Þessi helgi fór öll í lestur og verkefnavinnu. Tók samt reglulega pásur til að kíkja hingað og fylgjast með gengi íslenska liðsins á EM B-liða í badminton. Setti nefnilega inn fréttastreymi frá RÚV á gúgl-upphafssíðuna mína og þar kom á fimmtudaginn frétt um sigurinn á ítalska liðinu. Þetta hefði örugglega farið fram hjá mér annars og það hefði nú verið synd því jafnvel þótt ég hafi bara getað fylgst með niðurstöðum á netinu þá var þetta alveg þrususpennandi keppni.
Annars er víst í gangi HM í handbolta hér í Þýskalandi. Það hafði ég ekki heldur hugmynd um - "alveg út úr" hérna í Freiberg! En mér finnst líka handboltinn ekki nándar nærri eins spennandi og badmintonið, handboltaliðið er svo mikið happa-glappa oft og svo er handbolti líka miklu meiri olnbogaskota/toga í treyjur/hrinda hinum-íþrótt, eða í stuttu máli alveg hundleiðinleg!
Ég sé hjá Líneyju að snjórinn hefur yfirgefið Reykjavík í bili. Það kemur mér ekki á óvart því hann kom (loksins) hingað í gærkvöldi. Kannski snjónum þyki handbolti skemmtilegur?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli