06 nóvember 2006

Bolti eða brauð

Aftur hittust nokkrir stærðfræðinemar til að elda og spila
Kay - David - Svend - Sandra (sést varla) - Nadine - Frank

Verði næstu helgar jafnmatarmiklar og sú nýliðna þá er næsta víst að ég breytist ekki í brauð með áleggi heldur bolta þegar vora tekur. Einn lesandi sendi mér póstkort með nammigóðri uppskrift einmitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir brauð-hamskiptin en gleymdi að láta nafns síns getið á kortinu. Þar sem ég er einstaklega léleg í að þekkja handskrift vina minna væri gaman að vita hver sendandinn er.

Fyrsti snjórinn kom á þriðjudaginn

Helgin byrjaði á hlaupandi kvöldverði. Okkur Aniku tókst eftir þónokkuð grufl að draga fram frosinn "Alaska-Seelachs" í kaupfélaginu og fór hann ágætlega með hlutverk ýsu í plokkfiskpottinum. Það var gott að við undirbjuggum matinn tímanlega því að forrétturinn og eftirrétturinn voru í 10-15 mínútna hjólafjarlægð hvor og því lítill tími til eldamennsku þarna í millitíðinni.

Uppskrift og hluti af hráefninu

Plokkfiskur

Á fyrstu stöð fengum við rækjukokteil og tómatfrauð hjá tveim stelpum á lokaári í hagrænni landfræði. Strákarnir tveir sem mættu þangað með okkur eru á fyrsta ári í hagrænni landfræði eins og hún Anika. Minnihlutahópnum mér var samstundis fyrirgefið námsvalið því að Ísland þykir sérdeilis áhugaverður staður meðal landfræðinema. Að loknum miklum námsumræðum skutumst við af stað til að taka á móti gestum.

Forrétturinn

Til okkar mættu alls fimm manns úr hinum ýmsu greinum: viðskiptafræði, efnisfræði, almennri náttúrufræði ofl. Við höfðum einungis fjóra stóla til reiðu en tókst að redda tveim stólum til viðbótar og sátum svo saman á einum stól. Allir kunnu vel að meta plokkfisk með rúgbrauði og tóku vel til matar síns. Í lokin var síðan vaskað upp á mettíma og hlaupið út á hjólin.

Hluti matargestanna okkar

Næsta stöð hafði Kúbu og Karíbahafið sem þema. Einhver Kúbuelskandi skiptinemi hafði skreytt veggina í WGinu og eftirrétturinn var afar suðrænn: romm&kókosparfait með hlaupteningum úr einhverju bláu áfengi, ananas, kíví og bláum appelsínum. Myndin segir meira en orðin...

Kúba og Karíbahafið

Meðan við sátum í makindum við eftirréttarát og fengum leiðsögn um afar frumlega innréttað WGið snjóaði úti fyrir svo hjólin okkar urðu alveg hvít. Við hjóluðum nú samt á lokastöðina, samkomuherbergi alþjóðanema, þar sem kryddsnafs héðan úr nágrenninu beið allra sem höfðu tekið þátt í hlaupandi kvöldverði. Auðvitað var aðalumræðuefnið matur, menning og ferðalög - eins og tilheyrir þegar allir hafa bragðað eitthvað framandi - kjötrétt frá Nígaragúa, perúskan eftirrétt eða forrétt frá Panama, svo eitthvað sé nefnt.

Með Christinu, Susann, Alex og David í lok hlaupandi kvöldverðar

Daginn eftir var blakkeppni og Anika gerði sér lítið fyrir og leiddi liðið sitt í fyrsta sætið. Þessu fögnuðum við um kvöldið í alþjóðapartýi í samkomuhúsi Freiberg að nafni Tívolí. Þar voru hengdir upp fánar sem við máluðum eitt alþjóðakvöldið og dansað fram á rauða nótt við tónlist hvaðanæva að úr heiminum.

Íslenski fáninn í alþjóðapartýi

Við vorum öll svolítið þreytt morguninn eftir við undirbúning alþjóðahlaðborðs - þreytt en glöð og kát. Þar sem ég ætlaði að hjálpa til við matargerð í WGi Violu í hádeginu ætlaði ég nú ekki að borða neitt mikið, bara hjálpa til, eeen þetta var of girnilegt! Hádegismaturinn varð því tvöfaldur þennan sunnudaginn, ekki slæmt það.

Namminamm...

Í gærkvöldi var keilukvöld fyrir skor stærð- og tölvunarfræðinema. Þar voru sýndir ýmsir skemmtilegir taktar enda flestir alveg vitavonlausir í keilu! Í dag hófust svo vinadagar milli Freiberg og Frankfurt an der Oder. Þar með koma kokkar í mensuna til að elda eitthvað nammigott og sérstakt fyrir það hérað. Oftast er mensumaturinn þannig að maður borðar hann bara af því að það er ágætt að vera ekki með tóman maga en í dag var annað uppi á teningnum. Hmmm... ég hef það á tilfinningunni að þessi færsla snúist aðallega um mat!

Við Anika

Vel á minnst, þá fékk ég sendingu í síðustu viku með harðfiski og djúpum til að bjóða gestum á íslensku kvöldi í næstu viku. Ætla að undirbúa stutta kynningu, elda mat og spila tónlist.

Engin ummæli: