06 febrúar 2007

Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag!

Í dag er ég í rosalega góðu skapi:

Á AKAS-fundi í gærkvöldi fengum við þær fréttir að yfirstjórnendurnir eru búnir að grafa höfuð sín upp úr sandinum og beita sér nú eftir fremsta megni við að bæta samfélagið á fundum víðsvegar um bæinn (mamma benti mér á að þeir hefðu líklega bara verið svo felmtri slegnir í byrjun yfir að svona nokkuð gerðist í litla krúttlega bænum þeirra). Nú er þetta sumsé allt á betri leið!


Stressuð upp fyrir haus hélt ég í fyrsta munnlega prófið í gærmorgun. Skildi ekki allar spurningar prófessoranna (málfarslega) en þeir voru vingjarnlegir og umorðuðu spurningarnar þegar þörf var á. Við David vorum svo "heppin" að draga hvort um sig tvö erfiðustu viðfangsefnin úr spurningasúpunni (hverjar eru líkurnar á því?), forrituðum af kappi í hálftíma og tókst svo með góðri samvinnu að svara nánast öllu (við vorum spurð út úr í hálftíma) og niðurstaðan varð alveg fram úr björtustu vonum.


Á morgun er gagnapróf um uppbyggingu tölva og þar sem ég hef eytt annarri hverri helgi í allan vetur í verkefnin í þeim kúrsi hef ég litlar áhyggjur af því fagi. Stýrifræðin er síðan á mánudaginn og ég er ekki eins róleg yfir því þótt hin-hver-helgi vetrarins (getur maður sagt þetta svona?) hafi verið undirlögð af stýrifræðidæmum - mætti alveg hafa meiri tíma til að læra þau fræði.


Svona í lokin kemur hér mynd af Leibniz Vollkorn Butterkeks, stærðfræðikexi með meiru (getið nú af hverju það er!) en það er aðalnaslið mitt í þessari prófatíð. Held að það fáist á Íslandi en þekki ekki verðlagið - kannski má samt spreða í Leibniz á tyllidögum?

Engin ummæli: