15 október 2006

Vrrrúmmm! Tíminn líður hratt að vanda...

Síðasta helgi leið skjótt, full af vangaveltum um kúrsaval og diplómukerfið. Það dugði til að gera mig ærlega ringlaða svo á endanum var haldið í gönguferð út í skóg til að hreinsa kollinn svolítið. Á leiðinni komst ég að því að fjöllin eru langt í burtu, annað en ég hélt, eða a.m.k. nógu langt til að á engjunum virðist allt flatt að sjá umhverfis Freiberg.

Gullna hliðið í Dómkirkjunni

Þetta er annars hinn indælasti bær og kunnugir segja mér að hann sé mjög vel varðveittur. Sprengjur féllu einungis kringum járnbrautarstöðina, utan við gamla bæinn og því hefur bæjarmyndin haldist þannig að mörgum finnst þeir stíga aftur í liðna tíma við komuna hingað.

Við dómkirkjuna

Eftir mikla frústrasjón fundust með góðri hjálp frá doktorsnema og herra prófessor Hebisch námsleið að nafni stærðfræðilegar aðferðir tölvunarfræði, aukafagið tölvunarfræði og hin ýmsu námskeið. Nú á ég því bara eftir að finna út hvort hverju námskeiði skuli lokið með skriflegu prófi, munnlegu prófi eða æfingaskírteini - en þar um gilda ósköpin öll flóknar reglur.

Peterstraße

Fyrir þá sem hafa áhuga, þá snúast námskeiðin um eftirfarandi: næmnigreiningu bestunarverkefna, dulmálsfræði, Java, margmiðlun og C++, tölvuarkitektúr, gervigreind og Prolog, rúmfræðilega líkangerð og teiknikerfi.

Stærðfræði kemur víða við sögu - rannsókn á dómkirkjuloftinu

Hér er byrjað á C/C++ og nokkru seinna haldið áfram með Java svo ég sé allmikið eftir því að hafa ekki troðið tölvunarfræði 2 inn í annars þéttskipaða dagskrána heima. Í dag fóru til að mynda 8 klukkustundir í C/C++ kennslu á skyndibitaformi hjá einum af hópfélögum mínum í margmiðlunarkúrsinum!

Aðalgosbrunnurinn í Stadtpark

Haukur og Angelika komu í heimsókn á mánudaginn og þá var glatt á hjalla. Eftir stutt stopp hér á stúdentagörðunum héldum við í Stadtwirtschaft til að bragða ekta sveitamat, öl og snafs héðan og úr næsta nágrenni, en til nágrennisins teljast m.a. svæði í núverandi Tékklandi. Verst að ég gleymdi myndavélinni alveg þennan daginn!


Þegar námskeiðin voru komin á hreint skráði ég mig í frönsku fyrir byrjendur og lærði að segja kaffihús og fleiri ágæt matarorð fyrsta daginn. Einnig var planið að skoða nokkra íþróttatíma á þriðjudags- eða miðvikudagskvöld en þeir reyndust allir vera hálftíma gönguleið frá stúdentagörðunum og í myrkrinu á kvöldin hreinlega treysti ég mér ekki til að finna íþróttahöllina. Bæði eru götur illa merktar og götulýsingin hér þannig að hún myndi gleðja margan stjörnuskoðunaráhugamanninn - sumsé litlar ljóstírur á stangli.

Horft yfir Freiberg

Leitin að hjóli var því hert til muna og skilaði mjög svo ánægjulegri niðurstöðu á miðvikudaginn - 21 gíra notuðu hjóli frá gamalli konu (hjólið er sem nýtt) fyrir um 6000 krónur. Ansivel sloppið það. Anika kom síðan með hjól til að lána mér sama kvöld (obbosí, það verður þá gestahjól?) þannig að þetta hefði allt bjargast en jæja, nýja gamla hjólið er með ýmsum aukabúnaði á borð við ljós, pumpu, bretti og bögglabera og því svolítið öruggara svona á nóttunni.


Nú fer reyndar veturinn að nálgast og þá er víst ekkert hægt að nota hjól fyrir snjó - sjáum til hvort það er rétt, ég dett vonandi ekki of oft á hausinn við snjóhjólatilraunirnar! Það væri reyndar gott að geta hjólað í vetur því það er meira en 15 mínútna (frímínútna) gönguleið milli margra húsanna og námskeiðin sem raðast á stundaskrána mína eru öll þvers og kruss um bæinn.

Þarna uppi í loftinu voru alvöru hljóðfæri en nú eru þau á safni og eftirlíkingar uppi

Í gær lá leiðin í Maríudómkirkjuna ásamt nokkrum öðrum erlendum nemum. Þar fengum við að hlýða á áhugaverðan fyrirlestur á saxnesku og stutta orgeltónleika. Saxneskan er ansistrembin. Ég hreinlega skil ekki hvað kennararnir sem tala saxnesku segja! En leiðsögumaðurinn talaði hægt svo flest var skiljanlegt og við sem eitthvað skildum þýddum fyrir hina það markverðasta í lágum hljóðum á háþýsku eða ensku.

Silbermann-orgelið í Dómkirkjunni

Frá kirkjunni lá svo leiðin í Johannisbad sundlaugina. Sú er heldur betur fín og dýr eftir því. Selt er ofan í eftir klukku (dýrara eftir því sem lengur er dvalið) og frekar erfitt að synda. Það er í það minnsta reynsla mín að mjög margir Þjóðverjar líti á sundlaugar, jafnvel afgirtar brautir, fremur sem leiksvæði en aðstöðu til að synda.

Johannisbad

Eftir Ikea-ferð er annars orðið heldur betur heimilislegt hér í herberginu. Ekki einasta er eldhúsið orðið dulitlu ríkara af búsáhöldum (nú eru t.d. til glös og pottur) heldur hafa gluggarnir fengið þetta fína sturtuhengi til að skýla sér og mér fyrir forvitnum augum, en gluggarnir snúa beint út að götunni og íslenski fáninn, sem ég hengdi fyrir gluggann í bríaríi, gerði fátt annað en draga meiri athygli að glugganum...


Yoann kom líka í heimsókn í vikubyrjun svo nú er komin upp hin fínasta aðstaða fyrir gesti: svefnpoki, koddi og dýna sem breyta má í hægindastól - verið hjartanlega velkomin!


Bókasafnið hér er með ólíkindum. Þar fylla hillur ógrynni af titlum og helstu kennslubækur standa þar í tugatali svo allir geti nú haft eintak við höndina. Þetta var ég ekki lengi að nýta mér og á sá rúmlega hálfi hillumetri af bókum sem tókst að ferja yfir götuna stóran þátt í að gera herbergið að heimili - enda erfitt fyrir bókaorminn mig að ímynda sér heimili án bóka.


Bráðum verða veggirnir líka skreyttir póstkortum sem berast hingað eitt af öðru frá henni Ölmu. Hjartans þakkir fyrir það! Heldur betur skemmtilegt því að auk þess að færa mér Íslandsmyndir á veggina, þá eru á hverju korti nokkur orð á stangli ásamt númerum - orðapúsluspil sem leysist með síðasta kortinu - gamangaman! Nú er bara að krossa putta um að kortin berist mér öll. Póststarfsfólkið skilur nefnilega ekki póstnúmerið 9599 og hefur límt límmiða á kortin tvö sem borist hafa þar um að óhemjumikilvægt sé að skrifa núll á undan: 09599 til að þau viti hvert á land pósturinn eigi að berast, jah, ekki er öll vitleysan eins?

Engin ummæli: