12 desember 2006

Jólin, jólin, jólin koma brátt...

Vígsluathöfnin var nú ekki erfið! Okkur var skipað upp á svið, skipt í tvo hópa og hvorum hóp úthlutað einum hamri, ógrynni af listum og nöglum. Síðan fengum við þrjár mínútur til að smíða koll og það lið ynni sem gæti lengst setið á sínum kolli áður en hann dytti í sundur. Í mínu liði var einn fyrstaársnemi og þrír fullir stærðfræðinemar frá Halle sem voru í heimsókn hjá vini sínum.


Þremenningunum fannst ægilega fyndið að þykjast vera fyrstaársnemar. Þeir stjórnuðu smíðinni og varð útkoman eftir því skrautleg. Ég tók nú samt hamarinn í mínar hendur því annars hefðu líklega nokkrir puttar fengið vænt högg. Hitt liðið var alfarið skipað nýnemum og unnu þau auðvitað kollasmíðakeppnina. Eftir þetta var sá nemi í hvorum hópi sem minnst hafði hjálpað til við kollsmíðina látinn flytja fyrirlestur.


PowerPoint-glærum var varpað á vegg og strákgreyin urðu vessgú að þykjast vera mjög vel inni í flugaflfræði og hagnýtri efnafræði. Annar útskýrði hvernig flugvélavængir virka og hinn öll efnasamböndin sem liggja að baki peningaseðlum. Geisp. Þeim fórst þetta samt alveg merkilega vel úr hendi.


Næst var komið að kennurunum að láta ljós sitt skína. Þeim var skipað í tvö lið og fengnir í hendur hljóðnemar. Varpað var á vegginn tölvuleik og svo hófust leikar: hvort lið stóð fyrir eina linux-mörgæs með leysibyssu. Síðan birtust hugarreikningsdæmi efst á skjánum og duttu æ hraðar til jarðar eftir því sem borðunum fjölgaði. Kennararnir urðu að segja lausn dæmanna og þá gat mörgæsin skotið þau niður. Hápunkturinn var í lokaborðinu þegar einn prófessoranna bunaði út úr sér lausn á 17*13 á örskotsstundu, vel að verki staðið!


Annars leið nú vikan frekar hratt. Á miðvikudag og fimmtudag voru nefnilega svokallaðir netafræðidagar með gommu af áhugaverðum fyrirlestrum. Sérstaklega fannst mér spennandi verkefni František Kardoš, doktorsnema við tækniháskólann í Kosice, Slóvakíu, sem nefndist "Symmetry of fulleroids". Greinar um verkefnið hans bíða birtingar en þangað til geta áhugasamir t.d. skoðað þetta.


Á föstudaginn tókst mér í fyrsta skipti að leysa tölvuarkitektúrdæmin áður en helgin hófst og var því fagnað með heimsókn í jólasmákökubakaríið þeirra Kötju, Violu og Christinu. Þær voru búnar að baka kardimommukökur, kanilstjörnur og súkkulaðidropa. Namminamm. Ég gat hjálpað svolítið við að skreyta og Dirk, Kay og Steffen komu líka til að "hjálpa til" en þeirra hjálp fólst í að "samþykkja" kökurnar. Annað tilefni til fögnuðar var að við David höfðum fengið þær fréttir að við kæmumst með til Nürnberg á laugardeginum. Húrra!


Seinna um kvöldið kom svo í ljós að einungis var pláss fyrir mig af því að ég hafði skráð mig á biðlista en David gleymt því. Svakaspæling. David ákvað því að fara í Rotewegpartýið sem við höfðum annars ákveðið að sleppa til að sofa nægilega mikið fyrir Nürnbergferðina. Mústafa hafði samt sagt að hugsanlega væru aukasæti í rútunni svo ég fór snemma að sofa og mætti korter í sex út á rútubílastæðið. Klukkan fimm mínútur í sex var ljóst að það væri akkúrat eitt laust sæti. Ég fékk tíu mínútur til að hlaupa eins og byssubrandur til Davids, hringdi svona þrisvar í hann á leiðinni, hamaðist á dyrabjöllunni og hringdi samtímis ótal sinnum uns David rankaði við sér.


Það var ansiringlaður, þreyttur, þunnur og þvældur en að sama skapi glaður David sem hljóp með mér út í rútu á síðustu stundu. Lukkulega hafði ég tekið með vatn og nesti til að hressa hann við og svo sváfum við alla leiðina til Nürnberg. Þar biðu okkar leiðsögukonur, sprækar en nokkuð aldraðar og Hale, Faruk og David ákváðu að fylgja enskri leiðsögn en ég elti þá þýsku. Hún talaði Fränkisch og hugaði lítt um að einfalda mál sitt fyrir okkur útlendingana. Þar sem ég hafði heyrt þetta flestallt áður með Líneyju Höllu sumarið 2001 tók ég því að mér hálfgerða einkaleiðsögn fyrir Teresu og Camillu samhliða því að hlusta á hópleiðsögnina.


Í Nürnberg var allt yfirfullt af ferðamönnum - hjálpi mér! Það voru víst 120 leiðsögumenn á ferð með hópa samtímis og náðu samt ekki að anna eftirspurn. Mér leið hreinlega hálfilla í mannþrönginni þegar við nálguðumst jólamarkaðinn og hefði vel verið til í að geta flogið eins og Kalli á þakinu yfir mannhafið. Við fyrstu sýn var ekki beint jólaleg stemmning heldur okur, græðgi og troðningur. Eftir að hafa séð klukkuspilið á Frúarkirkjunni í fjarska og gefist upp á að nálgast Schönebrunnen brunninn fórum við Camilla í átt að Lorenzkirkju og hittum Hale, Faruk og David.


Að loknum verslunar- og safnaleiðangri gátum við samt ekki haldið heim án þess að draga andann djúpt og demba okkur í jólamarkaðsrölt. Leiðsögukonan hafði varað okkur við vasaþjófnaði og þegar við höfðum skipað okkur í gætum-hvers-annars-flokk, lært að vara okkur á regnhlífaárásum og vorum búin með innihald eins Glühwein-stígvéls gekk markaðsröltið miklu betur. Við fundum ýmislegt skondið að skoða, létum stígvélin dansa öðrum vegfarendum til mikillar kátínu og hlýddum á málmblásara flytja jólalög. Hópurinn hittist svo allur þreyttur og blautur í rútunni og enn var sofið alla leiðina heim jafnvel þótt klukkan væri ekki nema rétt um fjögur...


Á sunnudeginum fór ég í smá hjólatúr um Freiberg - hafði ekki gefið mér tíma til þess síðan einhvern tíma í október! Lagði bara af stað í einhverja átt sem ég hafði aldrei prófað áður og ákvað að halda upp á eitthvert fjall. Þar rambaði ég á gömlu silfurnámurnar, námusafnið, vísindagarð og fleira. Gamangaman. Reyndar var það allt lokað en það var samt margt úti til að skoða. Hinu megin við fjallið fann ég síðan kirkjugarð með alls konar minnismerkjum, trjám og gróðri og þar fyrir handan verkamannahverfi sem minnti mig svolítið á Vesturbæinn.


Hringurinn lokaðist síðan þegar ég áttaði mig á að ég væri við hús útlendingaeftirlitsins þar sem ég fékk dvalarleyfi í haust. Bak við það reis gríðarstór niðurnídd verksmiðja sem hafið var að rífa. Eftir að hafa séð hvernig miðbærinn og gömlu silfurnámurnar hafa verið gerðar upp var þetta heldur sorgleg sjón en samt gaman að mynda... alveg þangað til ég fékk það á tilfinninguna að einhver væri að fylgjast með mér inni í verksmiðjuhúsinu, þá hélt ég heim á leið.


Á leiðinni heim hjólaði ég gegnum miðbæinn og þar var allt fullt af lífi, aldrei þessu vant. Búðum er víst leyft að hafa opið á aðventusunnudögum og jólamarkaðurinn dregur líka fólk að. Þarna var samt mun rólegri og skemmtilegri stemmning en í Nürnberg og allt helmingi ódýrara. Ætli það sé ekki best að fara til Nürnberg fyrir hádegi á virkum dögum en annars á svona litla krúttlega markaði eins og hér í Freiberg, gæti hvað best trúað því!


Núna var ég að koma frá próftilkynningaskrifstofunni. Þar eru auðvitað skrýtnir opnunartímar og langar raðir. Held samt að mér hafi tekist að skrá mig í þessi sex próf sem ég á að taka í febrúar og mars. Þá er bara að bíða og sjá hvernig þau raðast niður - það er nefnilega "samkomulagsatriði" hér! Fram til annarrar viku janúarmánaðar hafa prófessorarnir sumsé tíma til samningaviðræðna við þá sem vilja taka próf hjá þeim... ansi skondið fyrirkomulag, finnst ykkur ekki?


Í næstu viku eru síðustu fyrirlestrarnir og á föstudaginn held ég vestur á bóginn. Haukur og Angelika eru á fullu að breyta og bæta í Bielefeld - herbergjaskipan verður til að mynda komið í það horf sem var þegar Lára og Inga voru pínukríli, mikið parketlagt og málað. Bara eldhúsið fær að bíða fram yfir hátíðarnar. Við Lára og Inga erum orðnar ansispenntar að sjá útkomuna og ekki síður að hittast aftur!

Engin ummæli: