31 október 2006

Tímavél

Síðasta vika var nánast þrjár í einni. Að minnsta kosti er afar illskiljanlegt hvernig allt komst fyrir á sjö dögum! Í aðra röndina var hún erfið og hörmuleg en í hina frábær og skemmtileg. Hér er ætlunin að fjalla meira um hina röndina.


Hmmm... samt fyrst eitt sem gleymdist í umfjölluninni um háskólaíþróttirnar og það er tryggingakerfið. Reyndar hef ég ekki búið í Bandaríkjunum, bara heyrt sögur af tryggingamálum þar en ég ímynda mér jafnvel að Þjóðverjar séu álíka slæmir - hreinlega með tryggingar á heilanum! Fyrir hvern einasta íþróttatíma þarf að undirrita plagg um að maður geri sér grein fyrir hvaða tryggingar gildi af háskólans hálfu og leiðbeinendurnir útlista í löngu máli í byrjun hvað sé ekki innifalið í tryggingunum. Á mánudaginn fór ég til að mynda í badminton og það lá við að ég væri send heim vegna þess að gleraugun mín væru ekki innifalin, nánar tiltekið væri hætta á að gleraugun myndu brotna og brotin fara í augun á mér og það myndi þýða rúmlega tveggja milljóna aðgerð sem tryggingarnar borguðu ekki o.s.frv.


Allur er varinn góður? Tjah... ég veit svei mér ekki! Þrátt fyrir bjarnheiðskan klaufaskap þá tókst mér nú að komast gegnum tíu ár af badmintonæfingum og -mótum án þess að missa augun. Badmintontíminn var níutíu mínútur og beint eftir hann brunaði ég á sundæfingu. Eftir rúman klukkutíma í sundi og badminton þar á undan var ég mjög hress. Vöðvarnir hins vegar voru ekki par sáttir nokkrum dögum seinna þegar ég reyndi að gera stríðsmanninn (jógaæfing) svo kannski það verði tekið aðeins vægar á því næst, eða alla vega teygt betur á.


Loksins tókst að fá löggilda passamynd og dvalarleyfi. Passamyndin var mjög ljót, eins og lögin gera ráð fyrir - það má jú ekki brosa, ekki halla höfði undir flatt, ekki..., ekki... Kannski er einhver hjá útlendingaeftirlitinu að safna ljótum passamyndum og ákvað þess vegna að semja reglurnar? Eða þeim þyki niðurdrepandi að sjá glaðlegar passamyndir?


Nokkrir stærðfræðinemanna sem eru á 5. önn (ég var metin inn á 5. önn og rúmlega það) hittast reglulega til að elda saman og ég fékk að taka þátt í eldamennskunni í síðustu viku. Það var virkilega gaman. Svona Stiguls-fílingur eiginlega. Klassísk tónlist í blasti, pasta, pizza, TeX-aðir brandarar og gripið í spil. Hér hafa þau ekkert eiginlegt nemendafélag svo svona einkaframtak er alveg nauðsynlegt, a.m.k. fannst mér alltaf Stigull vera lífæðin í stærð- og eðlisfræðináminu heima.


Daginn eftir var ég reyndar mjög þreytt - við sátum við spilin til að verða þrjú aðfaranótt miðvikudags og á miðvikudögum er ég í fyrirlestrum frá hálf átta til hálf sex. Bara smá hlé í hádeginu til að skjótast í mensuna. Það var samt, undarlegt nokk, ekki erfiðast um morguninn því að kennarinn í dulmálsfræði setur efnið svo skemmtilega fram (hvernig væri sosum annað hægt?) og fyrsti fyrirlesturinn í stýrifræðinni innsiglaði að það var gott að ég skipti yfir í þann kúrs. Þvílíkur snilldar prófessor! Hann skemmtir sér greinilega við að kenna og alltaf þegar spurning skaust upp í kollinn minn þá búmmtsjagg spurði hann nákvæmlega þeirrar spurningar og hefði enginn svar við henni, þá svaraði hann henni líka. Svona á þetta að vera.


Helgin fór aðallega í lestur og verkefnavinnu. Ein stelpnanna í stærðfræði bauð mér að taka þátt í eldamennsku með sniðugu fyrirkomulagi. Þannig er að í WGinu hennar (WG = Wohngemeinschaft = allt frá tveimur upp í tug stúdenta búa saman, hver hefur sérherbergi en eldhús og bað er oftast sameiginlegt) eru nokkrir sem eiga heima það langt í burtu að þau fara ekki heim um hverja helgi og þá er auðvitað upplagt að skiptast á að elda og borða saman í hádeginu. Við Viola elduðum á laugardaginn og svo tók næsti við daginn eftir. Þetta heldur svo áfram uns allir hinir hafa eldað, þá er röðin aftur komin að mér.


Um næstu helgi ætlum við Anika að elda plokkfisk og taka þátt í alþjóðlegri "kvöldmáltíð á hlaupum". Við förum fyrst eitthvert í heimsókn til að fá forrétt, þjótum svo í eldhús Aniku til að elda plokkfisk og taka á móti fjórum hlaupandi kokkum í aðalrétt, tökum til í hendingskasti, skjótumst í eftirrétt á enn annan stað og að lokum verður öllum þátttakendum boðið staup af einhverju þýsku brennivíni. Flestir elda eitthvað frá eigin heimalandi svo þetta verður nú heldur betur spennandi.


Hingað kom nýr tími á sunnudaginn, svolítið ruglandi en Lára Hannesar og fleiri voru nú búnir að vara mig við. Þá vakna flestir örugglega í björtu en fara þá aftur á móti heim í kolniðamyrkri. Á sunnudagsmorguninn skrapp ég í sund til að koma úrillu vöðvunum í betra skap. Ég veit svei mér ekki hvort það var blautara ofan í lauginni eða á leiðinni heim. Þvílíkt skýfall! Þegar ég kom inn myndaðist strax pollur á gólfinu og samt var ég mjög fljót að þjóta inn á bað til að vinda úr fötunum og þurrka þau. Þrátt fyrir aðvaranirnar munaði mjóu að ég legði klukkustund of snemma af stað í WG-hádegismatinn. Meðan við borðuðum kom annað skýfall, haglél og nokkrar þrumur og eldingar. Daginn eftir var síðan fyrsti dagurinn þar sem ég þurfti virkilega á flíspeysu að halda og nú blása kaldir vindar.


Í gærkvöldi héldu WGin þrjú í húsinu þar sem Viola á heima innflutningspartý. Ég hafði verið vöruð við að þýsk partý væru frekar frábrugðin þeim heima (sumir fullyrtu hreinlega að þau væru leiðinlegri), en segjast verður að þetta kom skemmtilega á óvart - var bara eins og partý gerast hvað best heima. Sumsé komið fram mótdæmi...


Eiginlega vorum við úr stærðfræðinni með lítið partý innan í stóra partýinu. Það voru auk Violu og mín þau Katja röndóttrasokkabuxnasystir mín, Christina sem kann öll lög utan að (sérstaklega Ärzte), Susann nýi sænskutandeminn minn, Dirk, Mica, Stefan og Matti - sá síðastnefndi var í Finnlandi í sumar svo það var meira að segja salmiakkiskot á boðstólum, almennilegt.


Í dag er frídagur kenndur við Martein Lúther. Gott að eiga rólegan dag með kirkjuklukknahljóm eftir innflutningspartýið. Ennþá er eftir að ákveða prófafyrirkomulag í kúrsunum mínum en annars er skipulagsmálum lokið. Vinnuálagið er svipað og heima en ég ætla samt að reyna að stefna á ferð til Dresden bráðlega - það gengur jú eiginlega ekki (sérstaklega þegar Dresden er svona nálægt) að hafa bara séð aðaljárnbrautarstöðina - og það meira að segja á hlaupum!

Engin ummæli: