14 febrúar 2007

Skilningsmysingur

Úff, það er stundum erfitt að vera ekki innfæddur! Við Hale höfum legið yfir rúmfræðilegri líkangerð og grafískum kerfum í dag og mestur tíminn hefur farið í einhvern misskilning... Mér finnst fátt jafnpirrandi og að tapa mörgum tímum í rugl og vitleysu af því að verkefni er flókið orðað eða setningaskipan undarleg.


Að sama skapi getur misskilningur líka oft verið fyndinn. Í morgun þurfti ég að skjótast út í bókabúð og ílentist eitthvað við orðabókahilluna. Þar voru alls konar skondnar "orðabækur" á borð við "Deutsch - Frau, Frau - Deutsch", "Deutsch - Fussball, Fussball - Deutsch" og fleira. Rek ég þá augun í bók að nafni "Deutsch - Neugierisch, Neugierisch - Deutsch" og greip hana strax úr hillunni enda forvitin með meiru. Nema hvað... ég hafði þá afrekað það að mislesa titilinn - bókin hét í raun "Deutsch - Neugriechisch, Neugriechisch - Deutsch"!


Annars gengur lífið sinn vanagang hér í Freiberg. Hef ekkert heyrt nánar af málalokum lögreglufundarins enda flest starfsfólk háskólans og bæjarins lagst í dvala annarfrísins. Johannisbad var til að mynda troðfullt af fjölskyldum, samlímdum pörum og ferðalöngum í dag og rauðar hjartablöðrur upp um alla veggi. Held ég hafi synt svona sjö sinnum á krakka sem villtust inn á brautina eða héngu á línunni. Obbosí.

Engin ummæli: