23 janúar 2007

Til hamingju Tinna og félagar!

Reyndar hef ég ekki hugmynd um hvort Tinna les blogg yfirhöfuð en ég finn hreinlega hvergi símanúmer, netfang eða neitt slíkt til að koma hamingjuóskum á framfæri. Glæsilegur árangur - sérstaklega hjá Rögnu og Tinnu! (að öðrum ólöstuðum)


Þessi helgi fór öll í lestur og verkefnavinnu. Tók samt reglulega pásur til að kíkja hingað og fylgjast með gengi íslenska liðsins á EM B-liða í badminton. Setti nefnilega inn fréttastreymi frá RÚV á gúgl-upphafssíðuna mína og þar kom á fimmtudaginn frétt um sigurinn á ítalska liðinu. Þetta hefði örugglega farið fram hjá mér annars og það hefði nú verið synd því jafnvel þótt ég hafi bara getað fylgst með niðurstöðum á netinu þá var þetta alveg þrususpennandi keppni.

Annars er víst í gangi HM í handbolta hér í Þýskalandi. Það hafði ég ekki heldur hugmynd um - "alveg út úr" hérna í Freiberg! En mér finnst líka handboltinn ekki nándar nærri eins spennandi og badmintonið, handboltaliðið er svo mikið happa-glappa oft og svo er handbolti líka miklu meiri olnbogaskota/toga í treyjur/hrinda hinum-íþrótt, eða í stuttu máli alveg hundleiðinleg!


Ég sé hjá Líneyju að snjórinn hefur yfirgefið Reykjavík í bili. Það kemur mér ekki á óvart því hann kom (loksins) hingað í gærkvöldi. Kannski snjónum þyki handbolti skemmtilegur?

Engin ummæli: