22 október 2006

Reiknistofnun er best

Nú blása hér hlýir vindar, trén eru gyllt í sólinni og krökkt af reyniberjum. Við David erum handviss um að mamma hans hafi sent honum sól í pósti því að hann kemur frá einum sólríkasta stað Evrópu, Murcia á Spáni. Það verður þá einhver bið á vetrinum.

Haustlitir út um gluggann

Dagurinn hófst handan götunnar í ErdAlchimistenClub. Þar bauð stúdentaráð upp á árdegisverð (árbítur+hádegisverður) öllum nýnemum að kostnaðarlausu og þeir "gömlu" þurftu ekki að grynnka verulega á buddunni heldur. Núna sit ég yfir stýrifræðiheimadæmum því að eftir allt reyndist kúrsavalið ekki alveg standast reglur. Gervigreind fær að bíða næsta vetrarmisseris og margmiðlun víkur fyrir tölvunetum.

Við Daniel

Þessa vikuna komst skólinn á fullt skrið svo ég þarf svolítið að herða á mér til að ná þessari kúrsabreytingu. Glósur úr tímum sem ég missti af fæ ég hjá stærðfræðikrökkunum sem eru með mér á 5. misseri. Þau eru öll mjög samheldin og hjálpfús og hefði þeirra ekki notið við hefði ég áreiðanlega ekki uppgötvað þetta kúrsavíxl, hvað þá skilið prófakerfið!

Við Untermarkt

Í gær langaði mig mikið til Chemnitz á tónleika Wedding & Funeral Band með Goran Bregovic. Pantaði miða fyrir tveim vikum en komst svo að því að síðustu lestir frá Chemnitz til Freiberg fara rétt fyrir klukkan ellefu á kvöldin! Ekki gaman að missa af helmingnum af tónleikunum... og ekki heldur gaman að bíða fram til hálf sex um morgun eftir næstu lest. Ég verð greinilega að finna mér einhverja félaga sem eiga bíl og hlusta á svipaða tónlist - nú eða kynna mér betur farfuglaheimili. Hmmm... kannski það hefði verið lausn í gær!

Sofið á lestarstöð...

Kvöldið varð eftir sem áður hið ágætasta. Stillti Emir Kusturica í botn, dansaði við eldamennskuna og fór á litla írska tónleika með David, Miguel, Hale, Juliu, Ulrike, Söndru og Martin. Tveir fyrstu eru frá Spáni, næsta frá Tyrklandi, þýski tandeminn þeirra, jarðeðlisfræðistelpa sem ég kynntist í Ikea-ferðinni, vinkona hennar og strákurinn sem kenndi mér grunninn í C/C++ í síðustu viku.

Ulrike og Sandra

Julia

Hér byggjast fyrirlestrar oft á því að maður prenti út fyrirlestranótur frá kennurunum en það að finna prentara er enginn hægðarleikur! Fyrst þarf að útvega sér nauðsynleg aðgangsorð í tölvuverin. Hér er systurstofnun Reiknistofnunar kölluð URZ og þar fékk ég aðgang að nokkrum tölvuverum en öll án prentara. Í stað þess að allt tölvunetið sé rekið af URZ sér tölvunarfræðideildin um hluta þess og tvær aðrar deildir um aðra hluta. Kerfið er fyrir vikið algjör kaós. Leiðbeiningar á netinu eru á víð og dreif, gamalt innan um nýtt og jafnvel þýsku krakkarnir skilja þær ekki - stenst engan veginn samanburð við Reiknistofnun heima!

Dansandi eldamennska skilaði risotto namminamm

Eftir heimsóknir á þrjár skrifstofur undir dyggri leiðsögn frá tölvunarfræðikrökkunum (hver skrifstofa er opin tvo til þrjá klukkutíma á viku, engin á sama degi) hafði ég loks hlotið öll nauðsynleg aðgangsréttindi og fann prentara í einu tölvuveranna. Hann var bilaður. Til að gera langa sögu stutta þá endaði ég á að reikna út prentkostnað næstu tvö árin og komst að því að ódýrast væri að fjárfesta hreinlega í prentara. Ekki beint það umhverfisvænasta kannski en...

Að vísu varð ekki litaprentari fyrir valinu en þessi mynd er fyrir Auði

Um miðja viku var eins konar setningarhátíð háskólans haldin. Þar léku krakkar úr tónlistarskólanum skemmtileg jazzlög og kennarinn þeirra minnti mig mjög á Jón Hrólf. Aðalfyrirlesturinn um loftslagsbreytingar var áhugaverður en þegar hinar ræðurnar gerðust leiðinlegar las ég dulmálsfræði.

Alte Mensa salurinn

Á föstudaginn átti prófessor Sprößig margs konar afmæli, starfsafmæli og fleira og var af því tilefni blásið til hátíðarfyrirlestra. Fyrirlestrarnir voru í anda stærðfræðiþinga mjög "heilaútvíkkandi" og umfjöllunarefnið flókið en áhugavert. Sprößig þessi hefur lengi staðið framarlega í rannsóknum á sviði Clifford-greiningar og það var því aðalumfjöllunarefnið. Ekki alveg mitt svið en samt gaman að fá smá nasasjón af þessu. Kannski hefur einhver áhuga á að kíkja á nýju tvinnfallagreiningarbókina eftir hann - hún ku vera mjög góð.

Ofurpíið frá Andreasi komið á skjáinn

Um helgar minnkar svolítið lífið í bænum því margir stúdentar halda heim til föðurhúsa. Það skondna er að þau sem ekki fara fá mörg hver heimsókn frá foreldrum eða öfum og ömmum sem mæta vopnuð hreingerningagræjum og (án gríns) taka að sér þrif og þvotta fyrir blessuð börnin. Foreldrarnir sáu líka um að standsetja ófá herbergin hér í byrjun misserisins, skutlast í Ikea og kaupa í matinn. Magnað!

Tré að borða hús

Jæja ég get kannski ekki sagt mikið - bjó jú heima þegar ég var í HÍ en hvað segið þið krakkar sem búið á görðunum eða öðru leiguhúsnæði, mætir fjölskyldan um hverja helgi til að þrífa og fylla ísskápinn ykkar? Ég hélt ekki...


Enn hefur ekki tekist að finna blokkflautuspilahóp. Á föstudaginn prófaði ég að mæta á kóræfingu a capella kórs. Þarna voru góðir söngvarar og indælt fólk en þau virtust velja verkin aðallega til að hafa metnaðarfulla dagskrá - gleðin gleymdist - svo ég efast um að halda áfram þar. Þá held ég bara áfram að gleðja nágrannana með góli mínu og spileríi eftir hentugleikum, hver veit svo nema einhver spilafélagi finnist af tilviljun?


Prófaði jóga á þriðjudaginn og það var frekar mislukkað (kennslukonan ekki alveg með æfingarnar á hreinu) og í þrekhringstíma á fimmtudaginn virtist kennslan aðallega snúast um að niðurlægja þá sem gátu minnst. Skipulagið á háskólaíþróttunum er svolítið flókið hér. Í stað þess að ég fái eitt almennt kort og geti mætt á alla opna æfingatíma þarf að kaupa kort sem gildir vikulega út misserið fyrir einhvern ákveðinn stakan tíma og það er kapphlaup um flest kortin. Ætli ég geri ekki bara jógaæfingar heima, athugi hvort til séu lausir tímar í badminton eða karate í næstu viku og haldi áfram að mæta á sundæfingar. Fór þangað í síðustu viku, fékk laust mánudagskvöldakort og þjálfarinn er virkilega góður.

Jógakennarinn komst aldrei á flug...

Framundan er (vonandi) síðasta skipulagsvikan. Á búrókratíu-planinu er m.a. að redda löggildri passamynd, fara í útlendingaeftirlitið, koma prófum og námsferilsáætlun á hreint og redda bókum fyrir nýju kúrsana tvo. Skemmtilegt...

Ef maður er það sem maður borðar oftast, þá mun ég umbreytast í brauð með áleggi

Af kortunum hennar Ölmu er það að frétta að sex stykki af sjö hafa ratað sína leið! Veggirnir mínir brosa sínu breiðasta með myndir að heiman til að skýla skítaskellunum eftir hann herra Kafka sem síðast bjó hér. Sá virðist ekki alveg hafa vitað hvað þrif snúast um og líklega fjölskyldan í of mikilli fjarlægð til að mæta með tuskur, fötu og skrúbb um hverja helgi.

Hlæjandi hestakort á kátum vegg

Engin ummæli: