03 október 2006

Gleði, gaman og ráð undir rifi hverju...

Rétt í þessu fékk ég merkilegt nokk aðgang að interneti hér á stúdentagörðunum - merkilegt? Jú, því að í dag er þjóðhátíðardagur Þjóðverja og því alls ekki sjálfsagt að slíkur munaður sé veittur! Strákurinn hér á hæðinni fyrir ofan mig sér um netaðgang í sjálfboðavinnu, var mjög almennilegur og minntist ekkert á þjóðhátíðardaga heldur bara reddaði málunum.

Kannski ég byrji nokkurn veginn á byrjuninni.

Síðustu dagana fyrir brottför var ég á stöðugum þeytingi við útréttingar, vina- og fjölskyldufaðmlög. Fór meðal annars í æðislegan SUNNUdagsmat til Baldurs, Birte, Matthíasar og Bjarka á MIÐvikudegi, hádegismat til afa og ömmu, afmælisboð til Láru, ... já og svo mætti lengi telja, en að endingu kom síðan hrúga af fólki í heimsókn daginn fyrir brottför og ástundaði gleði og gaman af hjartans lyst. Takk kærlega fyrir komuna, kveðjur, blóm, gjafir, gleðina og gamanið, þetta var alveg allertiders!

Líney og Siggi komu mér og mínu hafurtaski í rútuna áleiðis til Keflavíkur á föstudaginn. Farangurinn varð allt of mikill, eins og svo sem við var að búast, og endaði það með því að ég neyddist til að taka leigubíl á áfangastað í Berlín í stað almenningssamgangna! Úfff, lenti þar á bílstjóra sem malaði um eigið ágæti, reyndi að selja mér bótex-hrukkukrem, ók hægt, valdi langa leið og prófaði að auki hvort hann gæti nú ekki svindlað svolítið á mér. Einhvern veginn tókst að lækka gjaldið sem hann setti upp en svona gat þetta nú ekki gengið til lengdar! Daginn eftir fann ég því rúllutösku á spottprís til að koma öllum litlu handfarangursbögglunum, sæng og fleiru í á leið minni með lestinni til Freiberg.

Berlín var iðandi að venju, full af menningu og list á Art Forum, en eitthvað lítið var stundað af listinni að þessu sinni - heilsaði þess í stað upp á bakgarða, synti í skógarvatni, andaði að mér Berlín og borðaði góðan mat bæði hjá monsieur Vuong og ofurelskulegu fjölskyldunni von Bauer.

Ótrúlegt en satt, þá rifnaði nýja spottprístaskan ekki í tætlur undan þunga og rúmmáli alls sem í og á hana fór. Þökk sé henni og hjálp góðra vina komst ég áfallalaust milli neðanjarðarlesta, S-vagna og lesta í Berlín og Dresden. Í Freiberg sendi hjálpsamt fólk mig í næstum klukkutíma ferðalag með vitlausum strætó og strætóbílstjórinn ráðlagði mér að fara út svona um 500 m áður en ráðlegt var svo það var ansiþreyttur ferðalangur sem kom á stúdentagarðaskrifstofuna klukkan tólf - akkúrat þegar klukkutímalangt hádegishlé hófst.

Þessi hádegishlé eru alveg svakaleg. Hver skrifstofa hefur sinn opnunartíma og er þar yfirleitt einungis um ákveðna daga vikunnar að ræða, allt frá einum degi upp í mesta lagi fimm, og mismunandi tímar fyrir hvern dag - algengast er 9-12 og/eða 13-15. Haldiðaðsénúvitleysa!

Hér á stúdentagörðunum er fólkið mjög almennilegt og reddaði herberginu umsamda án þess að krefjast allra pappíra sem um er kveðið á stundinni. Hinar skrifstofurnar reyndust erfiðari viðfangs. Til dæmis kröfðust allir þess að ég hefði undir höndum bankareikning og þegar ég eftir mikið þref kom í bankann, þá var beðið um pappírana sem ég átti að fá á hinum skrifstofunum! Úffpúff. Þegar hér var komið sögu var ég alveg búin á því og fór hreinlega að gráta (!) þrátt fyrir að starfsfólkið væri síður en svo óvingjarnlegt. Þau reyndust síðan alveg geta útvegað bankareikninginn án allra pappíra, ég þarf bara að koma með þá sem fyrst, eins og hjá stúdentagörðunum.

Næstu daga væri óneitanlega afar hentugt ef ég gæti klónað sjálfa mig í eins og þrennt eða fernt, svo margar eru skrifstofurnar á hinum ýmsu stöðum, sem skal heimsækja "sem fyrst", eða öllu heldur "helst í gær". En það þýðir víst ekkert annað en anda djúpt og synda af stóískri ró gegn um bið í röðum, pappíraflóð og hringavitleysu bürókratíunnar þýsku.

Það er á margan hátt mikil mildi að þjóðhátíðardagurinn er í dag, því þá gefst tími til að setjast aðeins niður og lesa gegnum þetta helsta í pappíraflóðinu, fremja dulitla aðgerðagreiningu (í hvaða röð skuli heimsækja hinar ýmsu skrifstofur, finna opnunartíma, ...) og koma sér fyrir í herberginu. Leigusamningurinn einn og sér er t.d. nítján þéttskrifaðar stofnanaþýsku blaðsíður og tók mig um tvo tíma að lesa hann í gegn, til að fá upplýsingar um opnunartíma skrifstofanna reyndist eina leiðin að fara þangað sem skrifstofurnar eru og lesa utan á þær og að auki hef ég dundað mér við að koma saman og lesa um hið stórskemmtilega IQ-ljós (takk aftur G+H+D+M+Í+L+H+A+F+D+B+H!).

Hér er annars mjög íslenskt veður, rigndi stanslaust í allan dag. Skrifstofuleiðangurin minn skilaði því rennblautum fötum auk opnunartímanna - held að regnhlíf sé alveg bráðnauðsynleg á "það sem vantar"-listann.

Þar sem ég hafði rétt svo tíma til að kaupa brýnustu nauðsynjar (mat og klósettpappír) í gær, þá er ímyndunaraflið nýtt í þaula fram að næstu (vonandi bráðlega) búðarferð - má þar nefna hálfa eplasafafernu sem skál og pappaspjald í plastpoka sem skeið. Eftir nokkur slög með vænni súrgúrkukrús á járntitt gafst ég samt upp á að opna dós og fékk lánaðan dósaopnara hjá nágrönnum mínum. Það er samt alveg ótrúlegt hvað ég hef komist af með skátakuta sem eina eldhúsáhaldið, verst að það er ekki hægt að hita vatn í te með honum líka!

Nú í kvöld kom síðan stelpa og bankaði upp á. Sú reyndist tala íslensku og þar sem hún vissi að hér væru margir erlendir nemar hafði hún farið á stúfana og fengið heimilisfangið mitt á háskólaskrifstofunni! Það var nú skondið og skemmtilegt. Einnig er rakst ég á búðarglugga fullan af bókum um Ísland og eftir íslenska höfunda, greinilega nóg af Íslandsáhugafólki!

Æjæ, hér er víst komin enn ein löng og myndalaus færslan! Vonandi hef ég tíma fyrir myndapot í næsta pistli... annars látið þið í ykkur heyra, ekki satt?

Engin ummæli: