18 nóvember 2006

Stærð- eða sálfræði? Áfram Ísland!

Jahhananú - breyting yfir í betaútgáfu bloggers tók svolítið á, sérstaklega fór aumingjans halóskan alveg í kerfi, en núna ætti allt að virka. Látið mig endilega vita ef eitthvað er í ólagi eða ef einhvers af gamla blogginu er saknað.

Þann 11. nóvember klukkan 11:11 hófst undirbúningur Fasching með lúðrablæstri á markaðnum

Í þarsíðustu viku gerðist satt best að segja fátt markvert. Mestur tími fór í að veita ringluðum skólasystrum sálfræðiaðstoð (af hverju er ég að læra stærðfræði?) og forrita í C. Jújú, hafið engar áhyggjur, ég veit alveg af hverju ég er að læra stærðfræði - það er bara svo ótrúlegt hvað ég kemst oft í hlutverk krísuráðgjafa...

Hjónabandssælan okkar Aniku

Freiberg er mikill rigningarbær. Það minnir hreinlega á Reykjavík mínus sjávarloftið. Loftið er nefnilega mjög þurrt - raunar svo mjög að ég þarf líklega í fyrsta skipti á ævinni að klína einhverju framan í mig til að verja húðina ef sólarvörn er frátalin. Kremfróðir lesendur mega alveg gefa mér ráð. Þangað til nota ég safann úr aloe vera plöntu - tjah, það virkar alla vega ef maður brennur í sólinni og þá vonandi á þurrkinn líka?

Fyrirlestur um Ísland

Þessa vikuna undirbjó ég íslenskt kvöld af miklum móð. Þrátt fyrir að kvöldið bæri upp á sama dag og Fasching þá mættu svo margir að það hreinlega komust ekki allir inn! Sérstaklega var gaman að nánast allir sem eru með mér á ári í stærðfræði gátu komið. Fyrst á dagskrá var fyrirlestur um land og lýð með áherslu á náttúru og jarðfræði því hér er frekar sterk jarð- og landfræðideild og þá áhugi á þessu tvennu mikill. Hefðirnar og maturinn slógu samt líka í gegn - sérstaklega vöktu jólasveinarnir þrettán, Grýla, Leppalúði, jólakötturinn og þorramaturinn mikla kátínu og óhug.

Allt stappað í félagsherbergi alþjóðastúdenta

Á leiðinni hingað til Freiberg í haust gaf ég þeim sem ég gisti hjá í Berlín harðfiskinn og sælgætið sem ég tók með að heiman svo ég átti bara eftir lýsi og brennivínsflösku. Pabbi og mamma björguðu þessu og sendu Hlyn með meira lýsi, harðfisk og djúpur þegar hann fór til Berlínar fyrir skömmu. Til viðbótar við þetta bökuðum við Anika tvær ofnskúffur af hjónabandssælu og Viola, Steffen og Matti aðstoðuðu mig við að elda plokkfisk úr sex kílóum af fiski í tveim risapottum.

Kisa var afar ánægð með bæði harð- og plokkfiskinn

Þegar ráðist var að matarborðinu eftir fyrirlesturinn setti ég íslenska tónlist í botn, varpaði myndasýningu á vegg, skenkti brennivíni í tappa þar til flaskan tæmdist og svaraði ógrynni af spurningum. Þar sem svo margir mættu hvarf maturinn og brennivínið á örskotsstundu en ég held samt að allir hafi fengið eitthvað af einhverju, a.m.k. voru allir mjög ánægðir sem ég talaði við og myndirnar sem Steffen tók sýna nánast bara hamingjusama gesti. Einhver kom undan handa mér síðustu ausunni af plokkfiski og sneið af rúgbrauði með smjöri. Það var eins gott að hafa eitthvað í mallakút því við vorum til hálf tvö um nóttina að vaska upp og ganga frá.

Þessi maður mætti, eins og hin kvöldin, bara til að borða og virtist ekki taka eftir að fleiri vildu smakka en bara hann... hinir gestirnir voru öllu kurteisari! Steffen var svo hneikslaður á þessu að hann tók mynd í hvert skipti sem maðurinn fékk sér meira á diskinn... það urðu margar myndir!

Núna er það komið á hreint að ég verð í Bielefeld með Hauki og fjölskyldu um jólin. Haukur hjálpaði mér að finna afsláttarkort og ódýran lestarmiða sem ég svo bókaði í gær. Síðustu fyrirlestrar fyrir jól eru 22. desember og þeir fyrstu eftir jól þann 3. janúar svo ég er ansihrædd um að konfektgerð falli niður þetta árið. Lára kemur frá Uppsölum og Inga frá París svo við hittumst allar frænkurnar og stefnan er jafnvel tekin á að halda saman áramótapartý á gamlárskvöld.

Hjálparhellan mín hún Anika

Á þriðjudaginn í næstu viku fer ég til Dresden og hitti þar fulltrúa frá DAAD og aðra DAAD-styrkþega. Þar sem ég verð rétt að ljúka dæmatíma í stýrifræði þegar herlegheitin byrja og því svolítið of sein er betra að hafa leiðina á áfangastað á hreinu. Til að flýta fyrir ætlar strákur að nafni Pit sem er að læra tölvunarfræði við TU Dresden og íslensku af eigin áhuga að mæta á lestarstöðina og lóðsa mig í móttökusal ráðhússins, heldur betur sniðugt það. Seinna þegar ég á leið um Dresden er planið að fá leiðsögn hjá honum og greiðann ætla ég að endurgjalda með því að kenna svolitla íslensku.

Nokkrir gestanna

Engin ummæli: