06 október 2006

Það vantar spýtur og það vantar sög...

Föndurhnífapörin mín voru fljót að eyðileggjast. Milli biðraða var því haldið á stúfana í leit að Góða hirði Freiberg-borgar. Sá reyndist hér heita því óspennandi nafni An- und Verkauf, sem myndi líklega útleggjast Kaupum og seljum á ástkæra ylhýra. Þar biðu hnífapör í lange baner og herðatré í kaupbæti. Í mensunni í dag sá ég síðan auglýsta Ikea-ferð fyrir nýnema, stórsniðugt! Tjah... nema kannski fyrir budduna?


Mér telst til að tími í biðraðum hafi verið um 16 klukkustundir í þessari viku. Hins vegar hefur tala eyðublaða löngu tapast. Hjá útlendingaeftirlitinu reiddi ég til að mynda fram um 11 blöð, veitingu landvistarleyfis til stuðnings, og fékk þá til baka 5 blöð til útfyllingar heima við. Þeim er ansi annt um að mér leiðist ekki um helgina, blessuðum. Einnig var breitt út fyrir mig gríðarstórt plakat sem sýndi fram á að passamyndin mín stæðist ekki staðla. Jahhananú.


Anika, stelpan sem talar íslensku, er alveg frábær. Kannski getur hún meira að segja reddað mér hjóli, en þess kostagrips og hjólatöskunnar sakna ég mikið að heiman. Planið er að skiptast á heimsóknum sem oftast í vetur og ekki spillir þar fyrir að við búum á stúdentagörðum við sömu götu. Gamangaman.


Í röðunum hef ég hitt fyrir fólk af hinum ýmsu þjóðernum. Nefna má löndin Mongólíu, Indónesíu, Tyrkland, Ghana, Pólland, Kamerún, Rússland, Víetnam, Spán og Mexíkó. Í ljós kom að flest þeirra voru með mentor, stúdentasjálfboðaliða, sér til hjálpar fyrstu dagana. Klúður að fatta ekki að þeir væru til hjálpar reiðubúnir! En þau sögðu mér líka frá alþjóðakvöldum á fimmtudögum hér handan við götuna. Þar var húsfyllir og glatt á hjalla við pylsugrill í gærkvöldi. Hver veit nema í þessu félagi erlendra nema geti ég vasast í skipulagningu svipað og með Nordklúbbnum? Sé til með það...


Líklega hefur enginn Íslendingur verið við háskólann hér áður, eða þá alla vega ekki svo nokkur muni það langt, segja mér þeir sem mest starfa með erlendum nemum. Fólk missir iðulega hökuna niður í gólf þegar það heyrir nafnið mitt, léttist aðeins á því brúnin þegar það fær að kalla mig Bea og svo hefst spurningaflóð. Margir hafa aldrei heyrt landsins getið en hinir vilja kanna hvort upplýsingar sem þeir hafi fengið séu réttar.


Sem dæmi um það sem kennt er í skólum um Ísland er það að á Íslandi sé risastór bananaplantekra knúin jarðvarma og að hún nái að sjá öllum landsmönnum fyrir banönum! Þetta þótti mér ákaflega athyglisvert að heyra (og átti raunar þónokkuð erfitt með að halda andlitinu líka).


Í næstu viku verður væntanlega minna um biðraðir og meira um fyrirlestrarsali. Prófessorinn sem sér um að meta prófið mitt frá HÍ gaf mér nánast frjálsar hendur við námskeiðaval og því er hið gríðarstóra verkefni að lesa gegnum kennsluskrána og útbúa námsáætlun næst á dagskrá. Á alþjóðakvöldinu hitti ég, mér til mikils léttis, strák sem var að klára diplómu í tölulegri greiningu og ætlar að vera mér innan handar við kúrsaval. Munar öllu að hafa einhvern þessy kunnugan við höndina því kennsluskráin hér segir oft lítið annað en nafn námskeiðanna, já og hvað segir það svo sem?


Haukur frændi og Angelika ætla að kíkja í heimsókn á mánudaginn ásamt Leó Trotzky. Fyrir skemmtilega tilviljun eru þau nefnilega á ferð hér um nágrennið til að heilsa upp á gamla vini og kunningja sem búa í Chemnitz. Það verður gaman að hitta þau aftur - orðin næstum þrjú ár síðan ég hitti Angeliku og Leó síðast.


Set upplýsingar um heimilisfang og þess háttar hér til hliðar bráðlega.

Engin ummæli: