta þessu einhvers staðar inn"


2. Setjum upp kynningarstand alþjóðanema við matvöruverslunina einhverja helgina, bjóðum upp á mat frá okkar heimalöndum og segjum frá tilgangi veru okkar hér. Við reynum jú að stuðla að því að framfarir verði á ýmsum sviðum tækni og vísinda, gerum jafnvel uppgötvanir sem leggja grunn að stofnun sprotafyrirtækja og þar með fylgir atvinna. Stofnum dálk í bæjarblaðinu þar sem kynntir eru erlendir prófessorar, doktorsnemar og almennir stúdentar.

Viðbrögð:
Umsjónarmaðurinn: "Mér hefur alltaf þótt það alveg fáránleg hugmynd að lokka fólk með mat að svona upplýsingastöndum!"

Yfirstjórnarmaðurinn: "Er ekki frekar ólíklegt að fólk sem situr í rólegheitum yfir morgunverðinum og les dagblaðið hafi áhuga á að lesa um útlendinga?"

Umsjónarmaðurinn: "Þann 7. júlí er CampusNacht (háskólasvæðis-nóttin) haldin hér við háskólann og þá koma bæjarbúar til að kynna sér allt sem háskólinn hefur upp á að bjóða. Ég var einmitt með hugmynd um að setja upp bás þar til kynningar."

Settar fram efasemdir um að einn aðalmarkhópurinn; öfgahægrisinnar, nýnasistar, rasistar og aðrir óákveðnir, mæti á CampusNacht. Þeir sem hafa starfað á CampusNacht áður benda á að í meirihluta gesta á Campusnacht séu frekar áhugasamir menntaskólanemar og fjölskyldur og kunningjar þeirra sem standa að kynningunni. Þetta sé ekki hópur líklegur til árása á útlendinga. En vissulega megi benda þeim t.d. á rétt viðbrögð þegar gengið er fram á árás (líka ef fórnarlambið er Þjóðverji).

Umsjónarmaðurinn ítrekar hugmynd sína um kynningarbás á CampusNacht minnst fimm sinnum til viðbótar í umræðunum sem eftir fylgja. Tekur dæmi um "Fjölskyldu X sem mætir á CampusNacht: pabbi, mamma, börn og segjum ein amma. Amman er kannski í hópi óákveðinna. Nú fær hún upplýsingar um starf erlendra nema og prófessora, fer einhverja helgina á eftir í kaffiboð með vinkonum sínum og þar lætur einhver hinna gestanna rasísk orð falla. Þá getur hún mótmælt og þannig breytt út boðskapinn um að það sé jákvætt fyrir alla - bæjarbúa jafnt sem háskólann - að bjóða erlenda nema velkomna."


3. Settar verði upp eftirlitsmyndavélar þar sem ástæða þyki til.

Viðbrögð:
Umsjónarmaðurinn: "Það er nú óvíst að peningar fáist til þess."

Pólsku krakkarnir segja frá átaki sem gert var í Póllandi og samstarfi borganna við fyrirtæki um uppsetningu eftirlitsmyndavéla. Kostnaði var deilt enda juku myndavélarnar ekki einungis öryggi bæjarbúa heldur vöktuðu líka verslanir og fyrirtæki í leiðinni.

Umsjónarmaðurinn: "Þessar myndavélar verða hvort eð er bara skemmdar strax á nóinu."

Sagt frá fleiri löndum þar sem öryggismyndavélar gáfu góða raun og þrátt fyrir mikla skemmdarverkatíðni t.d. á strætóskýlum, ruslafötum og þess háttar hefðu öryggismyndavélarnar ekki orðið fyrir miklu eða tíðu hnjaski. Jafnvel skilti sem gæfu til kynna tilvist öryggismyndavélar ykju öryggi.

Umsjónarmaðurinn: "Hér í Þýskalandi er stöðugt uppi umræða um frelsi einstaklingsins og réttarríkið - fólk er almennt mjög á móti eftirlitsmyndavélum, þær eru mér vitandi einungis uppi á járnbrautarstöðvum og við fjármálastofnanir. Það þarf einungis einn maður í nágrenninu að mótmæla því að myndavél sé uppi og þá verður hún ekki leyfð."

Yfirstjórnarmaðurinn: "Ég hef engan áhuga á því að einhvers staðar sé til myndband sem sýni hvenær ég geng yfir götuna til að fara út í búð!"

Strákurinn frá Georgíu er sammála því að fara þurfi varlega og ekki megi ríkið snúast upp í andhverfu sína - starfa gegn okkur í stað þess að starfa með okkur. Þrátt fyrir strangar reglur sé auðvitað möguleiki fyrir hendi um að upplýsingarnar verði misnotaðar. Hins vegar þurfi að vega þessa hugmynd og meta með lögreglunni.

Umsjónarmaðurinn skrifar hugmyndina niður eftir nokkurt þóf - hann á fund með lögreglunni í næstu viku.


Þetta voru þrjú dæmi - eitt úr hverjum flokki. Þegar leið á fundinn jókst málþófið uns fréttafulltrúinn komst að og benti á að í raun hefði hann engar niðurstöður til að kynna af fundinum, hvort ekki mætti komast að kjarna málsins? Hann studdi hugmyndina um reglulegan dálk í bæjarblaðið um erlenda nema og viðraði líka hugmynd um að skrifa grein í bæjarblaðið þar sem sagt yrði frá hvað gerst hefði, sagt frá árangri af starfi erlendra nema og bent á að hefði einhver hringt í lögregluna hefði mátt koma í veg fyrir þennan hörmungaatburð.

Yfirstjóranum fannst það nú ekki aldeilis góð hugmynd - Að fara með þetta mál í bæjarblaðið! Það kæmi hvorki skólanum né bæjarbúum til góða. Nóg væri víst af niðurdrepandi fréttum þótt ekki bættist þetta við.

Þýskur strákur sagði sögu af vinkonu sinni frá Bangladesh. Hann ræddi við hana eftir að landi hennar komst naumlega undan árás á hjóli og komst sér til mikillar geðshræringar ("algjört sjokk") að því að hún væri stöðugt hrædd eftir að hún frétti af árásartilrauninni og reyndi að velja sér dimma stíga frekar en upplýstar götur til að enginn sæji að hún væri útlendingur og myndi ráðast á hana.

Loks varð niðurstaðan sú að umfjöllunin mætti fara í bæjarblaðið "ef varlega væri farið að málum". Jammogjá. Nú er þessi fundur með lögreglunni í næstu viku. Satt best að segja hefði ég viljað að lögreglan væri á fundinum þetta kvöld, því þá hefðu hugmyndir okkar komist til skila án fyrirfram neikvæðs tóns sem mér finnst ekki ólíklegt að verði í rödd umsjónarmannsins þegar hann ymprar á tillögunum.

Stúdentaráð vinnur markvisst gegn rasisma og hélt stóran málfund með þekktum fyrirlesara um nýnasisma og öfgahægristefnu-þróunina í austurhluta Þýskalands. Við fengum í heimsókn til okkar menntaskólanema sem eru að skipuleggja alþjóðadaga í tengslum við átak gegn rasisma. Fréttafulltrúinn virtist maður með viti. Einhver árangur varð af þessum umræðum öllum saman. Jú það má svosem líta björtum augum fram á veginn - að einhverju leiti.

En þetta náði ekki upp í hæstu hæðir. Þar ríkti öðru fremur þröngsýni og neikvæðni.

Matti fór með mér í langan göngutúr eitthvert út í skóg þegar ég kom heim af fundinum með hárið út í loftið og eldglæringar úr augunum af bræði. Á leiðinni rasaði ég út og gerði svo hara-æfingar úti í skógi (japanskar öskuræfingar sem ég lærði í jógatímum í HÍ). Það var ágætt. Gott að eiga góða að.

Samt er þetta ekki alveg farið úr kollinum á mér og ég fann það núna við próflesturinn að ég þurfti að skrifa svolítið líka. Þetta er reyndar orðinn langur pistill og ekki alltaf gott að skrifa á veraldarvefinn "í hita augnabliksins" en nú er vika liðin, ég held að með þessum skrifum særi ég engan og kannski hafið þið eitthvað um málið að segja?

Engin ummæli: