24 nóvember 2006

Sirkús

Maríuhæna hefur gert sig heimankomna í lampanum mínum. Hún er krúttlegt gæludýr en svolítið athyglissjúk - sest alltaf á tölvuskjáinn eða slær saman löppunum/vængjunum svo það bergmálar í lampaskerminum.


Á flötinni handan við götuna hafa öllu stærri dýr ásamt fjölda eigenda komið sér fyrir. Þar er á ferð heilt fjölleikahús! Munið þið eftir sirkúsnum Arena sem kom stöku sinnum og fór hringferð um landið? Hann mátti ekki taka dýrin sín með. Þessi heitir eitthvað annað og það eru dýr með í för. Á einum vagninum eru meira að segja ljónamyndir...


Þótt ekki sé nafn fjölleikahússins Arena þá var nú samt haldið hér í vikunni partý að nafni Campus Arena og vel mætti líkja því við sirkús. Mensunni var breytt í dansklúbb með hljómsveitum og skífuþeytum fram eftir nóttu með tilheyrandi sirkússtemmningu. Partýið var gríðarlega fjölsótt og frá miðnætti minnti svitastigið hreinlega á kjallarann í Laugalækjarskóla, hver man eftir því?!


Góður kjarni stærðfræðinema mætti og saman hoppskoppuðum við og dönsuðum eins og brjálæðingar - virkilega góð útrás. Daginn eftir var lögboðinn frídagur, Buß- und Bettag, ætlaður til tilbeiðslu og iðrunar. Eiginlega mætti nefna hann Betttag, því ágætt tækifæri gafst til að sofa fram eftir. En nei, er ekki dæmigert að Mormónar ákveði að koma í heimsókn á svona degi og draga stúdentagarðsbúa á fætur?


Bank, bank. Tveir menn spyrja eftir móðurmáli mínu og biðjast afsökunar á ónæðinu þegar þeir sjá ringlaðan nýkomináfætur svipinn. Uh, ha, sko, íslenska... hérna, hverjir? Andköf. Íslenska! Fjögur augu opnast upp á gátt. En ÁHUGAVERT!!! Býst hálfgert við að þeir opni á mér munninn og skoði tunguna eða eitthvað álíka en þá rétta þeir fram dreifirit um heimsendi, ég átta mig, bauna út úr mér að ég sé trúlaus og skelli hurðinni aftur.


Var þó heppnari en strákarnir hérna niðri. Þeir fengu heimsókn fjögurra pörupilta klukkan sex sama morgun: innbrot. Heppilega vöknuðu þeir og náðu að styggja þjófana þannig að litlu sem engu var stolið. Hitt var hins vegar öllu óskemmtilegra að í eftirförinni réðust náungarnir á einn af skiptinemunum í WGinu svo hann meiddist þónokkuð. Svo virðist sem ástæðan fyrir því að þeir réðust akkúrat á þennan eina sé sú að hann er með annan hörundslit en hinn dæmigerði Þjóðverji - rasismi! Alveg ömurlegt...


Kaldhæðnislegt að áður en ég frétti af þessu svaraði ég könnun um stúdentagarðana og var einmitt mjög jákvæð í öryggishlutanum. Tjah, ekki svo að skilja að núna sé ég hrædd við að búa hér, en þetta hefði nú samt örugglega haft einhver áhrif á svörin.


DAAD boðaði til fundar á þriðjudaginn í ráðhúsi Dresdenborgar eins og áður var frá sagt. Mér hafði verið sagt að dagskráin stæði frá fjögur til átta og fékk leyfi til að mæta klukkan fimm svo ég næði stýrifræðidæmatímanum. Í raun var samt dagskráin bara til rétt rúmlega fimm, alla vega heyrðum við Pit einungis um 10 mínútur af fyrirlestri og var svo stefnt að hlaðborði. Eftir spjall við krakka m.a. frá Kólumbíu, Chile og Rússlandi tók við íslenskukennsla alveg fram að lokun ráðhússins og þetta var sko eitthvað annað en kennslan síðasta vetur! Gaman að hafa áhugasama nemendur.


Í Dresden var jólaskraut farið að skjóta upp kollinum í miðbænum og núna er líka búið að skreyta gamla bæinn hér í Freiberg. Síðast þegar ég gekk um Obermarkt var meira að segja verið að leggja lokahönd á uppbyggingu lítilla húsa fyrir jólamarkaðinn. Ósköp líður tíminn hratt...

Engin ummæli: