17 júní 2006

Sagan af þessu og hinu og fleiri sögur

Hvar skal byrja? Allt á fleygiferð! Ætli það sé ekki best að skrifa bara eins og það kemur í kollinn og hirða lítið um tímann að þessu sinni? Helst mundi ég vilja geta talað inn á bloggkerfið og sleppa þannig við að hanga fyrir framan tölvuskjá - gert eins konar útvarpspistla fyrir ykkur!

Það er engin nýlunda að ég fái marbletti á furðulegustu staði án þess að hafa hugmynd um hver orsök þeirra er. Tveir slíkir eru til að mynda á hnjánum núna. En nú bregður svo við að ég veit orsök tveggja. Hér skal sagt frá þeim.

Eftir salíbunurnar mínar niður Ölfusá á björgunaræfingunni fyrir viku tóku aðrir við buslinu og ég lærði að bjarga þeim með kastlínu. Til að komast lengra út í straumharða ána fórum við tvö til þrjú saman í hring út í á svipaðan hátt og leikmenn handboltaliðs stappa stálinu hver í annan. Eitt hollið kom þannig á fleygiferð niður eftir og við náðum að krækja í tvo þeirra, ég og Svava. Vandinn var bara sá að kastlínurnar krossuðust svo hefði ég strekkt og byrjað að sveifla Palla í land, þá hefði Hjalti Steinn misst höfuðið! Þannig að í stað þess að strekkja þá slakaði ég og vippaði bandinu yfir Hjalta. Á meðan á þessu stóð flaut Palli auðvitað áfram og hluti kastlínunnar höndum mér styttist svo ég byrjaði að hlaupa meðfram bakkanum til að ná betra taki. En þá var orðið erfitt að toga svo ég hentist á stein og var við það að fara út í á þegar Eva kom mér til bjargar og með sameiginlegu átaki okkar tókst að koma Palla í land. Ég var svolítið aum í kjálkanum en gleymdi því strax enda adrenalínflæðið við björgunarstörfin yfrið nóg til að gleyma slíkum smámunum. Tveim dögum síðar kom þessi fíni marblettur.

Eftir mikið skólastress í vetur voru axlirnar á mér komnar upp að eyrum. Þetta hefði nú örugglega ekki gerst ef jógatímarnir hefðu ekki stangast á við Matlab-kennslu og diffurjöfnudæmatíma en nú var sumsé svo komið að Þóri leist það illa á þetta að hann skipaði mér að fara í nudd. Hér á Hrísateignum er nýlega komin nuddstofa svo ég labbaði þangað yfir í vikunni og spurði hvort tekið væri við nýjum viðskiptavinum. Þetta varð vægast sagt mjög sérstök lífsreynsla og varla að það skuli kallað nudd - frekar meðferð eða eitthvað slíkt.

Ekki einasta var ýtt á hina ýmsu punkta, stungið í mig nálum hér og hvar, hálsinum hnykkt þannig að brakaði til næsta bæjar og lýst á magann með skrýtnu tæki - heldur var ýmiss konar andleg íhugun, orkuflæði og fleira með í kaupinu svo ég þurfti að hafa mig alla við að falla ekki í "hvaða helvítis vitleysa er þetta?!"-gírinn. Það kom sér þarna sannarlega vel að hafa lent í Rösrath-brjálæðinu og prófað furðulegustu hluti sumarið eftir það - því þetta var alveg magnað og ég hefði fyrir alla muni ekki viljað missa af þessari upplifun. Ein nálin reyndar hitti þannig á að núna er stórt blátt mar á öðrum upphandleggnum. Kannski því sé ætlað að minna mig á að fara nú aftur að stunda jógaæfingar?

Í dag gengur Bergur í heilagt hjónaband. Hann tók þátt í borgaralegri athöfn í stað kirkjufermingar eins og ég en nú skyldi stormað í kirkju með frúna verðandi. Eina babbið í bátnum var að á miðvikudaginn var Bergur enn staddur uppi á Vatnajökli og ekki útlit fyrir heimkomu í bráð þar sem leiðangursmenn urðu fyrir ótrúlegustu skakkaföllum í ferðinni. Sverrir kom því til mín og spurði hvort ég væri til í að sækja Berg inn í Jökulheima. Hvort ég var! Fyrst skyldi skotist með þrýstingsnema út á flugvöll til að senda austur til Gunna, Palla og Hjalta og síðan hafði ég korter til að taka mig til í jöklaferð. Eins gott að ég var búin að safna öllum vinnugallanum saman í poka eftir Ölfusárævintýrið - greip pokann, svefnpoka og nægan mat fyrir sólarhringsvist og þaut af stað.

Upphaflega átti ég nú bara að komast inn í Jökulheima, hitta björgunarsveitarmenn þar og afhenda þeim eitthvert mælitæki. Þeir áttu síðan að koma mælitækinu upp á jökul, sækja Berg af jökli og koma honum í bílinn en þar sem leiðangursmenn á jökli þurftu ýmiss konar aukabúnað riðlaðist skipulagið svolítið meðan við redduðum 600 metrum af snæri, frostlegi og fleiru. Við sendum því annan björgunarsveitarmanninn eftir aukabúnaðnum en ég hélt áfram ásamt hinum manninum á Reyk inn að Tungnaá. Áin leit nú ekki vel út enda við á versta tíma sólarhringsins til að fara yfir. Að lokum hófst þetta nú allt, búnaðnum skilað og Bergi komið til byggða.

Sólarhringsnestið mitt hvarf ofan í sársvangan ferðalanginn og ætli hann hafi síðan ekki bara sofið næsta sólarhringinn, ég gæti ímyndað mér það, því þeir fengu víst þriggja upp í max sex stunda svefn á hverri nóttu - unnu lengst 23 tíma í lotu við erfiðar aðstæður! Þegar við fórum var allt í volli, mælibúnaður fastur í borholu á 200 metra dýpi og óvíst um hvort takast myndi að ná vatni úr Skaftárkatlinum. Þetta hófst síðan allt að lokum og síðustu leiðangursmenn komu í bæinn seint í gærkvöldi eftir erfiða en árangursríka ferð.

Á leið niður af Þjófavatnaleið mættum við ogguponsulitlum hvítum bíl merktum bílaleigu. Ogguponsulítill þýðir bíll á stærð við Fíatlús! Inni í bílnum sátu í kremju fjórir ferðamenn ráðvilltir á svip. Við stoppuðum til að tékka á þeim og fengum þessa spurningu úr sardínudósinni: "Excuse me, are we on the road to some kind of a restaurant or hotel?!". Múha! Við áttum nú bágt með að halda niðri í okkur hlátrinum því þau voru svo sannarlega ekki á slíkri leið!!! Sögðum þeim að fylgja okkur og lóðsuðum þau niður í hálendismiðstöðina í Hrauneyjum. Þar sagði ég þeim á hvaða leið þau hefðu verið - "...to the middle of nowhere with glacierriver and then the glacier..." þau litu á okkur skelfd á svip og þökkuðu margfaldlega. Ef ekki má segja "lucky bastards" um svona tilfelli þá veit ég svei mér ekki ekki hvenær á að nota þau orð!

Sé fólk annars á leið þarna upp eftir þá er vel þess virði að kíkja á minnismerkið um Sigurjón Rist í leiðinni. Bergur benti mér á það og ég hef sjaldan séð jafnvel heppnaðan minnisvarða. Sigurjón stendur þarna í pollagalla eins og hálfur á kafi með járnkarl ofan á rústum af brunnmæli - ekki hægt að hugsa sér það betra! Brjóstmynd eða óræður jakkafatabúkur hefði nefnilega verið afar óviðeigandi. Um það getið þið sannfærst með því að lesa um lífsstarf þessa frumkvöðuls í vatnamælingum á Íslandi.

Þetta hefur verið mikil tónleikasóknarvika hjá mér. Kórinn hennar Sölku kom frá Wales til að syngja madrígala. Þau voru nú frekar fölsk í madrígölunum en miklu betri í nokkrum íslenskum þjóðlögum, welskum og enskum sönglögum. Helst var þar um að kenna ójafnvægi í röddunum - þarna voru tveir hörkusópranar og tveir þrumubassar en altarnir létu lítið í sér heyra og tenórarnir swinguðu fullmikið. Stjórnandinn var líka ekki alveg nógu ákveðinn og hjálpaði lítið í erfiðari verkunum. Þetta var þó hin ágætasta kvöldstund og þetta kannski fulharður dómur? Ætli ég sé ekki bara of góðu vön eftir Jónsauppeldið...

Moskvitsj er hætt að vera búlgarsk-grísk-jiddískt stuðband. Trommarinn varð eftir í verksmiðjum Volvo í Svíþjóð og í staðinn kom ljóðrænn, nokkuð spastískur gítarleikari. Hann er mjög góður en erfitt að horfa á hann spila og tónlistin orðin mun rólegri með hann innanborðs. Ég saknaði samt stuðsins ekki svo mjög því nýju lögin voru falleg og með alls konar óvæntum uppákomum sem gerðu þau skemmtileg að auki.

Stórsveit Nix Noltes fannst mér hins vegar miklu skemmtilegri þegar stuðið var allsráðandi. Rólegu lögin voru bara leiðinleg til lengdar fannst mér. Kannski voru það vonbrigði? Ég bjóst jú við miklu dansstuði. Nei samt ekki, því mér leiddist aldrei á Moskvitsj þótt þar væru rólegheitin líka tekin við. Ætli veðrið valdi þessum doða í stuðsveitunum? Þessi endalausa rigning hefur kannski róandi áhrif á þær...

Annars var eitthvert stórskrýtið lið þarna á tónleikunum útúrdópað. Tveir náungar stöðugt með svívirðingar og annar þeirra réðist á Brútalmanninn með karatespörkum! Alveg út í hött... Mamma hennar Önnu Kristínar dansaði rosaflottan dans og svo var Veska þarna með búlgörsku dansana sína en æj ég fæ alltaf hálfgerðan kjánahroll yfir þeim, þeir eru svo stífir eitthvað! Mig langar bara að dansa eitthvað út í bláinn sem kemur í magann, fæturna og hendurnar. Það var nokkuð erfitt þetta kvöld vegna rólegra laga, dópista og almenns rugls.

Þarna á tónleikunum var Guðný yfireðla komin í stuttu skrópi frá Humboldt í Berlín. Gaman að hitta hana! Hún fór inn í Diplomnám eins og ég kem til með að gera og bar því misgóða söguna. Kostir og gallar á þessu kerfi. Við til að mynda komum með öðru vísi grunn - B.S. og Vordiplom hefur ekki alveg sama kjarna - og síðan þarf að lesa upp öll fimm árin (út frá þeirra Vordiplom að sjálfsögðu) í Diplom-Hauptprüfung í lokin. Úffpúff, hljómar ekki vel, en jújæja Guðný sagði að það væri gaman að lesa yfir allt og fá samhengi svo trallara, það er bara að spýta í lófana. Getur heldur ekkert verra gerst en að ég skipti yfir í eitthvað annað.

Ólöf Arnalds er einstök. Það mun seint gleymast hvað hún lagði mikinn metnað í tónverkið sitt á Skrekk fyrir Laugalækjarskóla. Það var sko stundum allt í háalofti á æfingum til að ná þessu alveg fullkomnu. Hugsa sér að þá var hún bara 15 eða 16 ára! Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Mér finnst að Sjónvarpið ætti að kaupa sýningarrétt á myndbandinu hennar og sýna það á einhverjum góðum tíma svo sem flestir geti séð það.

Kvöldið byrjaði á strengjaplokki og söng frá hjartanu. Þar sem fiðla var aðalhljóðfærið hennar síðast þegar ég vissi bjóst ég við einhverjum vinnukonugripum á gítarinn og hin gítarlegu hljóðfærin sem ég kann ekki að nefna en það var sko aldeilis ekki! Váminnsann þetta var svo flott. Samfelldur hrollur af mörgum gerðum tilfinninga niður bakið allan tímann. Orðið sem mér datt helst í hug var "englatrúbadúr" en annars er erfitt að skilgreina það, nauðsyn að heyra sjálfur. Heimildarmyndin og úrvinnslan á því var síðan svo heilsteypt og útpæld (þó algerlega án þess að vera fyrirsjáanleg), góð og fersk hugmynd - vá, vá, vá! Sannkölluð fjöllistakona.

Það var svo heitt í bænum um síðustu helgi að ég skil ekki enn hvernig við fórum að því að dansa svona mikið. Tröll hefði getað tekið mig og undið eins og tusku og það hefði verið pollur á gólfinu, ég var svo rennandi blaut af svita! Núna var rólegri stemmning fannst mér. Fólk kannski að spara sig fyrir þjóðhátíðardaginn? Af tilviljun var ég einmitt í íslenskri landsliðstreyju þegar 17. júní fæddist. Bjarki hafði þó viðhaft öllu meiri undirbúning fyrir daginn - búinn að safna þessu glæsilega Jóns Sigurðssonar skeggi! Jah, ég skal sko segja ykkur það...

Undanfarna daga hef ég verið sem hundur af sundi dreginn upp á nánast hvern einasta dag eftir hjólferðir. Hvenær slotar þessu votviðri? Farin að læra á þetta og tek með aukaföt hvert sem leiðin liggur. Það kom sér vel á Árbæjarsafni þótt það hefði svo sem verið viðeigandi að standa blaut og hrakin í tjaldinu í rigningunni - útihátíðarstemmning. Tilefnið var opnun sýningar um diskó og pönk á Íslandi 1975-1985. Mæli með þeirri sýningu, hún er ekkert smá flott! Helga, Guðbrandur og þau hin eiga lof skilið fyrir þetta framtak.

Þarna voru komnar diskódrottningar og pönkrokkarar til að segja svolítið frá árdögum sinanr unglingamenningar auk Fræbblanna sem komu sér fyrir í "bílskúr" pönkmegin í sýningunni. Vissuð þið til dæmis að í Álfabakkanum var opnað stærsta diskótek í Evrópu á sínum tíma? Það var sko fullt fleira sem kom á óvart þarna. Þeir sem þekkja Johsa hreinlega verða líka að sjá hann í fullum pönk"skrúða" - þessi prúði fiðludrengur sem venjulega sprangar um svæði Árbæjarsafns í hnébuxum og marghnepptu vesti allt í einu kominn með hanakamb, hringi í nef, munn og eyru, með augnmálningu og ég veit ekki hvað! Ég hreinlega þekkti hann ekki!

Ekkert hefur heyrst frá íslenskunemandanum mínum síðan HM í fótbolta hófst. Ég er satt best að segja svolítið fegin. Bæði hefur verið mikið um að vera og svo leiðist mér þegar nemendur sýna enga framför. Í allan vetur hef ég reynt að koma með gommu af skemmtilegum uppástungum (þær eru alla vega skemmtilegar að mínu mati) til að læra íslensku en hann fer aldrei eftir þeim - vill bara fá einhverja orðalista, læra þá utan að og láta mig hlýða sér yfir. Hundleiðinlegt! Svo segir hann ennþá Lágardalúr (með hörðu g-i) í staðinn fyrir Laugardalur þótt hann fari þangað nánast á hverjum degi og ég spyrji hann að því orði í hvert skipti sem við hittumst. Held ég sendi boltann á einhvern annan og finni mér nýjan nemanda.

Um næstu helgi verður útskrift frá háskólanum. Búið að vera heilmikið stapp að koma saman lista yfir námskeið sem allir voru sáttir með: deildarskrifstofa Raunvísindadeildar, Stærðfræðiskor og Skor þýsku og Norðurlandamála. Ég fékk á sínum tíma samþykkta námsferilsáætlun sem hljóðaði upp á rúmar 102 einingar, þar af kringum 70 í stærðfræði og 30 í þýsku. Við það bætast síðan verkfræðieiningar og einhverjar aukaeiningar í þýsku sem ég hef sankað að mér. En það má víst ekki útskrifa stúdenta með fleiri en 90 einingar og því fór í gang heilmikið ferli til að ákveða hvaða námskeið mætti fella út af sjálfu útskriftarskírteininu. Frekar fúlt að sjá á eftir þýskunámskeiðum sem mér hefur gengið glimrandi vel í og aumingjans meðaleinkunnin hrapaði hratt... Í sárabætur mun ég víst fá aukalega eitthvert staðfestingarskírteini sem sýnir hversu miklu ég lauk í raun og veru.

Útskriftarhelgina fer einnig fram íslenskunámskeið fyrir Nordjobbarana. Við erum búin að púsla saman geysispennandi dagskrá fyrir þau. Vorum eitthvað að spá í söng inn á milli en mér er eiginlega hætt að lítast á það eftir að hafa hlýtt á frammistöðu þeirra á karókíkvöldi. Henni má lýsa í einu orði: ÚFF! Ein söng svo skerandi að ég er þess fullviss að Ölversglösin hafi brotnað í hrönnum. Það minnir mig á að spyrja hina fregna af glösunum því ég hélt þetta ekki út og flúði á aðra tónleika.

Undirbúningur fyrir Oslóför Nordklúbbsins er líka í fullum gangi. Þeir sem vilja fá fregnir af því öllu geta fylgst með á síðunni okkar og/eða skráð sig á póstlista Nordklúbbsins. Dagskráin er reyndar aðallega fyrir Nordjobbarana núna í sumar en alltaf eitthvað fyrir alla inn á milli. Ljósmyndanámskeiðin sem eru í gangi núna eru til dæmis eitthvað sem ég er viss um að einhver ykkar hefðu áhuga á. Ég ætla að skella mér ef ég verð ekki send aftur á fjöll með stuttum fyrirvara.

Það eru rosalega margir með hálsbólgu núna, jafnvel einkyrningssótt! Ekki gaman það. Held ég láti þetta standa án mynda, þotin inn í nýja viku...

Engin ummæli: