24 desember 2006

Gleðilega hátíð!

Háskóli Íslands fær aldeilis kynningu hér í Freiberg þessa dagana. Á miðvikudaginn í síðustu viku voru ERASMUS-kynningardagar og ég setti upp íslenskan bás með síld og rúgbrauði (hafði ekki tíma til að elda neitt eða baka), tónlist, bæklingum að heiman, hraungrjóti frá Egbert og fleiru. Við Ítalía vorum álíka seint á ferðinni, allir básar orðnir fullir og fengum við því reddingarbás á besta stað.

Með Teresu og David við íslenska básinn

Man ekki hvort ég var búin að skrifa að miðvikudagar eru alveg rosalega þéttskipaðir í stundaskránni minni - fyrirlestrar frá 7:30 til 17:30 - og þessi kynning var í hádegishlénu. Dagblaðið mætti meira að segja, tók stutt viðtöl og myndir af okkur Egbert við íslenska básinn. Beint eftir skóla þaut ég svo með hraungrjótið í Mensuna til Egberts en hann hélt þar örfyrirlestur um HÍ-erasmúsardvöl sína síðasta vetur og þaðan yfir í hliðarsal Mensunnar til að raða borðum og stólum og skreyta fyrir litlu jól alþjóðanema.

Þessi terta fékk sérstök aukaverðlaun í smákökubaksturskeppninni

Hér í Sachsen er bakað alls konar gott jólabrauð - mismunandi gerðir af Stollen, Lebkuchen, Vanillekipferli (vanilluhálfmánar), Zimsternen (kanilstjörnur) og fleira - og frá Nürnberg kemur glögg að nafni Glühwein. Þetta ásamt hnetum, eplum og appelsínum settum við á öll borð, kveiktum á eins konar pýramídareykelsum (kubbar sem eru settir inn í Räuchermännchen) og klipptum niður grenigreinar. Allir sem vildu gátu tekið þátt í smákökubaksturskeppni eða mætt með lítinn pakka handa jólasveininum og var þá lofað pakka til baka. Okkur David leist ágætlega á þetta pakkalotterí og mættum því bæði með böggul undir tréð.

Gestir á litlu jólunum

Þegar jólasveinninn mætti svo með pokann sinn kom í ljós að allir sem fengu pakka áttu að syngja fyrir jólasveininn (og þar með allan salinn í leiðinni) - skemmtileg hefð! Feimnir fengu salinn til að syngja með sér þýsk eða ensk jólalög og Pólverjarnir mynduðu kór til stuðnings sínu fólki. Við sem komum frá löndum eins og Fílabeinsströndinni, Spáni og Íslandi erum ekki jafnmörg og þau frá Austur-Evrópulöndunum svo við sungum bara okkar lög ein og óstudd.

Við Katja keyptum stærðarinnar pálma í sem innflutningsgjöf

Eftir þennan maraþondag gerði ég satt best að segja fátt annað en læra, borða og sofa það sem eftir lifði vikunnar. Á sunnudagskvöldið hélt Steffen innflutningspartý með Feuerzangenbowle: rommdrukkinni sykurstöng sem lekur logandi ofan í glöggpott með ávöxtum. Við Katja keyptum pálmatré í innflutningsgjöf til að bæta lífið í nýja herberginu. Einnig var skilyrði að mæta með "draslpakka" til að skiptast á. Þessi leikur er víst mikið stundaður hér á aðventu.


Susann samdi draslpakkavísuna

Draslpakkaleikur fer þannig fram að allir partýgestir mæta með eitthvað sem þeir hafa fengið að gjöf en langar ekkert að eiga. Draslpakkastjórinn kveður draslpakkavísuna (oftast samin á staðnum af einhverjum gestanna) í upphafi, deilir svo út pökkum til þátttakenda og ákveður hver megi opna pakkann sinn hverju sinni. Viðtakandinn kveður upp um hvort hann sé ánægður með draslið sem honum var úthlutað og gefandinn fær tækifæri til að útskýra gjöfina sé þess þörf. Í lokin er síðan skiptimarkaður þar sem þeir sem voru óánægðir versla með draslið sín á milli og gerist teitið skrautlegt getur jafnvel komið fyrir að skipt sé á drasli á laun!

Steffen og Katja bregða á leik með innihald nokkurra draslpakkanna

Þar sem Matti var veikur mætti ég með draslið hans: pattaralegan sólgulan pottleirsgrís með marglenskt klink í maganum og grasgræna fjögurralaufasmára á bakinu. Þetta varð afar vinsælt drasl. Sást það best á fjölda tilrauna til viðskipta (og launskipta). Grísinn góði lenti hjá ábúandanum og draslpakkastjóranum sjálfum en ég fékk kúraffa í staðinn. Kúraffi er blanda af kú og gíraffa, kýr með langan háls!

Kuhraffe

Fyrst ég var nú búin að læra romm áhellingar og eldmeðferð við Feuerzangenbowle brugg var auðvitað hist á nýjan leik. Í þetta sinn hjá Svend og Frank. Nú vorum við svo mörg að það nægði í leik að nafni "Nótt í Palermo". Spil sem sögumaðurinn dreifir skera úr um hverjir eru hvað - flestir eru borgarar, einn er rannsóknarlögreglumaður, einn garðyrkjumaður, einn verndari og tveir verða morðingjar! Allir sofna í Palermo en sögumaður leyfir hinum og þessum að vakna hingað og þangað í sögunni.

Viola undirbýr sykurstöngina með vænum rommslurki

Borgararnir reyna að finna morðingjana og koma þeim fyrir kattarnef en morðingjarnir keppast við að stúta borgurunum. Líf og fjör þarna í Palermó skal ég segja ykkur! Óhóhó, við verðum að spila þetta við tækifæri og þá skýri ég betur leikreglurnar...

Fjör færist í leikinn - ég með ausuna á lofti

Á fimmtudaginn skrapp ég stundarkorn til Dresden, villtist svolítið með lestum en komst að lokum í IKEA til að skila lampa og fleiru sem ég tók í misgripum í haust. Fann þessar fínu sænsku piparkökur í staðinn. Pit kom síðan til að lóðsa mig í bæinn, og við sáum allar helstu byggingarnar í miðbænum. Reyndar var Semper óperan afgirt vegna stöðuhækkunarserimóníu hersins en annað var vel aðgengilegt. Síðan settumst við inn á kaffihús heiðarlegrar verslunar (fair trade) og ég kenndi íslensku yfir vermandi vetrarsúpu. Það er svo margt að sjá í Dresden að auðvitað dugði dagurinn ekki nærri því til.

Semperóperan

Nú eru nokkrir dagar síðan ég hóf að skrifa þessa færslu, ég komin til Bielefeld og ekki seinna vænna að koma henni á netið. Þið verðið að afsaka myndaleysið - þær koma að öllum líkindum í janúar (ég á líka ennþá eftir að fá myndirnar úr tyrkneska teboðinu frá Hale)! Þá er einnig að vænta árlegs ársuppgjörsbréfs bæði á þýsku og íslensku.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar, góðs matar, gleði og friðar í faðmi fjölskyldu og vina - fagnið vel um áramótin og megi nýja árið færa ykkur eitthvað skemmtilegt!

Uppfært 4. janúar með myndum

Engin ummæli: