20 september 2006

Spennufall, hósti og hetjudáðir

Það hlaut að koma að því - spennufall! Fékk svæsið lungnakvef, hósta á við heilt berklahæli og komst því ekki með í vinnuferð um Austurland, Norðurland eystra og suður yfir Kjöl. Spæling.



Besta ráðið til að verða frísk kom frá Vöku: "Bjarnheiður, hættu að reykja!". Þar sem ég hef aldrei reykt heldur einungis orðið fyrir óbeinum reykingum á skemmtistöðum borgarinnar hafði ég ansistórt verkefni fyrir höndum og ákvað að það yrði að bíða betri tíma, enda norrænt samstarf fram undan í massavís!

Ævintýrið hófst í Helsinki - borginni þar sem við Alma umbreyttumst í gamlar konur. Ekki einasta vörðum við öllum okkar frítíma í leit að fötum á "barnabarnið" heldur tókum við okkur lúridúr við hvert tækifæri og þá einkum eftir matinn.

Eins og kom fram hér að neðan sigldum við til Eistlands til að komast í kynni við rússneska bændaalþýðu. Markaður hennar innan um sovétkumbaldablokkir heillaði miklum mun meira en gamli bærinn og túristablóðsugurnar. Áhugavert væri í því sambandi að gera fall yfir verðlagið í Tallin - byrja þá í gamla bænum og draga línu í átt að markaðnum. Skyldi það verða veldisfall?

Við vorum trúar templurunum og keyptum ekkert áfengi í Tallin. Sömu sögu var ekki að segja af samferðamönnum okkar sem fylltu bíla, vagna, poka og maga eins og þeim framast var unnt. Skondnast var "fína fólkið" með gríðarstórar fisléttar ferðatöskur í morgunsárið sem þyngdust ansimikið eftir dagslangt ferðalag - áttum við að halda að þær væru fullar af fötum? Hver fer með 200 lítra af fatnaði í eins dags ferð? Haha, sjálfsblekking!

Megintilgangur dvalar okkar var að lækka meðalaldurinn og hvetja til virkari þátttöku ungliða í höfuðborgarmótinu á næsta ári. Það verður haldið í Reykjavík og jafnvel hugmyndir uppi um að hafa eitthvað fyrir yngra fólkið samhliða. Eldra fólkið var upp til hópa mjög skemmtilegt - danskar blómarósir voru í miklu uppáhaldi og norskir sjentilmenn reyndust yfir sig ánægðir með fyrirhugaða "trúboðsför" Nordklúbbsins til Oslóar.

Þemað í fyrirlestrunum í Helsinki var "Norðurlönd og lýðræði" en hefði réttilega mátt kallast "Skandinavía, Finnland og lýðræði" því Ísland virtist ekki vera til í huga fyrirlesaranna, hvað þá Alþingi! Ég gat ekki á mér setið frekar en fyrri daginn og gerði athugasemd við þetta í fyrirlestrahléinu. Upp frá því var ávallt kjáð framan í okkur þegar Ísland bar á góma, nú eða við fengum bank, stapp, hnippingar, glott, glens og grín til að vekja athygli á því að Ísland væri jú líka með - eða alla vega stundum, já svona upp á punt.

Skemmtilegasti partur Helsinkiferðarinnar var án efa leiðsögutúr um borgina. Konan sem fylgdi okkur í rútunni talaði alveg yndislega finnlands-sænsku og valdi mjög skemmtilega staði til að sýna okkur: fjallgrafna kirkju, Sibeliusar-minnismerkið, strendur, gamla bæinn og ólympíumannvirki.

Önnur skemmtileg ferð var dagur í Borgå. Þar hafði dómkirkjan að vísu brunnið og sökudólgurinn verið sakfelldur tveim dögum áður, en heimili og garður Runeberg-fjölskyldunnar og leiðsögn um styttur eins sonar herra Runebergs (herra Runeberg var ljóðskáld og skilgreindi Finna sem þjóð) var alveg framúrskarandi og fleytti okkur gegnum tilraunir monsieur Rasks til að drepa okkur úr leiðindum.

Rask þessum tókst að halda ógnarlanga óvelkomna fyrirlestra við hvert tækifæri allt frá laugardagskvöldi fram á sunnudagseftirmiðdag. Við hefðum áreiðanlega smyglað honum með til Íslands og kynnt sem nýja töfralausn við svefnleysi ef aukaverkanirnar hefðu ekki reynst svona slæmar: líffærin emja af sársauka þegar hann hefur upp raust sína og aukast þessi áhrif við hverja áheyrn!

Eins og það sé ekki nóg þá á hann tvo vini - slepjulega skúlptúristann Toikka, sem nánast var slímugur af falsi og sleikjuskap, og ungherrann Gulbuxa, sem lagði sig fram um að okkur liði illa við hvert tækifæri. Við hreinlega skildum ekki hvernig mögulegt var að safna þarna saman þremur verstu-eiginleikum-skrýddu-mönnum Finnlands, því ekki erum við vanar að fá svona megna óbeit á fólki almennt, þvert á móti.

Eftir prýðisvelheppnaða ferð til Helsinki tók önnur, ekki síðri, við til Oslóar. Við höfðum tæplega tvo sólarhringa til undirbúnings og nýttum þá í þaula. Oslóarferðin var, ef svo má segja, barn Nordklúbbsins - og viðlíka ferð til útlanda með þátttakendum frá nokkrum löndum höfum við aldrei ráðist í.

Að íslenskum sið reddaðist allt gleðilega á síðustu stundu. Við höfðum fengið næturgistingu fyrstu nóttina í aðal hórumangara- og dópistahverfi Oslóborgar, eða, ég vona a.m.k. að þetta hafi verið aðalhverfið, því annars er ástandið hræðilegra en skelfilegt. Daginn eftir fluttum við okkur í sveitasælu sumarhúsanna í Bogstad og ég fékk að reyna gestrisni Norræna félagsins í Osló við lokahnykk undirbúnings helgarinnar.

Í hvítu höllinni, þar sem félagið er til húsa, voru mér útveguð ekki einungis tjald, dýna og teppi án fyrirvara heldur einnig ljósritunarvél, vinnutölva og hádegisverður á nóinu! Ekki amalegt það. Meðan ég prentaði dagskrá og dældi út auglýsingum um norrænt stuttmyndakvöld, málþing og vinnusmiðjur drógu Alma og félagar björg (grill- og morgunmat) í bú. Allir fundu leiðina til Bogstad og við krýndum Jens nýjan Mariekikse-meistara: átta kex snerust í gini hans án þess að brotna.

Föstudagurinn var tekinn snemma, gengið upp á fjallið að hvítu höllinni og sest að hlöðnu morgunverðarborði. Þar urðu fagnaðarfundir þegar við Alma hittum tvo af norsku sjentilmönnunum aftur. Ekki nóg með það heldur ræddi ég m.a. við mann sem stendur fyrir íslenskum kvikmynda- og tónlistarhátíðum í Osló og konu sem vildi fá ungliðahreyfingarnar til aðstoðar í baráttu fyrir bættri aðstöðu og minni fordómum í garð nýbúabarna í grunnskólum á Norðurlöndum.

Upp hófust svo tveir fyrirlestrar að nafni "Norræn og norsk sjálfsímynd", hvar landið vort Ísa virtist enn á ný ekki teljast til Norðurlanda. Jahananú. Þetta voru samt mjög fróðlegir fyrirlestrar og umræðurnar að þeim loknum þar sem velt var upp spurningunni "Hver eru vandamál og hverjir eru möguleikar ungs fólks í norrænu samstarfi?" virkilega góður undirbúningur fyrir "háskólatrúboðið" okkar síðar um daginn.

Á háskólalóðinni tjölduðum við til fánum, söngvum, bæklingum, pennum og flugumiðum á veiðum eftir Norðmönnum, áhugasömum um norrænt samstarf. Klaus gekk jafnvel svo langt að ganga mót bláókunnugum ungmeyjum til að bjóða þeim í bíó; og átti þar við stuttmyndakvöldið.

Ein þýsk stelpa mætti á stuttmyndakvöldið og hún ásamt þremur Norðmönnum tók þátt í bæði málþinginu og vinnusmiðjunum daginn eftir. Allt tókst þetta sérdeilis prýðilega og við erum alveg örugg um að nú verði stofnaður systurklúbbur Nordklúbbsins í Osló, en það var einmitt tilgangur ferðarinnar.

Á sunnudeginum fylgdi Mona okkur um Vigelandparken, Akershusfestning og allt niður á höfn þar sem við tókum strætó-bát til Bygdöy. Almenningssamgöngur í Osló eru ansiskemmtilegar: strætó, bátur, sporvagn, lest og neðanjarðarlest - allt í boði. Báturinn flutti okkur á nes með nafn eyjar, svipað og Örfirisey í Reykjavík, nema hvað þarna úir og grúir af söfnum og glæsivillum.

Við fundum íslenska sendiráðið og stigum þar í garðinum á "íslenska grund" auk þess sem sjoppa í nágrenninu seldi íslenskt Freyju-sælgæti, heilsuðum svo upp á styttur frá Páskaeyju og skoðuðum gamlar skútur með tröllanöfnum. Um kvöldið var okkur vísað til sætis undir gömlu og lúnu korti af Íslandi á Peppes Pizzustaðnum (mæli með Thai Chicken og Tasty Veggie pizzunum).

Á mánudagsmorgni misstu ferðafélagar mínir sig í H&M (eða höfðu það a.m.k. í hyggju) og svo var haldið heim með afganga af harðfiski og þurrkuðu háhyrningskjöti í nesti, samferðamönnum okkar til mikillar gleði.

Eftir heimkomu var haldinn aðalfundur Nordklúbbsins. Þar tók Jóhannes við formennsku og allt fylltist af nýju fólki í stjórn, okkur öllum (nýjum sem og gömlum Nordklúbburum) til mikillar gleði. Daginn eftir flaug ég norður yfir heiðar í faðm fjölskyldunnar á Akureyri.

Þar reyndi ég eftir fremsta megni að hjálpa hvorki of mikið til né gera of mörg prakkarastrik - heldur slappa af, synda, spjalla yfir tebolla, leika, ganga, rölta og skoða mig um. Auðvitað tókst ætlunarverkið ekki fullkomlega, en þó alveg ásættanlega - ég gerði bara svolítil saklaus prakkarastrik fyrir afa og ömmu og braut saman nokkur fataplögg hjá Hlyni og Kristínu.

Það var gott að dvelja í Ásabyggðinni með krílum og kisum. Öllum líður þar svo ósköp vel og vá, hvað það er búið að gera fínt með nýjum gluggum og fleiri betrumbótum hér og hvar. Yngsta krílið, Una Móeiður, fékk að sjálfsögðu mestu athyglina, enda hef ég ekki þekkt hana jafnlengi og Lóu og Huga, sem tjah, já, varla geta talist kríli lengur - eiginlega bara alls ekki - orðin 9 og 15 ára...

Þau Hlynur og Kristín eiga líka hlut í íbúð í Berlín. Svona líka heppilega nýflutt þangað frá Hannover og ég fæ að njóta þess nú í næstu viku þegar ég held á vit fleiri ævintýra í Freiberg.

Set inn myndir bráðlega en fram að því getið þið skoðað nokkrar hér.

Engin ummæli: