05 desember 2006

Aðventutíð og tyrkneskt te

Í kvöld fer fram vígsla nýnema í skor stærð- og tölvunarfræðinema, Fakultät 1. Verður spennandi að sjá hvaða þrautir bíða mín þar! Félagið getur ekki talist mjög virkt miðað við Stigul - einungis eitt keilukvöld verið haldið það sem af er misserinu - en ég held að plakatið fyrir þetta kvöld bæti það alveg upp, sjáiði til:


Helgin eftir síðasta pistil var undirlögð af forritun skilaverkefnis á smalamáli en því skyldi skilað fyrir þriðjudag. Eftir vinnu okkar Kay fram á miðnætti mánudags tók ubuntu upp á því að koxa. Sáum við fram á uppsetningu debian fram á næsta morgun en ákváðum að prófa aðra möguleika fyrst, þutum á hjólunum upp í URZ (reiknistofnun) og hugðumst nota aðgangskortin okkar til að ljúka verkefninu í tölvuverunum.


Opnunartímarnir reyndust hins vegar ekki vera álíka og heima. Opið frá klukkan 7 til 22:30 mánudaga til föstudaga, ávallt þarf aðgangskort að tölvuverunum og til viðbótar þarf aðgangskort að útihurðinni frá klukkan 18 til 22:30. Hvað er þá til bragðs að taka? Við reyndum að banka á glugga og telja Christian félaga okkar á að hleypa okkur í tölvuna hans en sá var á leið í háttinn og hreint ekki á þeim buxunum að taka á móti gestum.


Þar sem við vorum orðin frekar þreytt, var á endanum skrifað undurfagurt afsökunarbréf til Helge æfingastjóra og fengum við frest fram á þriðjudagskvöld til að ljúka verkefninu í tölvuverunum. Tíu klukkustundir forritunar án hlés, matar eða drykkjar eru ekkert spaug svona eftir á að hyggja, já, við skulum segja að þetta hafi verið frekar "súr" þriðjudagur - svona á Stiglamáli!


Herra Mönch, sem kennir okkur rúmfræðilega líkangerð og tölvugrafík, talar mjög hratt á saxnesku og skrifar svo óskýrt og hratt að jafnvel Þjóðverjarnir fylgja ekki öllu. Hale vinkona mín frá Tyrklandi gafst hreinlega upp eftir fyrsta tímann svo ég ljósrita alltaf glósurnar mínar handa henni. Í síðustu viku hafði safnast upp dágóður bunki af glósum svo Hale bauð mér í te á fimmtudaginn til að fara gegnum herlegheitin.


Í stuttu máli sagt þá fékk greinargóða kynningu á sögu og náttúru Tyrklands auk þess að bragða nánast alla helstu þjóðarrétti Tyrkja þetta kvöld, í það minnsta alla rétti nema einn sem taldir voru upp í kynningarbæklingi um Tyrkland og við skoðuðum í bak og fyrir. Því miður sofnaði myndavélin mín en Hale tók nokkrar fyrir mig svo ég get bráðum skipt þeim út fyrir þessar sem ég fann á netinu.


Ekki var nóg með að Hale hefði bakað kartöfluumslög (börek) og valhnetukúlur, heldur hafði mamma hennar að auki bakað baklava, 40-lagaköku með ferskum pistasíum (maður þarf að fletja örþunnt deigið út 40 sinnum!), og sent ásamt krydd-kíkertusnakki og tyrknesku núggati til Freiberg. Bruggað var tyrkneskt te í katli á tveim hæðum og tyrkneskt kaffi mallað í potti og hellt í oggulitla bolla. Þegar komið var niður að botnsetinu í kaffibollunum átti svo að skella undirskálinni ofan á bollan, rugga þessu svolitla stund með úlnliðshreyfingu, snúa snöggt á hvolf og bíða.


Þá tók Faruk, vinur Hale, bollana og spáði í þá. Svei mér þá alla mína daga, hugsaði ég, því að ég hef ekki minnsta áhuga á að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. En einu sinni verður allt fyrst og við fengum báðar dágóðan pistil sem verður fróðlegt að vita hvort rætist. Nú þegar hefur eitt brugðist - mér til mikils léttis - því ekki var allt jákvætt sem í bollanum stóð!



Einhverja næstu daga á ég von á böggli frá HÍ með bæklingum til að dreifa í mensunni. Í næstu viku verða nefnilega kynningardagar erlendra háskóla. Annars er jólakvöld félags alþjóðastúdenta í næstu viku, jólatónleikar og fleira jólajóla. Aðventutíðin er haldin mjög hátíðleg hér - samnemendur mínir gera herbergin sín jólaleg, eiga pýramída, hnetubrjót eða reykkelsiskarl héðan af Erzgebirge-svæðinu og minnst eitt en oft tvö til þrjú jóladagatöl með súkkulaði eða litlum pökkum að heiman!


Það er gaman að fylgjast með þessu en ég finn satt best að segja litla þörf hjá sjálfri mér til að "jólastússast" svona mikið. Auk þess flýgur tíminn enn sem fyrr - sirkúsnum missti ég til dæmis alveg af vegna verkefnavinnu. Um helgar skiptast tvö fög aðallega á - tölvuarkitektúr aðra hverja helgi og stýrifræði helgarnar á móti. Mig langaði reyndar til Nürnberg á jólamarkað með félagi alþjóðastúdenta um næstu helgi en var of sein til að skrá mig. Það gengur samt eiginlega ekki að ég missi alveg af jólamörkuðunum... Planið er því að ná því að skoða jólamarkaðinn hér í Freiberg og/eða í Dresden áður en þeim verður pakkað aftur ofan í kassa. Hlýt að geta búið til tíma fyrir þau skemmtilegheit!

Engin ummæli: